29.01.1953
Neðri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1292 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Eins og frv. liggur fyrir nú, þá er það, má segja, gerbreytt frá því það var upphaflega flutt í hv. Ed., og svo sem ég gat um við 2. umr. málsins, þá hefur þessi breyt. það í för með sér, að frv. getur ekki náð þeim tilgangi, sem til var ætlazt með flutningi málsins upphaflega í Ed. Af þeim sökum höfum við hv. þm. Borgf. leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 639, þar sem sérstaklega eru tilteknar þær jarðir eða þeir sjóðir, sem við áttum sérstaklega við, er við ræddum þetta mál hér í þessari hv. d. Þar sem, svo sem við gerðum glögga grein fyrir við 2. umr. málsins, frv. eins og það er nú getur ekki náð þeim tilgangi, sem uppfylla þarf varðandi þessa tvo sjóði, þá vildum við leyfa okkur að mega vænta þess, þar sem okkur skildist, að tilgangur þeirra hv. þm., sem réðu breyt. frv., hafi ekki verið sá út af fyrir sig að torvelda þessum sjóðum að selja þær jarðir, sem um ræddi, að hv. þd. geti fallizt á að samþ. þá viðaukatill., sem um ræðir á þskj. 639 og er eingöngu tengd við legatssjóð Jóns Sigurðssonar og sjóð þann, sem á kristfjárjörðina Reyni í Innri-Akraneshreppi. — Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, nema tilefni gefist til. Það hefur verið rætt af okkur báðum, okkur hv. þm. Borgf., og gerð grein fyrir því, hversu háttað er um jarðir þessara sjóða, og ég tel því ekki ástæðu til að skýra það mál nánar hér, en endurtek það aðeins, að náist ekki fram sú brtt., sem ég hef hér á minnzt, þá mun frv., eins og það er nú, valda miklum vandkvæðum fyrir þá aðila, sem hér eiga hlut að máli.