30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1306 í B-deild Alþingistíðinda. (1867)

151. mál, málflytjendur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Það hefur sennilega ekki komið nægilega glöggt fram hjá mér í framsöguræðu minni, að frv. var borið undir hæstaréttardómarana í þeirri mynd, sem nefndin leggur til að það verði samþykkt. Ég sagði að vísu, að n. vildi ganga inn á það, sem hæstiréttur gæti fallizt á, og brtt. nefndarinnar var send til hæstaréttar, og fékk ég skilaboð um það frá réttinum, að hann gerði ekki athugasemdir við hana í því formi, sem hún væri. Aftur á móti hefur það ekki verið formlega lagt fyrir lagadeildina að nýju.

Út af því, hvaða reglur gilda um þetta efni í Danmörku, skal ég taka það fram, að þar eru nú gerð þau skilyrði, sem voru upprunalega í frv., að hæstaréttarlögmenn hefðu 1. einkunn í lögfræði. En í 127. gr. dönsku réttarfarslaganna er svo um mælt, að landsréttarlögmenn, Landsretsagförere, sem starfað hafi í 8 ár, hafi leyfi til þess að flytja fyrir hæstarétti Dana bæði einkamál og opinber mál, sem þeir persónulega eða fulltrúar þeirra hafa flutt á fyrra dómstigi, ef þeir uppfylla að öðru leyti skilyrði l. til þess að vera hæstaréttarmálaflutningsmenn, en þó er þar eins og hér í till. n. það gert að skilyrði, að hæstiréttur telji manninn hæfan til að flytja málin. Það álit sitt getur hæstiréttur myndað sér bæði á flutningi málanna, en hann getur lika myndað sér það án málflutnings, ef hann sér, að maður ætlar að fara að áfrýja máli, sem alls ekki er þannig lagað, að það beri að áfrýja því. En það er einmitt eitt af störfum málflutningsmanna, sem ekki hvað minnst er um vert, eins og kemur fram í áliti hæstaréttar, að segja til um, hvort eigi yfir höfuð að tala að fara með málin fyrir hæstarétt eða ekki, valda þeim aukna kostnaði, sem það hefur í för með sér. Hér á landi er þetta mat náttúrlega talsvert vandasamara, en í Danmörku, vegna þess að þar eru svo miklu strangari skilyrði sett fyrir, að máli verði yfir höfuð að tala áfrýjað til hæstaréttar, heldur en hér.

Út af því, sem ég sagði viðvíkjandi héraðsdómslögmönnunum, þá neita ég ekki því, að ég fyrir mitt leyti tel réttast, að menn verði alls ekki héraðsdómslögmenn próflaust. Yfir höfuð að tala ættu allir héraðsdómslögmenn að taka próf, en sama heimild að vera eins og hér gildir að lögum um hæstaréttarlögmenn, að rétturinn geti að afloknum flutningi eins eða tveggja mála sleppt þeim við frekari prófmál, ef augljóst er, að þeir eru þar til hæfir. En menn hafa álitið það óviðeigandi t.d., að menn, sem hafa verið tækir sem dómarar, — það eru nú lítil skilyrði sett til þess að verða dómari, — og hafa verið dómarar í mörg ár o.s.frv., þyrftu að taka héraðsdómslögmannspróf. Ég get skilið þessi sjónarmið, en svo hefur hverja breytinguna leitt af annarri til að rýmka á þessu sviði.

Ég skal ekki fara nánar út í það, sem ég sagði, að stéttin bæri þess nokkur merki, að hæstiréttur hefði ekki verið of strangur í prófkröfum sínum. Mér er það alveg ljóst, að það er svo langt frá, að sömu kröfur séu gerðar til málflutningsmanna hér eins og t.d. eru gerðar í Danmörku, og það er varla hægt að gera það. Og ég efast um, að margir af okkur, sem nú erum hæstaréttarlögmenn, værum það, ef við ættum að uppfylla þau skilyrði, sem Danir gera til sinna hæstaréttarlögmanna. En hitt skal aftur á móti játað, að þar eru gerðar hvað mestar kröfur til hæstaréttarmálaflutningsmanna af þeim löndum, sem ég þekki réttarfarið í.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta. En ég vil leggja sérstaka áherzlu á það, að hæstiréttur getur fellt sig við þessa breytingu eins og n. leggur hana fram, og það finnst mér skipta mestu máli.