30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

171. mál, eftirlit með opinberum sjóðum

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur tekið mjög miklum breytingum í Nd., og n. hefur nú ekki haft rækilegan tíma til að athuga það, vill heldur ekki koma með brtt. við það, sem stefni málinu í tvísýnu. Þó höfum við nm., sem saman höfum náð, ég, hv. 11. landsk. þm., 2. þm. Árn. og 2. þm. S-M., við 4, komið með brtt. við það, sem eru þess eðlis, að við hyggjum, að þó að þær verði samþ., þá verði frv. samt sem áður samþ. í Nd., þegar það kemur aftur til hennar.

Brtt., sem við leggjum fram, verðum við að hafa skriflegar, og ég skal reyna að gera grein fyrir þeim í mjög stuttu máli til að lengja ekki tímann um of.

Það er fyrst og fremst við a-liðinn, sem verður 7. gr. í l. Þar leggjum við til, að á eftir orðunum „Reynis í Innri-Akraneshreppi heimilt að selja þá jörð“ bætist: svo og hreppsnefnd Fljótsdalshrepps, að selja kristfjárjarðir hreppsins. Þá væri í frv. ekki heimild til að leysa nauð þessara kristfjárjarða, sem við höfum talað hér um, og sjóðajarða, nema legats Jóns Sigurðssonar, Reynis og þá Fljótsdalshrepps. Ég hefði nú viljað koma þarna fleiru inn í. En úr því að þeir menn í Nd., sem þekkja mjög vel þessar jarðir, sem um er að ræða, eins og bæði Vallholt, Utanverðunes o.fl. o.fl., hafa ekki komið með þær, þá vil ég ekki vera að taka þær upp, en tek bara þær, sem eru í þeirri sýslu, sem ég er umboðsmaður fyrir, og ég þá þekki kannske bezt, hver nauðsyn er á, að séu leystar úr þeim viðjum, sem sjóðirnir halda þeim í, enda þótt ég viti nú, að hinar eru það líka.

Enn fremur leggjum við til, að aftan við fyrri gr., a-liðinn, alveg aftast, verði bætt við: „og samþykki söluverð jarðanna“. Það er ákvæði um, að sjóðanefnd skuli mæla með sölunni og líka að hún samþ. söluverðið, svo að ekki geti myndazt nein klíka af einum eða öðrum, sem selji jarðirnar óeðlilega lágu verði.

Í bein áframhaldi af þessari brtt. er svo önnur brtt., sem er við b-liðinn, að á eftir orðunum: „ákvæði í skipulagsskrá og gjafabréfi“ komi: enda samþykki eftirlitsmenn opinberra sjóða söluverðið.

Þessar þrjár breytingar eru það, sem við leggjum til, þessir fjórir menn, að gerðar séu á frv., en ég skal viðurkenna það, að ef við hefðum haft meiri tíma en núna á fundinum og hefðum getað farið betur í það, þá hefðum við sjálfsagt breytt því miklu meira. Og ég hygg, að þó að þessar breytingar væru gerðar við frv. núna, sem hér er lagt til, — og Nd. mun samþykkja það með þessum breytingum, þær eru svo litlar, — þá hugsa ég samt sem áður, að það verði óumflýjanlegt mjög fljótt að breyta þessu aftur, því að það eru margar jarðir eftir, sem kemur meira eða minna í strand með á næstu árum.

Ég skal svo afhenda forseta þessar till. frá okkur fjórmenningunum. Við náðum ekki í einn nm., þegar við vorum með þær.