16.12.1952
Neðri deild: 41. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. Reykv. er áhyggjufullur yfir því, að gagnsemi þessara sjóða muni verða skert fyrir þá, sem þeirra eiga að njóta, með því að selja jarðirnar. Þessi skoðun hans getur mjög orkað tvímælis, því að það er vitað, að til þess að hægt sé að halda byggð á jörð hér hjá okkur nú, þarf að gera á henni umbætur. Þær jarðir, sem engar umbætur eru gerðar á, stefna ört að því, að þær fari í eyði. Nú er svo ákveðið í l. um úttekt og ábúð jarða, að lagðar eru allríkar skyldur á herðar jarðareiganda um þátttöku í þeim umbótum, sem gerðar eru á jörðinni, hvort sem ábúandinn hefur frumkvæði að því ellegar ekki. En í gjafabréfum þessara jarða er svo um búið, að þar er ekki einn eyrir tiltækur til þess að mæta neinum slíkum óskum frá ábúandanum eða til þess að fullnægja þeim skilyrðum, sem sett eru í l. um afstöðu jarðareiganda til ábúanda. Þess vegna er það, að yfir þeim jörðum, sem nú eru í kristfjáreign og máske litlar eða engar umbætur hafa fengið, vofir það, að þær fari í eyði, og þannig er vitanlega alveg kippt grundvellinum undan þeim tilgangi, að jarðirnar geti svarað eftirgjaldi, sem svo á að verja samkvæmt því, sem gjafabréfin ákveða.

Nú er það svo um sumar þessara kristfjárjarða, að ábúendurnir hafa tekið sig fram um það, þrátt fyrir það að þeir hafi ekki fengið neinn fjárstyrk frá jarðareigendum, að gera þar miklar umbætur, og á sumum jörðunum mjög miklar umbætur, t.d. eins og á þeirri jörð, sem ég minntist hér á í minni fyrri ræðu. Þar er búið að byggja upp öll hús, íbúðarhús og peningshús. Það er búið að rækta þar geysilega mikið. Það er búið að þurrka mikið af landi jarðarinnar, girða landið og yfirleitt að gera þær umbætur, sem fyllstar eru nú í sveitum þessa lands. Auk þess er búið að leggja veg alllanga leið heim að þessari jörð, þar er kominn sími, þar er komið rafmagn og yfirleitt allt í fyllsta standi. Nú er af hálfu jarðareiganda ekki neitt til þess að svara ábúandanum, ef hann fer af jörðinni, verður að yfirgefa hana, eða þá erfingjum hans að honum látnum. Það er ekki neitt til neins til þess að inna af hendi neinar greiðslur fyrir ævistarf þessa manns. Og þó að hv. 2. þm. Reykv. bendi á hér, að e.t.v. megi finna einhverja leið til þess, þá held ég, að það mundu verða nokkrir erfiðleikar á þeirri leið, hitt liggi augljóslegar og eðlilegar fyrir, að þessi jörð verði seld og af andvirði jarðarinnar verði myndaður sjóður, sem svo standi undir því hlutverki, sem gjafabréfið ákveður. Með þessum hætti er tryggt, að tilgangi gefandans sé náð. Ef umbætur hefðu ekki verið gerðar, þá hefðu forlögin orðið þau, að tilganginum hefði ekki verið náð, af því að jörðin hefði þá farið í eyði og engar tekjur gefið. Ég held þess vegna, að það sé eina leiðin út úr þessu að selja ábúanda jörðina, og ég álit það ekki vera neina vandræðaleið, því að við megum vera þakklátir þeim mönnum, sem hafa varið fé sínu og starfi í það að byggja upp þessar jarðir, eins og öðrum, sem helga slíku starfi krafta sína úti um hinar dreifðu byggðir þessa lands, því að enn sem komið er eygjum við ekki, að ég ætla, annað meira framtíðarinnar traust heldur en það, sem í því er fólgið að rækta og byggja upp sveitir þessa lands.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði um það, að ekki mætti selja neina þjóðjörð öðruvísi en það yrði að samþ. lög hverju sinni, þá er þetta náttúrlega engan veginn rétt. Þau ákvæði gilda um meginhluta af öllum þjóðjörðum, að það er hægt að selja þær, án þess að það þurfi að leita til þess lagasamþykkis hverju sinni, því að hverja þá þjóðjörð, sem fer í erfðaábúð, hefur ábúandinn, eftir að hann hefur setið þar í þrjú ár, óskoraðan rétt á að fá keypta með þeim skilyrðum, sem um það eru sett í lögum.

Ég vildi aðeins taka þetta fram hér til viðbótar því, sem ég hef áður um þetta sagt. Ég tel sem sagt, eins og nú er komið, mjög brýna nauðsyn, að það sé leyst úr þeim erfiðleikum, sem við mætum viða nú, eins og komið er um ábúð á þessum jörðum. Jafnframt felur þetta í sér þýðingarmikið atriði, sem sé að girða fyrir, að svo geti farið, að þessar jarðir fari í eyði og þar með verði glatað þeim góða tilgangi, sem gefandinn hefur haft í huga, þegar hann gaf út gjafabréf fyrir þessum eignum.