30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1307 í B-deild Alþingistíðinda. (1868)

151. mál, málflytjendur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. frsm. fyrir glögg og greið svör, sem ég tel miklu máli skipta, og lýsi ánægju minni yfir því, að málið skyldi, eins og það nú verður, vera borið undir hæstarétt. En ég vildi þá spyrja í framhaldi af því til þess að fá vitneskju um, hvort líklegt sé, að þetta mál muni leysast með þessu móti, hvort þeir lögmenn, sem hafa beitt sér fyrir breytingu og með áhlaupadugnaði fengu hv. Nd. til þess að samþ. frv., muni þá vera ásáttir með þessa breytingu eða hvort líklegt sé, að þetta verði deilumál á milli deilda nú eða e.t.v. að lögmennirnir fari að halda uppi áframhaldandi ófriði um málið. Þetta hlýtur að hafa nokkra þýðingu fyrir ákvörðun manna um það, hvort þeir telja það þess vert, að málið ná nú fram að ganga eða ekki.

Út af því, sem hv. frsm. sagði um prófraun hæstaréttarlögmanna, þá sé ég, að ég hef alveg misskilið hann. Ég skildi hann áðan svo sem hann hefði sagt, að prófraun hæstaréttar fram að þessu hefði verið nokkuð erfið og í þyngra lagi. En nú kemur það fram, að hann hefur talið, að hún hafi verið of væg. En ég spyr nú: Ef það er álit manna, að hæstiréttur hafi fram að þessu farið of vægilega í sakirnar í þessum efnum, er þá ástæða til þess að opna gáttina enn þá meira?