10.11.1952
Neðri deild: 23. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

121. mál, sjúkrahús o. fl.

Frsm. (Helgi Jónasson):

Ég verð líklega að byrja á því að þakka hv. samþingismanni mínum fyrir það, að hann ætlar að vera með frv., og finnst manni það ekki beint þakkarvert í sjálfu sér; mér finnst það alveg sjálfsagt af honum sem slíkum. — Það, sem deilt hefur verið um af honum, hefur ekki komið fram nema hjá honum, — sú rödd, að það væri heppilegra að hafa það ekki undir lögunum um fjórðungssjúkrahús, af því að byggingarstyrkurinn væri 2/3 miðað við almenn sjúkrahús. Þetta er misskilningur, sem m. a. landlæknir bendir hér á í því fylgiskjali, sem fylgir með nái. Það var hugsað þannig árið 1949, þegar þessu var bætt inn í lögin um sjúkrahús, að það yrði aðeins til læknisbústaða og sjúkraskýla og húsa í einstökum héruðum, og ef þrjú sýslufélög standa saman um að reisa eitt sjúkrahús, þá er ekki lengur hægt að tala um sjúkrahús í einstökum héruðum. Það nær yfir heilan landsfjórðung og gæti því ekki fallið undir það ákvæði. Með lögunum um fjórðungssjúkrahús var gert ráð fyrir því, að þau hús nytu frekari hlunninda af því opinbera heldur en önnur hús. Það var gert til þess að reyna út af þeim vandræðum, sem þá voru orðin með rekstur sjúkrahúsa, að stuðla að því, að hver fjórðungur hefði sitt sjúkrahús út af fyrir sig, eitt gott hús, sem alltaf væri hægt að reka. Það var meiningin, með fjórðungssjúkrahúsalögunum. Og ég held, að það sé alveg sjálfsagt fyrir Sunnlendinga, þegar þeir hefjast handa um byggingu á sínu sjúkrahúsi, að hafa það undir þessum lögum um fjórðungssjúkrahús. Um það held ég að sé ekki mikill ágreiningur, enda var sú eina rödd, sem kom á móti því á fundinum á Selfossi, frá hv. 2. þm. Rang., samþm. mínum, og að vísu að nokkru leyti frá hv. 2. þm. Árn. Allir aðrir á fundinum hölluðust frekar að því, að það væri betra að hafa fjórðungssjúkrahús undir þeim lögum, þ. á m. læknarnir allir. Og ég skil ósköp vel þá afstöðu.

Ég get nú ekki séð, að þetta frv. sé of fljótt fram borið. Ég vil segja, að það sé of seint fram komið. Þetta átti að vera skeð fyrir þó nokkuð löngu. Og það stafar meðal annars af því, að undanfarandi ár hef ég rætt þetta mál mikið við landlækni. Hann hefur ekki viljað fram að þessu fallast á þá skoðun mína, að fjórðungurinn ætti að fá fjórðungssjúkrahús, því að hann hélt því fram, að Landsspítalinn ætti að vera fjórðungssjúkrahús okkar Sunnlendinga. En nú, þegar svo er komið, að Landsspítalinn er orðinn yfirfullur af sjúklingum með vissa veiki, aðallega krabbamein og slíkt, — hann er svo að segja lokaður fyrir öllum öðrum sjúklingum, — þá féllst landlæknir fyrst í haust á það, að við Sunnlendingar ættum sömu kröfu á því eins og aðrir landsfjórðungar, enda sést það hér á hans umsögn, að hann er nú fyllilega orðinn samþykkur því, að svona verði farið að. Og ég þakka honum fyrir það.

Ég kæri mig ekki um að karpa um þetta meira. Við erum orðnir allir sammála um það, vona ég, Sunnlendingar, að okkur vanti sjúkrahús og þurfum það að fá. Og jafnvel, eins og hv. 2. þm. Rang. tók fram, þó að þetta verði að lögum, þá geta viðkomandi ráðamenn í héruðunum austan fjalls ráðið því, hvort það verður breytt eftir þessum lögum eða ekki. Það er á þeirra valdi, hvort þeir vilja heldur hafa sjúkrahús undir öðrum ákvæðum laga eða þessum. Þess vegna held ég, að það sé gott, að þetta verði samþ., svo að það sé til, ef þeir vilja nota þá aðferð, sem ég tel víst að muni verða. Ég hirði svo ekki að ræða um það frekar.

Þeim myndarbrag, sem var á sjúkrahúsi Rangæinga, meðan fyrirrennari minn var þar, skal ég ekki draga úr, ég er fyllilega sammála því. En ég hef verið þar líka yfir 20 ár, — kannske ekki með eins miklum myndarbrag, - ég ætla ekki að dæma um það sjálfur. En ég hef verið læknir við sjúkrahúsið á Stórólfshvoli í yfir 20 ár. Nú er húsið orðið ónýtt, og hefur orðið að rifa það, og allar aðstæður eru breyttar frá því, sem áður var. Það er komið svo nú, að úti um land er ekki hægt að reka sjúkrahús nema nokkuð stór, sem hægt er að hafa vissan mannfjölda við, hjúkrunarlið. Það fæst ekki orðið hjúkrunarlið á þessa smáu staði og fáu nema hafa vaktaskipti, og það mundi ekki standa undir þeim kostnaði. Þess vegna er nú svo, að svo að segja öll sjúkrahús úti um land standa auð og tóm út af því, að það er ekki hægt að reka þau með því fyrirkomulagi, sem nú er á vinnu þess fólks, sem við þau þarf að vinna. Þess vegna var húsið á Stórólfshvoli rifið, sem var orðið lélegt, ónýtt, — það var rifið og ekki hugsað um að koma upp öðru í staðinn, vegna þess að svona smásjúkrahús er ekki hægt að reka lengur. Það tilheyrir gamla tímanum að reka þessi hús og er ekki hægt að gera það mögulegt. Þau verða að vera nokkuð stór, þannig að hægt sé að hafa vaktaskipti og fólk eftir þeim kröfum, sem nú eru gerðar bæði til sjúkrahúsa og fólks, sem þar vinnur.