17.10.1952
Efri deild: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur nú gert grein fyrir afstöðu n. til þessara tillagna, og eftir það, sem áður var komið hér fram, þá get ég ekki sagt, að þessi af- staða komi neitt flatt upp á mig. Hins vegar verð ég að segja, að sú röksemd, sem hv. frsm. færir fyrir því, að ekki sé rétt að fella þessar brtt. inn í frv., virðist mér næsta hald lítil. Hún var sú, að í frv. væri aðeins gert ráð fyrir að breyta ákvæðum um skattlagningu vinninga, en brtt. mínar á þskj. 88 fjölluðu um allt annað efni. Þetta er vissulega rétt; en bæði frv. og brtt. mínar efna til breyt. á sömu lögum, l. nr. 84 frá 1940, og því er að sjálfsögðu eðlilegra, þegar komið er fram frv. um breyt. á þeim l., — og ég hef í huga að gera á þeim ríkari breyt., — að breyta því frv., sem fyrir liggur, heldur en að hafa tvö frv. í gangi samtímis um breyt. á sömu lögum. — Hin önnur viðbára hv. frsm. var sú, að ágóðinn væri svo lítill, — mér skildist nánast enginn, nú upp á siðkastið, — að alveg væri ástæðulaust að fara að setja reglur um að skipta honum milli fleiri aðila. Það kann vel að vera rétt hjá hv. frsm., að til þessa hafi ágóðinn af þessari starfsemi lítill orðið. En ætlunin er einmitt með þessu frv., sem hér liggur fyrir, sú að undanþiggja vinningana sköttum, að þá eigi að ýta undir með þessari starfsemi og skapa þannig möguleika til tekjuöflunar fyrir íþróttafélögin, sem nú eru ekki fyrir hendi, vegna þess að sú breyting hefur ekki fengizt á lögunum enn.

Ég tel því, að ástæða sé til að ætla, að af þessari starfsemi geti orðið nokkur hagnaður, og því álit ég einmitt eðlilegt og sjálfsagt, um leið og þessi starfsemi byrjar, að setja reglur um, hvernig hagnaðinum skuli skipt, því að það liggur hverjum manni í augum uppi, að miklum mun erfiðara verður og miklum mun verr verður tekið undir það af hálfu íþróttasamtakanna í landinu, að fara eftir á, þegar séð er, að af þessu verður verulegur hagnaður, sem samtökin hafa kannske með vinnu sinni nokkuð unnið að, — að fara þá að taka hluta af þeim hagnaði, sem þau voru farin að reikna með, og leggja til annarra hluta. Það er eðlilegt og sjálfsagt, ef menn fallast á að skipta þeim væntanlega hagnaði af þessu líkt eins og ég geri ráð fyrir, að það sé gert strax í byrjun, þannig að ekki fari síðar að rísa deilur um, hvernig skuli skipta þeim hagnaði, sem íþróttafélögin fá í sinn hlut, og taka af þeim það, sem þau hafa fengið. Ég álít því, að ef menn á annað borð eru því hlynntir, að einhver hluti af hagnaðinum af þessari starfsemi renni til sjúkrahúsa í landinu, þá sé sjálfsagt að gera það nú um leið og skattfríðindin eru veitt. Það er eðlilegt, að það verði samferða, því að um leið og ríkið afsalar sér öllu tilkalli til skatts, er mjög eðlilegt, að það setji það sem skilyrði, að viss hluti af hagnaðinum renni til sérstakrar starfsemi, sem þarf að auka frá því, sem nú er, eins og bæði byggingu og rekstur sjúkrahúsa í landinu.

Meginefni breyt., sem ég legg til, að gerðar verði, er að finna í 3. gr. Samkv. henni er lagt til, að ágóðinn af getraunastarfseminni skuli skiptast milli íþróttasamtakanna í landinu að 1/3 hluta, segir hér, og að 2/3 hlutum til eflingar sjúkrahúsa í landinu, bæði til að koma nýjum upp og einnig til að styrkja rekstur hinna, sem fyrir eru og á hverjum tíma eru starfandi.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það, hvílík nauðsyn er fyrir hendi í þessu efni. Hér í Reykjavík er t.d. sjúkrahúsaskorturinn svo tilfinnanlegur, eins og allir vita, að hundruð manna bíða tímum saman eftir því að geta fengið nauðsynlega sjúkrahúsvist. Og það sýnir sig með hverju ári, sem líður, með þeirri vaxandi dýrtíð, sem er hér í landinu, að það verður erfiðara með rekstur og starfsemi sjúkrahúsa, ekki einasta ríkisins, heldur einnig bæjar- og sveitarfélaga, sem starfa úti um land. Því er mikil þörf á því, að gerðar séu ráðstafanir til þess að sjá þessum stofnunum fyrir ákveðnum tekjustofni. Landlæknir, sem hefur kynnt sér þetta mál og er höfuðsmiður þeirra till., sem ég ber hér fram, tjáir mér, að eftir viðræður við ýmsa mætustu menn íþróttahreyfingarinnar í landinu megi segja, að þeir séu þessu ekki andvígir, heldur hafi þeir, eins og landlæknir segir, glöggan skilning á þessum málum, enda ósýnt, bætir hann við, hverju íþróttamálin töpuðu á félagsskapnum, því að eflaust má gera ráð fyrir stóraukinni þátttöku í getraununum um land allt, ef ágóðanum er dreift út svo víða og einmitt til styrktar þeirri starfsemi, sem allir bera góðan hug til og telja skylt að efla. — Ég vil taka undir þessi ummæli landlæknis. Ég álít, að það renni fleiri stoðir undir þessa starfsemi, ef farið væri að till. hans í þessu efni, og að líkur séu til þess, að hlutur íþróttafélaganna af hagnaðinum yrði kannske ekki öllu minni, en ef þau héldu áfram að vera ein með starfsemina án nokkurrar þátttöku hins opinbera, þ.e.a.s. að leysa þarfir sjúkrahúsanna í sambandi við þá starfsemi.

Ég skal taka það fram, að í brtt. minni, 3. brtt., er gert ráð fyrir því, að 1/3 af hagnaðinum renni til íþróttastarfseminnar, en 2/3 til sjúkrahúsanna, sem skiptist að hálfu til nýbygginga og að hálfu til rekstrar. Ég vil gjarnan lýsa því yfir nú þegar, að ég mundi fyrir mitt leyti vilja fallast á, að þessi hlutföll yrðu önnur, að féð skiptist til helminga milli íþróttastarfseminnar og sjúkrahúsanna, ef það mætti verða til samkomulags í þessu efni. — Um 1. og 2. brtt. sé ég ekki ástæðu til að hafa nein orð; þær eru raunverulega afleiðing af efni 3. gr., sem ég nú þegar hef gert grein fyrir. Ég vil leyfa mér að vænta þess, að hv. deild sjái nauðsyn þessa máls, sem ég hef drepið á hér, og sjái sér fært að samþ. þessar till. nú þegar.

Ég þakka að vísu hv. frsm. fyrir þann væntanlega stuðning, sem mér skildist hann að minnsta kosti gefa ádrátt um að veita sérstöku frv., sem borið yrði fram um þetta efni, en ég álít, að það sé að seilast um hurð til loku að fara að bera fram sérstakt frv. um þessa breyt. á l. frá 1940 og úr því að á annað borð er verið að breyta þeim samkv. því frv., sem hér liggur fyrir, þá sé eðillegast að fella breyt. inn í það frv.