02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

203. mál, klakstöðvar

Frsm. (Jón Gíslason):

Herra forseti. Þetta frv., sem liggur hér fyrir á þskj. 560, er komið frá Ed. og er um breyt. á l. nr. 36 13. júní 1937, um klaksjóð og heimild fyrir ríkisstj. til að reisa klakstöðvar og til eignarnáms í því skyni. Þetta frv. var lagt fram í Ed. og er þaðan komið, flutt þar af landbn. eftir óskum landbrh.

Frv. þetta felur aðallega í sér breyt. á 3. gr. l. frá 1937, um klakstöðvar, og eru breyt. á þeirri gr. eiginlega þrenns konar. — Það er fyrst og fremst það, að ríkisstj. er heimilað að byggja þessar stöðvar stærri, að þær geti framleitt 3 millj. seiða í staðinn fyrir 21/2 millj., sem er í l. — Enn fremur er sú breyt. í þessari gr. frv., að í l. frá 1937 er eingöngu átt við laxaklak, en í þessari breytingargr., sem nú er til umr., er silungsklak tekið inn í líka. — Þá er í þriðja lagi gert ráð fyrir því, að í sambandi við þessar klakstöðvar sé ríkisstj. heimilt að setja upp uppeldisstöðvar. — Og í fjórða lagi er sú breyt., að það er sagt í gr., að ríkisstj. megi setja þessar stöðvar upp og reka í samvinnu við aðra aðila.

Það eru nokkrar ástæður fyrir hendi til þess að hafa samvinnu um þessi mál við áhugamenn á þessu sviði, og ég tel nú fyrir mitt leyti, að það geti verið allheppilegt, að einmitt áhugamenn um þessi mál hafi þarna hagsmuna að gæta líka. Ég er þeirrar skoðunar, að skynsamlega rekin fiskirækt í ám og vötnum hér á landi geti, ef vel er á haldið, gefið arð og orðið til þess að skapa aukin verðmæti í framleiðslu. En eins og ég talaði um áðan, tel ég, að til þess að slíkt megi takast, þá sé þörf á því, að við þetta starf fáist áhugamenn, og einmitt þá heimild í gr. að mega láta reka klakstöðvar og uppeldísstöðvar í samvinnu við aðra aðila tel ég beztu breytinguna.

Þá er í þessu frv. líka breyt. í 2. gr., sem er breyt. á 7. gr. l. frá 1937, þar sem í þeirri 7. gr. l. er ákveðið söluverð 8 kr. fyrir hvert þúsund af seiðum frá þessum stöðvum. Síðan l. 1937 voru sett, hefur náttúrlega verðgildi peninga ákaflega mikið breytzt, og er alveg augljóst mál, að 8 kr. verð er nú orðið úrelt í þeim sökum. Í þessari 2. gr. frv., sem er breyt. á 7. gr. l., er gert ráð fyrir, að seiðin verði seld kostnaðarverði.

Um þetta hef ég ekki meira að segja. Landbn. Nd., sem hefur haft þetta til athugunar, hefur rætt málið við veiðimálastjóra og talað um það allýtarlega á fundum sínum. Leggur hún til, að frv. verði samþ. óbreytt.