15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forsetl. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var flutt í hv. Nd. eftir beiðni frá formönnum tveggja bifreiðarstjórafélaga hér í bænum, bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils og vörubifreiðarstjórafélagsins Þróttar. Þegar það var flutt, þá hafði það inni að halda tvö meginákvæði, annars vegar það, að allar leigubifreiðar í kaupstöðum skyldu hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefði viðurkenningu bæjarstjórnar, og hins vegar, að bæjarstjórnum skyldi heimilt, ef þær fengju til þess samþykki dómsmrn., að takmarka fjölda leigubifreiða þeirra, sem áður var rætt um að skyldu vera á bifreiðastöðvum.

Í Nd. var frv. breytt á þann veg, að ákvæðin um takmörkun á tölu bifreiða voru felld niður úr frv., þannig að eins og það nú liggur fyrir, þá hefur það inni að halda aðeins ákvæði um það, og það í heimildarformi, að allar leigubifreiðar í kaupstöðum skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnar. Undanþegnir þessu eru þó bæði strætisvagnar og sérleyfisbifreiðar, sem ekki er ætlazt til að falli undir lögin.

Þegar samgmn. þessarar hv. deildar hafði málið til meðferðar, kom í ljós, að n. var ekki á einu máli um þetta. Meiri hl. n. taldi frv. betra eftir þá breytingu, sem hafði verið gerð á því í Nd., en minni hl. taldi það hins vegar lakara og hefur nú flutt brtt. hér á þskj. 452 um það, að aftur verði tekin upp í frv. þau ákvæði, sem felld voru úr því í Nd. N. í heild mælti þó með því, að frv. yrði samþ., en einstakir nm. áskildu sér sem sagt rétt til þess að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, og árangur af því er þegar sá, sem ég nefndi áðan, að fram eru komnar þessar brtt. á þskj. 452.

Ég var í þeim hl. n., þ.e. meiri hl., sem taldi frv. betra í því formi, sem það nú er, og ég fyrir mitt leyti mæli þess vegna með því, að það verði samþ. óbreytt eins og það nú liggur fyrir. Að sjálfsögðu munu svo flm. till. á þskj. 452 mæla fyrir þeirri brtt. og flytja þau rök, sem þeir telja fyrir því að heppilegra sé að hafa frv. þannig. Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að þó að þessi ákvæði að vísu, þ.e. ákvæðin um takmörkun á tölu leigubifreiða væru í frv. þegar það var flutt og inn í það komin eftir beiðni þeirra félaga, eða formanna þeirra félaga, sem óskuðu eftir því, að frv. yrði flutt, þá tel ég nú samt sem áður, að of langt sé gengið í því efni að fara að binda slíka takmörkun leigubifreiða í lögum, og ef stéttarfélögin telja þörf á því að takmarka tölu bifreiðanna í þessari starfsgrein, þá álit ég, að það verði frekar að gera með samningum milli stéttarfélaganna og þeirra aðila, sem þar er við að semja, þ.e.a.s. bifreiðastöðvanna, á svipaðan hátt eins og nú er gert, en það sé ekki rétt að fara að setja slík bindingarákvæði í lög, vegna þess að það atriði hlýtur að vera háð ástandinu á hverjum tíma og getur verið mjög breytilegt og þess vegna óheppilegt að mínu áliti að hafa það í lögum, auk þess sem vafasamt er, hvort fara eigi svo langt inn á þá braut að svo að segja loka atvinnugreinum með lagasetningu. Hins vegar tel ég nauðsynlegt ákvæðið, sem nú stendur eftir í frv., að leigubifreiðar skuli vera skyldugar til þess að hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, vegna þess að ekki sízt með því ástandi, sem nú er í þessari atvinnugrein, er nauðsynlegt, að þeir menn, sem stunda þetta sem aðalvinnu, sitji að þeirri takmörkuðu atvinnu, sem nú er í starfsgreininni, en aðrir menn, sem nú eru í fastri atvinnu annars staðar og hafa að sjálfsögðu fyrir það full laun, geti ekki, þó að þeir eigi bifreið, sem hægt er að nota til þess, troðið sér inn í þessa atvinnu þegar það hentar fyrir þá að loknum vinnutíma í sínu aðalstarfi og þannig orðið til þess að draga úr hinum takmörkuðu tekjum þeirra manna, sem annars stunda þetta sem aðalatvinnu. Ég tel réttmætt og nauðsynlegt að vernda á þann hátt, sem hér er gert, aðstöðu þeirra manna, sem hafa þetta sem aðalatvinnu, þótt ég hins vegar álíti ekki rétt að ganga lengra eða eins langt og farið er með hinum ákvæðunum um takmarkanir á bifreiðafjölda.

N. hefur sem sagt í heild lagt til, að frv. verði samþ., en ágreiningur er hins vegar um það, hvort taka skuli aftur ákvæði þau upp í frv., sem felld voru úr því í hv. Nd. Ég fyrir mitt leyti legg það til, að það verði ekki gert, en að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir á þskj. 372.