15.12.1952
Efri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég kom hér í ræðustólinn aðallega af þeim ástæðum, að ég vildi geta þess, að við tillögumenn að brtt. á þskj. 452 vildum láta það koma fram, að við óskum eftir og munum koma með brtt. við þá till., sem — með leyfi hæstv. forseta — mundi hljóða þannig:

„Bæjarstjórn er enn fremur, að fengnum tillögum stéttarfélaga bifreiðarstjóra og samþykki dómsmrn., heimilt að takmarka fjölda leigubifreiða þeirra, er greinir í 1. málsgr.

Ég veit ekki almennilega, hvort hæstv. forseti hefur haft frið til að hlusta á það, sem ég var að lesa upp hér núna, fyrir öðru masi, en ég vil taka það fram og tel heppilegast nú að fresta umr., svo að hægt sé að koma þessari brtt. að núna við þessa umr. eins og ég hef lýst henni.

Annars þótti mér hér ýmislegt í ræðu hv. þm. S-Þ. vera dálítið kyndugt. Ég veit ekki betur en að hv. þm. S-Þ. hafi verið með hinum mesta bægslagangi og einnig með hvíslingum og áróðri að reyna að koma upp einni stofnun, sem kölluð er bæjarstjórn í Húsavíkurkaupstað, og eru ekki nema 2 ár — held ég — síðan það var, en nú er svo komið um þetta afkvæmi hans, að hann hefur ekki meira traust á því heldur en það, að hann vill ekki einu sinni gefa þessari blessaðri bæjarstjórn heimild til að ákveða um tölu bifreiða eða hvernig skuli skipa niður á bifreiðastöðvar, ef fleiri en ein er í kaupstaðnum. (Gripið fram í: Það er um allt annað.) Þetta er aðeins heimild, en ekki skipun um að gera þetta, og ég held sannast að segja, að bæjarstjórnin hljóti að vera sæmileg, eftir þeirri kynningu, sem ég hef af þeim Húsvíkingum, sem ég hef kynnzt áður, auðvitað fyrir utan Húsavíkur-Jón, en hann hef ég ekki hitt að máli. En að öðru leyti hygg ég bæjarstjórnir það sæmilegar stofnanir, að það mætti gjarnan treysta þeim til þess að fara þolanlega með þessa helmild.

Þá minntist hv. 1. þm. N-M. á ýmsa hluti hér, en að nokkru leyti svaraði hv. þm. Barð. honum, en hann spurði áfjáður um það, hvernig stæði á þeirri breytingu og hvaða fyrirskipun hefði komið í flokkinn, að áður hefði hver maður fengið að gera það, sem hann vildi í lífinu, eftir því sem hann orðaði það. Ég held sannast að segja, að Sjálfstfl. hafi verið á móti því, að menn fengju að gera allt það, sem þeir vildu í lífinu. Þó að það sé langheiðarlegasti flokkurinn, Sjálfstfl., þá eru þó alltaf innan um menn með ýmsar tilhneigingar til umbrota. En yfirleitt hefur það ekki verið stefnan að gera þá hluti. En það hefur oft verið, að í „handjárnaflokknum“ hefur ekki komið til mála, að menn hafi fengið að gera hér á þinginu í atkvgr. eða ræðum það, sem þeir vildu. (Gripið fram í.) Ég hélt, að hann væri það gamall í hettunni, hv. þm. Barð., að hann vissi, hver flokkur það væri, sem hefði hlotið það nafn, og mundi þar ekki leika á tveimur tungum, enda hefur það sýnt sig síðan, að annaðhvort hefur flokksstjórnin kúgað hv. þm. N–M. eða þá hann hefur verið kúgaður af konu einni, eins og nú nýlega, og er hvorugur hluturinn góður. (Gripið fram í.) Já, það þarf ekkert að grípa fram í það, ég sagði það.

Annars hneykslast menn mjög á því, að því skyldi verða skotið undir dómsmrn. að gera ákvarðanir um þessa hluti, eins og er í till. okkar, að það fengi samþykki dómsmrn. Það er vitanlegt, að dómsmrn. er það rn., sem ræður yfirleitt yfir bilum. Án þess að nokkurt brennivin hefði komið í hug okkar eða hjarta, þá töldum við alveg sjálfsagt, flm., að dómsmrn. réði yfir þessum málefnum. Ég veit ekki betur, en það aðallega réði yfir bilaeftirlitinu hér og undir það heyri ótal atvik, sem snerta bílamálin hér á landi, og fannst mér það því rétt og sjálfsagt og okkur báðum, að það væri dómsmrn., sem skærist þarna í leikinn. Ef bæjarstjórnin þarna — Karlsdóttir — færi að gera einhverja vitleysu, þá er þó þarna mjög mikið aðhald, að hún verður þó að gæta sín í málinu. Og enn fremur það, sem hér á að bætast inn í og ég tók fram, að leitað væri um þetta tillagna stéttarfélags bílstjóra á staðnum. Ég held, að með því verði þetta ekki svo ógurlegt mál og væri rétt og sjálfsagt að samþ. þessar brtt., ef menn á annað borð vilja nokkuð fyrir þetta frv. gera, því að það í raun og veru skaðar aldrei.

Það hefur verið sagt, að sumar bæjarstjórnir, þessar litlu, nýfæddu, hafi ekkert með þetta að gera. En öðrum er það nauðsynlegt, að mínu áliti. Og þegar það er aðeins heimild, þá er þetta í raun og veru engin hætta með það. Þeir, sem þörfina hafa fyrir það, gera þessa ráðstöfun, — þær bæjarstjórnir, en þó undir eftirliti frá dómsmrn. og eftir till. frá bílstjórafélögum, og þá er það ekki orðið voðalegt. En ég vildi sem sagt óska þess, af því líka að atkvgr. getur varla farið fram, að það væri nú frestað umr., til þess að hægt væri að koma að þessari brtt., sem ég hef boðað núna í þessari umr., ef hæstv. forseti vildi gera svo vel. Og sem sagt vonast ég til þess, að við munum ekki lengja þær umr. mikið með málflutningi, svo að það gæti tekið heldur skemmri tíma, en að fara að koma þeirri brtt. inn við 3. umr. Ef menn á annað borð ætla ekki að ráða frv. bana núna, sem mér þó ekki skilst á öllum, þá held ég þetta væri heppilegasta aðferðin og vildi óska þess, að hæstv. forseti tæki þetta til athugunar.