20.01.1953
Neðri deild: 53. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1281 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Jón Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér, eins og þið hafið heyrt, brtt. við frv., sem hér liggur fyrir. Samkv. frv. er heimilt að breyta skipulagsskrám sjóða og stofnana, þ. á m. að selja fasteignir, sem þessum sjóðum og stofnunum hafa verið lagðar til, til ævarandi eignar, og fleira í þessu sambandi. Að mínu áliti eins og fleiri er hér um mikið vandamál að ræða, og það hlýtur ávallt að vera talsverður ábyrgðarhluti að breyta hvort það er dánargjöfum eða ákvæðum löngu liðinna manna. nema því aðeins að þess sé mikil og brýn þörf. Ég þykist líka sjá ýmsa vankanta á þessu, og þó tel ég engu að siður, að tæplega verði hægt að komast hjá breyt. eins og nú er komið og þá eitthvað á þá lund, sem frv. gerir ráð fyrir, enda þótt ég hefði kosið, að það hefði verið nokkuð á annan veg.

Þær ástæður, sem knýja mig til þessarar afstöðu, — í raun og veru á móti vilja mínum, — eru, að sum gjafabréfin eru orðin jafnvel mörg hundruð ára gömul, og það á öllum að vera ljóst, að á þeim tíma, sem liðinn er síðan ákvæðin voru sett, hafa orðið stórkostlegar breytingar á marga vegu, bæði breytingar á þeim verkefnum, sem þessum sjóðum voru ætluð, og aðstöðunni til þess að leysa þau verkefni af hendi, sem þessum sjóðum var ætlað að vinna. Sömuleiðis eru nú notaðar allt aðrar leiðir til að geyma og ávaxta fé, en þá var. Þetta gerir það að verkum, eins og þegar hefur verið bent á hér í umr., að varla er hægt annað, en gera hér á nokkrar breyt. En jafnframt þessu tel ég það skyldu Alþ., því að ég tel, að Alþ. taki á sig nokkrar skyldur með því að hafa forgöngu um slíka lagasetningu, að ganga þannig frá þessum málum, að sem bezt verði fullnægt óskum gefendanna og tilgangi þeirra. Þetta hygg ég að ætti að vera sæmilega auðvelt að því er verkefnin snertir, en öðru máli gegnir um þann höfuðstól, sem hefur verið geymdur í fasteignum. Hann hefur í mörgum tilfellum varðveitzt mikið til í sínu fulla gildi, síðan gjöfin eða eignin var afhent. Fasteignir, sem seldar eru nú á frjálsum markaði og sæmilega eru í sveit settar, halda mikið til sínu gamla verðgildi, og ég efast ekki um það með sjálfum mér, að ef gefendurnir væru spurðir nú og ef þeir gætu svarað, þá mundu þéir út af fyrir sig samþ. söluna eins og nú er komið. En ég er jafnsannfærður um það, að þeir vildu eða mundu óska eftir, að nokkur trygging væri sett fyrir því, að sú krónuupphæð, sem fengist fyrir þessar eignir, yrði ekki verðlaus eða hyrfi, ef svo mætti segja, er fram liðu stundir.

Þess vegna hef ég lagt til, að ríkið gengi í ábyrgð fyrir því, að þessir sjóðir rýrni ekki að verðgildi. Þetta tekur eingöngu til þess fjár, sem er andvirði þeirra fasteigna, sem seldar eru eftir að þessar breyt. fara fram. Í mínum augum er þetta nánast drengskaparatriði gagnvart þeim sæmdarmönnum, sem á sínum tíma gáfu þetta og áreiðanlega í góðum tilgangi. Það er í mínum augum drengskaparatriði og skiptir í raun og veru sáralitlu fyrir ríkissjóð, því að hér er í raun og veru um svo nauðalítið að ræða.

Eins og frsm. n. sagði, þá verður hver að hafa sína skoðun um þetta. Ég geri þetta ekki að neinu kappsmáli. Ég vil aðeins bera þetta fram, af því að ég tel, að þetta sé rétt gagnvart þeim mönnum, sem upphaflega gáfu þessar gjafir.