24.11.1952
Neðri deild: 31. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1938)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég hef fallizt á það að vilja samþ. þetta frv., sem hér er flutt samkv. beiðni bifreiðarstjórasamtakanna, en þau telja, að hér sé um talsvert hagsmunamál fyrir sig að ræða. Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að ekki verði komizt hjá því að fara tiltölulega mjög varlega í heimildir, a.m.k. hvað viðkemur lagasetningu um þá takmörkun á mönnum í þessari stétt, sem óskir bifreiðarstjóranna eru nú um.

Ég hef af þeim ástæðum leyft mér að flytja brtt. við frv. á þskj. 264, og meginatriði þeirra brtt. er, að 2. mgr. í I. gr. frv. verði felld niður, en í þeirri mgr. segir:

„Bæjarstjórnir skulu, að fengnu samþykki dómsmrn., hafa heimíld til að takmarka fjölda leigubifreiða þeirra, er greinir í 1. mgr.

Það er mín skoðun, að það sé of langt gengið í þessum efnum að veita með l. bæjarstjórnum og dómsmrn. heimild til þess að takmarka tölu leigubifreiða eins og þessi mgr. gerir ráð fyrir. Með því að samþ. 1. mgr. þessarar gr., þar sem sett eru ákvæði um það, að allar leigubifreiðar í kaupstöðunum skuli reknar á sérstökum bifreiðastöðvum, sem bæjarstjórn þarf að hafa viðurkennt, þá hefur viðkomandi stéttarfélag bílstjóra að mínum dómi nægilega aðstöðu til þess að tryggja með sínum samningum við bifreiðastöðvarnar, að ekki verði óeðlilega margar bifreiðar teknar inn á stöð hverju sinni, og hafa með því móti nokkurn hemil á fjölda þeirra bifreiða, sem reknar eru í hverjum bæ á hverjum tíma.

Ég tel því, að sú takmörkunarheimild, sem raunverulega mundi felast í l. samkv. 1. mgr. 1. gr., sé nægilega mikil, en mér þykir ekki ástæða til þess að bæta við þeirri sérstöku takmörkun, sem bæjarstjórnum yrði fengin í hendur og dómsmrn. samkv. 2. mgr. En af þessari brtt. minni leiðir svo aftur það, að 2. gr. frv. er óþörf, og legg ég því líka til, að hún verði felld niður.

Nú er það svo, að eins og brtt. meiri hl. n. liggja fyrir, þá falla þessar till. ekki alls kostar vel saman, og mun ég því kjósa að draga mína brtt. til baka til 3. umr. og greiða atkv. með brtt. meiri hl. hér við 2. umr., en freista þess hins vegar að fá fram þær breyt. á frv. við 3. umr., sem mín brtt. gerir ráð fyrir og ég hef nú gert grein fyrir.