24.11.1952
Neðri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1346 í B-deild Alþingistíðinda. (1936)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Samgmn. hefur ekki getað orðið sammála um frv. það til l. um leigubifreiðar í kaupstöðum, sem liggur fyrir.

Nefndin hefur rætt málið allýtarlega, og leggur meiri hl. hennar til, að það verði samþ. með nokkurri breytingu á 1. gr. þess. Leggur nefndin til, að gr. verði umorðuð þannig, að fyrri málsgrein hennar skuli einnig færð í heimildarform. Nefndin taldi ekki rétt, að þau skýlausu fyrirmæli, sem í frv. eru, í 1. málsgr. þess, næðu til allra kaupstaða án tillits til þess, hvort óskir hefðu komið fram um það frá hlutaðeigandi samtökum bifreiðarstjóra á hverjum stað. Hún hefur því lagt til, að 1. málsgr. yrði færð í heimildarform og orðaðist þannig, að bæjarstjórn væri heimilt, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga bifreiðarstjóra, að ákveða, að allar leigubifreiðar í kaupstöðum, hvort heldur eru fólks-, vöru- eða sendiferðabifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnar.

Hv. 2. landsk. þm., sem tók þátt í afgreiðslu meiri hlutans, áskildi sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. og hefur flutt brtt. á þskj. 264, sem hann mun hér á eftir að sjálfsögðu gera grein fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta mál. Því fylgdi upphaflega grg., þar sem samtök bifreiðarstjóra hér í Reykjavík gera grein fyrir afstöðu sinni til þess. En málið er flutt samkv. þeirra ósk. Benda þau fyrst og fremst á, að fjöldi leigubifreiða, bæði til fólksflutninga og vöruflutninga, sé orðinn svo mikill hér í Reykjavík, að auðsætt sé, að miklu fleira fólk sé komið inn í þessar atvinnugreinar en þörf sé fyrir, og beri þess vegna nauðsyn til þess að setja nokkrar takmarkanir á. Þeir benda enn fremur á það, að í öðrum löndum hafi slíkar reglur og takmarkanir verið settar. Meiri hluti n. féllst í aðalatriðum á þessi rök, enda þótt nokkurrar tregðu yrði vart í n. gagnvart þeirri stefnu að setja ríkar takmarkanir um aðgang einstaklinga að einstökum atvinnugreinum. En þar sem ýmsar takmarkanir hafa verið settar í þessum efnum hér á landi á öðrum sviðum samgöngumála og hins vegar ekki óeðlilegt, að aukið skipulag yrði sett og reglur um þá atvinnugrein, sem hér ræðir um, þá féllst meiri hl. n. á það, að rétt væri að samþ. þetta frv. í aðalatriðum. Sérstaklega taldi meiri hl. n. eðlilegt, að atvinnubifreiðarstjórar fengju aukna vernd gegn hinum svo kölluðu hörkurum, þ.e.a.s. mönnum, sem ekki tilheyra bifreiðarstjórastéttinni raunverulega, en stunda bifreiðaakstur í hjáverkum. Það er auðsætt, að í því er ekki fullkomin sanngirni, að menn, sem hafa aðalatvinnu sína af öðrum störfum, geti í hjáverkum sínum gripið inn í þessi störf og rýrt þar með atvinnumöguleika margra þeirra manna, sem hafa bifreiðaakstur að aðalatvinnu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð fyrir hönd meiri hl. n. í þessu máll, en endurtek, að meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hann hefur flutt á þskj. 252.