30.01.1953
Efri deild: 59. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1311 í B-deild Alþingistíðinda. (1871)

151. mál, málflytjendur

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er vegna fyrirspurnar hv. 6. landsk. þm., sem ég vil segja örfá orð, þó að ég geti ekki svarað þeim skýlaust eins og nú er, enda hygg ég, að hér sé um allmikið vafamál að ræða.

Það stendur í 12. gr., að hæstaréttarlögmenn skuli hafa skrifstofu í Reykjavík og vera búsettir þar eða í grennd við borgina. Svo stendur í 6. gr., að ef héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður missir einhvers hinna almennu skilyrða til að fá leyfi til málflutnings eða fullnægir ekki skilyrðum þessara laga um skrifstofu eða búsetu, þá hefur hann fyrirgert rétti þeim, er leyfið veitir, meðan svo er ástatt. Síðan er tekið fram, í beinu framhaldi af þessu: „Ef héraðsdóms- eða hæstaréttarlögmaður hefur verið sektaður þrisvar samkv. 188. gr. laga nr. 85 23. júní 1936 eða ef stjórn félags héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna leggur einróma til, að ákveðinn félagsmaður verði sviptur leyfi vegna tiltekinna óviðurkvæmilegra athafna í starfi sínu, getur dómsmrh. tekið af honum leyfi til málflutnings um stundarsakir eða að fullu og öllu, ef miklar sakir eru. Leita skal áður álits dóms þess, er hlut á að máli.“

Það er eftirtektarvert, að þarna er aðeins gert ráð fyrir afskiptum dómsmrh. í seinni málsliðnum, en ekki þeim fyrri, þannig að það er ekki ráðgert, að eiginleg leyfissvipting eigi sér stað samkv. 1. málslið 6. gr., heldur einungis seinni málsliðnum, og þar sem dómsmrn. gefur leyfi til hæstaréttarmálflutningsmanns án þess fyrir fram að hafa fullvissað sig um, að hann hafi skrifstofu, og skrifstofan sýnist ekki vera skilyrði fyrir slíkri leyfisútgáfu samkv. ákvæðum laganna, þá liggur ákaflega nærri að líta þannig á, að það sé annar aðili en dómsmrn., sem þarna eigi hlut að, og þá virðist eðlilegast, að það sé í þessu tilfelli hæstiréttur, sem með þessu eigi að fylgjast og ekki láta leyfið gilda, nema því aðeins að skrifstofuskyldunni sé fullnægt. Enn fremur kemur það til álita, að í 8. gr. laganna segir, að stjórn félags héraðsdóms- og hæstaréttarlögmanna beri að hafa eftirlit með, að félagsmenn fari að lögum í starfi sínu og ræki skyldur sínar af trúmennsku og samvizkusemi. Þarna virðist mega telja sett ákvæði um það, að stjórn lögmannafélagsins eigi að fylgjast með þessu og a.m.k. eigi hún þá að benda annaðhvort hæstarétti eða dómsmrn. á, ef stjórnin telur, að þarna sé öðruvísi farið að, en vera ber.

Ég verð þó að segja, að ákvæði laganna um þetta eru ekki skýlaus og engan veginn öruggt, hvernig með þetta eigi að fara, og þetta þarfnast sjálfsagt frekari athugunar heldur en enn hefur átt sér stað. Mér er ekki kunnugt um, hvorki þann tíma, sem ég hef verið dómsmrh., né áður, að á þetta hafi reynt, þ.e. að dómsmrn. hafi séð ástæðu til þess að hefjast handa um þetta né heldur hafi verið til þess leitað um aðgerðir í þessum efnum. En eðlilegast virðist, hver sem endanlega úrskurðarvaldið hefur í þessu, að ef félagsskapur málflutningsmanna eða lögmanna telur, að menn fullnægi ekki búsetuskilyrðinu, þá snúi hann sér eftir atvikum annaðhvort til hæstaréttar eða dómsmrn. eða ef til vill hvors tveggja með ábendingu um þetta, því að það er alveg greinilegt, að ætlazt er til þess, að menn hafi skrifstofu í Reykjavík. Hitt má svo kannske deila um, hvað sé skrifstofa í þessu sambandi, hvort tiltekinn embættismaður sem slíkur hefur skrifstofu, hvort það nægi sem skrifstofa í þessu efni eða hvort hann þarf að hafa sérstaka opna málflutningsskrifstofu, og endanlega mundi það geta legið undir mati dómstólanna, ef ágreiningur yrði um þetta. En það er einmitt fróðlegt, úr því að þetta hefur borið á góma, að heyra álit fulltrúa lögmannastéttarinnar, sem hér eru á þingi, um þetta efni, einmitt dómsmrn. til leiðbeiningar.