30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1304 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

151. mál, málflytjendur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég tek mjög undir það með hv. frsm., hv. þm. Seyðf., að það er mjög undir því komið í okkar þjóðfélagi, að málflutningsmannastétt sé heilbrigð og örugg, hafi þekkingu á þeim efnum, sem henni ber að fjalla um, og leiðist ekki vegna ákvæða löggjafarinnar í freistingu um að misfara með þann trúnað, sem henni er fenginn. Ég skil þess vegna mætavel, að allshn., sem hefur haft þetta mál til athugunar, skuli hafa athugað það vei og rækilega eins og hún hefur gert, en mér finnst þó í meðferð hennar á málinu gæta nokkurs ósamræmis eða hún ekki vera svo samkvæm sjálfri sér eða skýr sem æskilegt væri í svo vandasömu máli.

Fyrst vildi ég segja það út frá orðum hv. frsm., að hann sagði, að hann hefði að vísu talið það horfa í ranga átt, sem gert hefði verið síðustu ár, að lina kröfurnar til málflutningsmanna, en hann taldi það ekki skipta svo miklu máli, meðan það væri aðeins gert um héraðsdómslögmenn, en hins vegar vera miklu skaðsamlegra um hæstaréttarlögmennina. Á þetta get ég fallizt, en þó auðvitað ekki nema að nokkru leyti. Við vitum það glögglega, að héraðsdómslögmenn leggja oft undirstöðu málanna, og það hlýtur að verða ákaflega mikið eftir þeirra meðferð, sem framvinda málsins síðar verður, þannig að ef þeir eru ekki vaxnir sínu starfi, þá getur það haft óbætanlegt tjón fyrir alla meðferð málsins. Mér finnst þess vegna, að hv. frsm., sem einnig er formaður lögmannafélagsins og mikilsvirtur hæstaréttarlögmaður, verði að gera nokkru nánari grein fyrir því, hvort hann telur núgildandi ákvæði um héraðsdómslögmennina vera fullnægjandi eða ekki, því að vitanlega er þeirra starf slíkt trúnaðarstarf, að ef hann telur í raun og veru, eins og fólst í orðum hans, að of langt hafi verið gengið til að slaka þar á frá réttum reglum, þá er það vissulega atriði, sem verður að íhuga, og þess vegna tel ég, að honum beri sem forustumanni í þessum efnum að skýra frá því, hvar hann telur annmarkana helzt vera, þannig að þá sé hægt að leiðrétta það.

Um þetta mál, sem hér liggur fyrir, hef ég talið, að eðlilegast væri, að það færi mjög eftir áliti annars vegar lögmannanna, hins vegar hæstaréttar og lagadeildar, og ef sérstök atriði mjög varhugaverð kæmu fram, þá einnig dómsmrn. Þetta eru þeir aðilar, sem mest fjalla um þessi efni. Nú veit ég, að dómsmrn. var sent þetta frv. til umsagnar. Það hefur ekki séð ástæðu til þess að skrifa um það, vegna þess að vitað var, að brtt. svipuð þeirri, sem hér er borin fram, mundi koma fram við frv., og sá rn. þá ekki ástæðu til þess af sinni hálfu að gera athugasemd við það á þessu stigi málsins.

En einmitt í því sambandi vil ég benda á, að hæstarétti og lagadeild háskólans var sent til umsagnar upphaflega frv. Nú hefur því verið gersamlega breytt með samhljóða brtt. n. — eða verður breytt, réttara sagt, nái hún samþykki, sem líklegt er, úr því að n. er óklofin um þá till.

En mér finnst eðlilegt, að áður en menn taka afstöðu til breytingarinnar, eða réttara sagt, áður en menn taka afstöðu til þess, hvort þeir telja rétt að samþ. frv. endanlega svo breytt eins og n. leggur til, þá sé eðlilegt, að menn heyri einnig álit hæstaréttar og lagadeildar um frv. þannig úr garði gert, því að þá er það orðið allt annað mál en undir þessa aðila var borið í fyrstu. Og ef ástæða var til að bera það undir þessa aðila í upphafi, þá er ekki síður ástæða til þess að láta þá sjá frv. í þeirri mynd, sem líklegt er að það hljóti við þessa umr. Ég legg áherzlu á það því fremur, þar sem það kom fram hjá hv. frsm., að n. gengur í raun og veru lengra en rök hennar eða a.m.k. hv. frsm. standa til. Hv. frsm. skýrði frá því hér, að n. vildi líta á sanngjarnar óskir hinna yngri lögfræðinga og þar með gefa héraðsdómslögmönnum færi á því að afla sér prófmála fyrir hæstarétti. En jafnvel þó að menn fallist á þessa hugsun, og ég tel hana vissulega vera heilbrigða og rétta, þá þarf ekki að leiða þar af að ganga svo langt sem n. gerir að veita þessum aðilum ótakmarkaða heimild til að flytja öll þau mál, er þeir sjálfir og meira að segja löggiltir fulltrúar þeirra hafa flutt í héraði. Þarna er farið inn á miklu víðtækari heimild heldur en leiðir af forsendunni, sem hv. frsm. gerði okkur grein fyrir, og þess vegna finnst mér, að það þurfi nánari skýringar af hans hálfu, af hverju heimildin er höfð þetta víðari, en forsendurnar segja til um.

Þá segir hér í nál., með leyfi hæstv. forseta: „Sanngjarnar óskir þessara manna vill n. taka til greina á líkan hátt og gert er í Danmörku.“

Ég spyr um það fyrir fróðleikssakir, vegna þess að ég er því ókunnugur, hver háttur er hafður á um þetta í Danmörku: Er það sami hátturinn og n. hér leggur til? Orðalag n. virðist benda til þess, að svo sé ekki, en þá er fróðlegt, úr því að í hið danska fordæmi er vitnað, að gefa okkur skýrslu um það, í hverju mismunurinn liggur, því að vafalaust mundi það verða til frekari upplýsingar málinu.

Það má vel vera, að svipað því sem hv. frsm. hafði haft visst samráð við mig um brtt. og sýnt mér hana og ég út af fyrir sig ekkert haft við hana að athuga, þá hafi hann haft samráð við hæstarétt og háskólann um brtt. einnig, þannig að þessir aðilar hafi nú þegar a.m.k. óformlega fengið málið til álita, og það kann að vera, að hann hafi sagt frá þessu í sinni ræðu áðan, þó að ég tæki ekki eftir því. Ég varð fyrir nokkrum truflunum, svo að ég get ekki ábyrgzt, að ég hafi fylgt máli hans alveg til hlítar. En þessi atriði finnst mér nauðsynlegt að fá vitneskju um.

Þá sagði hv. frsm. einnig, að það hefði nokkuð komið fram, að því er mér skildist stéttinni til baga, að hæstiréttur hefði um of verið strangur í kröfum sínum um prófmál. Hv. frsm. sagði eitthvað á þá leið, að merki þess sæjust hjá stéttinni. Það væri fróðlegt að heyra til glöggvunar, í hverju þau merki kæmu fram og að hve miklu leyti hægt væri að segja, að þetta hefði raunverulega orðið til baga. Hér er um tvö alveg ólík atriði að ræða: annars vegar það, hvort menn vilja gera leiðréttingu á reglunum um hæstaréttarlögmenn, vegna þess að það sé nauðsyn fyrir góða dómgæzlu í landinu að fá fleiri lögmenn, eða hvort menn vilja einungis gera breytingu sem atvinnubótavinnu fyrir unga lögfræðinga. Ég játa, að hvort tveggja tillitið kunni að hafa nokkuð til sins máls, og ég tala hér alls ekki á móti rýmkuninni sem slíkri, en mér þykir skemmtilegra að gera mér þó grein fyrir, hvaða ástæður liggja til breytingarinnar, og það fannst mér ekki koma alveg nógu glögglega fram í hinni annars mjög skilmerkilegu og fróðlegu ræðu hv. frsm.