23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1284 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv., sem eru á þskj. 561. Innihald þeirra er raunverulega það, að í staðinn fyrir að afgreiða þessi mál með heimíld til handa ráðh. og eftirlitsmönnum sjóðanna í eitt skipti fyrir öll til að geta ráðstafað þessum eignum, sem hér er um að ræða, þá þurfi í hvert skipti, sem gerð er breyting á skipulagsskrá viðkomandi sjóðs eða stofnana, að fara fram ákveðin lagabreyting um það á Alþ.

Ég býst ekki við, að ég þurfi sérstaklega mikið að gera grein fyrir afstöðu minni. Þessar brtt. eru í beinu samræmi við það, sem ég áður hef haldið fram um afgreiðslu þessa máls og um okkar rétt nú á tímum til þess að breyta þessum hlutum, sem hafa staðið hér svo margar aldir. Það er ekki vegna þess, að ég skilji ekki fyllilega rök þeirra hv. þm., sem benda á þau óþægindi, sem ýmsum ábúendum stafa af því að geta ekki fengið ýmislegt, vegi og annað, sem samrýmist efnahagsskilyrðum nútímans. Ég álít, að við verðum að reyna að koma því svo fyrir, að ríkið gangi svo að segja inn í þessi mál hvað það snertir að taka á sínar herðar þær skyldur, sem eiganda sjóðsins eða stofnunarinnar eru lagðar á herðar með nútímalöggjöfinni. Allur tilgangurinn með þeim sjóðum og stofnunum, sem hér er um að ræða, er að einhverju leyti almannaheill, og það er ekki nema eðlilegt þess vegna, að svo miklu leyti sem skyldur lentu á herðar þessum sjóðum og stofnunum, sem óeðlilegt væri að geta gengið út frá að þær stæðu undir, að ríkið taki að sér að hlaupa þar undir bagga. Hins aftur á móti, að breyta alveg almennt öllum þeim aðstæðum, sem þessar stofnanir og þessir sjóðir starfa undir, álít ég, að við höfum ekki rétt til. Við skulum muna það, að með þessum stundum margra alda gömlu gjafabréfum er eigandinn, sem upprunalega var, að gefa þessar jarðir eða sjóði til ákveðinna almenningsheilla, og sá, sem er sá raunverulegi eigandi þessara sjóða nú, sem sé sú stofnun, sem á að vinna að ákveðinni almenningsheill í þessu sambandi, hefur raunverulega sinn rétt alveg hreint eins og hverjir aðrir aðilar samkv. stjskr. um, að hennar eignarréttur sé verndaður. Það er alls ekki hægt að svipta þessar aldagömlu stofnanir, sem þarna er um að ræða, þeim eignarrétti, sem þarna á í hlut, án þess að fara um það að öllu leyti eftir stjskr. Hér er verið að gera allt aðrar ráðstafanir, sem raunverulega mundu jafngilda því, að það væri meira eða minna verið að taka þessar jarðir raunverulega úr eins konar almenningseign, vegna þess að þetta er á víssan hátt til almenningsnota, almenningsheilla, stundum takmarkað við einstaka hreppa og sýslur, stundum viðara, og það er þess vegna ekki nema eðlilegt, að þessar stofnanir fái að njóta þess öryggis, sem almennt þykir rétt að taka tillit til, þegar aðrir eiga í hlut.

Hv. þm. Borgf. hefur hér við þessar umr. alveg sérstaklega kvartað undan þeim óþægindum, sem af þessu stafi fyrir einstaka ábúendur eins og nú sé háttað á þessum áratugum. Ég veit, að hann mun ekki sízt hugsa þar um eina af frægustu kristfjárjörðum landsins, Reyni, og ég verð nú að segja það, að ég held, að menn verði, þegar menn athuga svona mál, að reyna að venja sig á að hugsa ekki í árum en öldum, — taka tillit til þess, hvort sá gefandi, sem gefið hefur þetta í góðum tilgangi upphaflega, mundi nú raunverulega hafa kært sig um það og hvort það mundi samrýmast tilgangi þessarar stofnunar, að jarðirnar væru núna teknar úr eign þessara stofnana, seldar nú fyrir peninga og svo yrðu kannske slíkar jarðir — við skulum segja eftir einn eða tvo áratugi — orðnar máske með dýrmætustu jörðum á landinu. Við þurfum ekki langt að leita. Á þessari hálfu öld, sem við höfum lifað, hefur breytingin á því, sem voru tiltölulega verðlitlar jarðir hérna t.d. í Reykjavík, orðið slík, að það eru nú margra milljóna verðmæti, sem áður var máske gefið. Það er ekki langt síðan hver maður gat hér í Reykjavík fengið útmælda lóð gefins af ákveðinni stærð. Ýmsar af þessum jörðum, sem hér er um að ræða, geta eftir nokkra áratugi verið orðnar slíkar lóðir. Ég hef a.m.k. þá trú á byggingu Íslands, að það sé vel hægt að hugsa sér, að jarðir, sem nú er verið að ráðstafa svona og fleygja fyrir svo að segja ekkert, taka meira að segja frá stofnunum, sem við höfum ekki rétt til að taka þær frá, verði eftir nokkurn tíma, nokkra áratugi, orðnar ákaflega dýrmætar, og þá væri betur, að þær væru í eigu þessara stofnana, sem hvort sem er eru búnar að eiga þær í fjórar, fimm, sex aldir. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til þess, að við gerum breytingu á þessum hlutum, nema þá í hverju einstöku tilfeili, sem þetta kemur fyrir, og þá að vel íhuguðu máli út frá því sérstaka tilfelli, sem um er að ræða.

Ég sé, að hér hafa komið fram, eftir að mínar till. komu fram, brtt., sem eftir er að mæla fyrir, á þskj. 570, og eru á ýmsan hátt þannig, að ég gæti fellt mig við a.m.k. aðra þeirra, og ég vildi . mega mælast til þess við hæstv. forseta, að þegar þessar brtt. yrðu bornar undir atkv., þá yrðu mínar till. bornar upp fyrst, þannig að mér gæfist tækifæri til að greiða annars atkv. með hinum. Ég held, að það eigi ekki að vera neitt sérstakt í veginum fyrir því í innihaldi þessara till.