20.01.1953
Efri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1359 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég kveð mér aðeins hljóðs vegna þess, að við hv. 11. landsk. flytjum brtt. við frv. þetta, sem ekki var búið að lýsa áður við fyrri umr. málsins. Auk brtt., sem við flytjum og þegar hefur verið lýst, á þskj. 452, höfum við flutt brtt., sem er á þskj. 472, og henni hefur ekki verið lýst áður. Hinni till. var lýst, þegar fyrri hluti þessarar umr. fór fram núna fyrir hér um bil einum mánuði. Þessar till., sem við flytjum, hafa það inni að halda, að það sé tekið aftur upp í frv. ákvæði, sem niður var fellt úr því í Nd. Með þessum breyt. leggjum við til, að það sé fært í sama horf og það var, það hafi sem sagt inni að halda þau tvö meginatriði viðvíkjandi akstri leigubifreiða í kaupstöðum, sem stjórnir bifreiðarstjórafélagsins Hreyfils og vörubílstjórafélagsins Þróttar fóru fram á, en að beiðni þessara aðila er frv. flutt í byrjun, um að bæjarstjórnum verði heimilað með vissum skilyrðum að skipa svo fyrir, að allar leigubifreiðar skuli hafa afgreiðslu á viðurkenndri bifreiðastöð og að einnig megi takmarka fjölda bifreiðanna að fengnum víssum skilyrðum. Frv., eins og það liggur fyrir nú eftir 3. umr. í Nd., er aðeins um það, að bæjarstjórn er heimilt, að fengnum till. hlutaðeigandi stéttarfélaga bifreiðarstjóra, að ákveða, að allar leigubifreiðar í kaupstöðum, hvort heldur eru fólks-, vöru- eða sendiferðabifreiðar, skuli hafa afgreiðslu á bifreiðastöð, sem fengið hefur viðurkenningu bæjarstjórnar. En verði till. okkar hv. 11. landsk. samþykktar, þá bætist nýr málsliður við 1. gr., sem hljóðar svo:

„Bæjarstjórn er enn fremur, að fengnum till. stéttarfélaga bifreiðarstjóra og samþykki dómsmrn., heimilt að takmarka fjölda leigubifreiða þeirra, er greinir í 1. mgr.

Og svo er annað, sem er afleiðing, að á eftir 1. gr. komi svo hljóðandi ný gr., og breytist greinatalan samkv. því:

„Dómsmrn. skal með reglugerð kveða nánar á um takmörkun samkv. 1. gr.

Við flm. þessara brtt., hv. 11. landsk. og ég, lítum svo á, að taka eigi aftur upp í frv. ákvæði um takmörkun bifreiðafjöldans. Rök fyrir því áliti okkar komu fram við fyrri hluta þessarar umr., og sé ég ekki ástæðu til þess að lengja umr. nú með því að endurtaka það aftur. Það urðu töluverðar umr. um þetta frv. við fyrri hluta þessarar umr., og komu andmæli fram á móti því að samþ. frv. í neinni mynd frá sumum, og aðrir voru á móti því að taka upp þessi ákvæði, sem við leggjum til. En ég ætla ekki að fara núna út í þær umr., nema sérstakt tilefni gefist til að nýju.