24.11.1952
Neðri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég hélt upphaflega, að það væri til meiri hluti fyrir þeim till., sem hv. meiri hluti, sem kallar sig, ber fram, en eftir að ég sá brtt. hv. 2. landsk. þm., þá skilst mér, að það sé enginn meiri hluti til fyrir þessu frv. innan nefndarinnar, því að hv. 2. landsk. þm. leggur til, að 1. gr. frv., eins og það er lagt fyrir þingið, verði samþ. óbreytt, en hinar tvær greinarnar verði felldar niður. Mér skilst því, að í aðalatriðum sé hann ekki sammála því þskj., sem hann skrifaði undir, en aftur á móti er hann að meira leyti sammála minni hl., sem vill fella frv.

Það kann að vera, að það virðist í fljótu bragði réttlátt að takmarka tölu leigubifreiða í kaupstöðum. En mér skilst, að þegar um er að ræða hjá einni atvinnustétt að takmarka starfsmannafjölda, þá sé spursmál, hvar skuli nema staðar, því að hér er að skapast fordæmi. Að vísu er þetta, eins og frv. liggur fyrir nú með brtt., aðeins í heimildarformi og spursmál, hvort það kæmi nokkurn tíma til framkvæmda. En það getur alltaf skeð, þegar heimildarl. eru til, að til þeirra verði gripið, og álít ég, að slíkt yrði ekki til bóta, ef svo yrði, m.a. vegna þess, að það er dálítið erfitt að gera upp á milli, þegar á að fækka starfsmönnum innan einnar stéttar, hverjir eigi að sitja í fyrirrúmi og hverjir ekki, en ég tel, að innan allra stétta sé heppilegast, að það sé viss samkeppni, til þess að það fáist, sem bezt er hjá hverjum einstaklingi. Strax og takmarkanir eiga sér stað, er aðstaðan til einokunar ekki langt undan, en þess óska fáir. Sá flokkur, sem hefur talið frjálsa samkeppni efst á sinni stefnuskrá, virðist að þessu leyti ekki leggja mjög mikið upp úr henni, og er það gagnstætt hans meginhugsun á öðrum sviðum. En við tveir þm., sem höfum skipað okkur í minni hl., leggjum til, að í þessu sem og á mörgum öðrum sviðum ríki frjálsræði og að frv. verði fellt.