20.11.1952
Neðri deild: 29. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1300 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

151. mál, málflytjendur

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, því að ég ætla ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði áðan, og sé ekki ástæðu til þess að leggja út í neinar langar eða harðar deilur við hv. 2. þm. Eyf. út af þessu máli. Þó vildi ég segja það, að það er mín reynsla út af því, sem hann sagði varðandi hæstaréttarlögmennina, að það eru yfirleitt þeir málflutningsmenn hér í Reykjavík, sem hafa bæði á undan og eftir að þeir tóku próf fyrir hæstarétti haft einna mest með málflutning allra lögfræðinga að gera hér í bænum. Og ég hygg, að það séu ekki margir, þó að þeir finnist, sem tekið hafa próf fyrir hæstarétti og hafa þá lagt málflutninginn á hilluna, ekki stundað hann nema að litlu leyti, nema þeir menn, sem kunna að hafa breytt um og hætt alveg við málflutning.

En ég vil bara að lokum til viðbótar því, sem ég sagði áðan, benda á það, hvort hv. allshn. vildi nú ekki og teldi nú ekki rétt að senda hæstarétti þetta mál til umsagnar, því að ég hygg, að hæstiréttur væri dómbærastur til þess að segja álit sitt um þetta, og það mætti treysta því, að álit hans væri út frá því sjónarmiði eingöngu, að það veldust sem beztir og öruggastir menn til þess að flytja mál fyrir réttinum. Og þótt nú sé komin 2. umr. málsins, þá vildi ég skjóta því til hv. allshn., hvort hún vildi ekki leita umsagnar hæstaréttar um þetta mál.