23.01.1953
Neðri deild: 56. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1286 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, hefur gengið í gegnum hv. Ed., og hv. allshn. þessarar d. mælir með samþykkt þess einróma. Síðan hafa borizt brtt. við frv. á þrem þskj., í fyrsta lagi frá hv. 2. þm. Skagf. á þskj. 550, í öðru lagi frá hv. þm. V-Húnv. og 2. þm. Skagf. á þskj. 570 og í þriðja lagi frá hv. 2. þm. Reykv. á þskj. 561.

Ég er nú dálítið undrandi yfir því, hvað menn virðast vera ákaflega hræddir við að samþ. þetta frv. Hér eru sannarlega verulegar hömlur á, og ætti ekki að vera flanað út í þá breyt., sem hér er gert ráð fyrir í þessu frv., að óathuguðu eða lítt athuguðu máli. Þetta er um heimild til þess að breyta skipulagsskrá sjóða, ef forráðamenn viðkomandi sjóðs óska og eftirlitsmenn opinberra sjóða mæla með því eða þá hlutaðeigandi sveitarstjórn óskar eftir, að svo verði gert.

Ástæðan til þess, að það er farið fram á þetta, er fyrst og fremst sú, að ýmsar jarðir, sem eru eign þessara sjóða og hefur verið andmælt að selja, eru í ábúð einstakra manna, og það eru á því mjög miklir örðugleikar, að þeir fái að gera á þeim umbætur eða hafi aðstöðu til þess að gera á þeim þær umbætur, sem nauðsynlegar eru. Ég skal taka það fram í þessu sambandi, að í mínu héraði eru tvær jarðir, sem svona stendur á um og sýslunefnd héraðsins hefur umráð með, og hún hefur einróma samþykkt að óska eftir því, að það megi selja þessar jarðir. Ég fyrir mitt leyti gæti gjarnan samþ. þá brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 550, en þá finnst mér líka alveg nægilega langt gengið og ekki ástæða til þess að samþ. aðrar brtt. hér við, en ef farið er að hrófla meira við þessu frv., þá má ætla, svo langt sem nú er liðið á þingtíma, að það þýði það, að það verði ekki samþ. á þessu þingi. Þess vegna vil ég mæla með því, að það verði samþ. annaðhvort óbreytt eða þá einungis með þeirri brtt., sem hér er lögð fram á þskj. 550 frá hv. 2. þm. Skagf.