20.01.1953
Efri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (1962)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er nú svo langt síðan fyrri hluti þessarar umr. fór fram, að það hafði fallið mér úr minni, að ég hafði kvatt mér hljóðs. En svo hefur það rifjazt upp fyrir mér, að það síðasta, sem fram fór við þessar umr., var það, að hv. 11. landsk. var að víkja nokkrum ónotaorðum að mér og fleirum, sem höfðu gert athugasemdir við frv. þetta, er hér liggur fyrir, og þó sérstaklega við þær brtt. við frv., sem hann og hv. 2. þm. Árn. flytja hér og nú hefur verið minnzt á af hv. 2. þm. Árn. Ég hafði gefið í skyn, að þó að ég teldi vafasamt, að frv. eins og það kom frá Nd. væri æskilegt fyrir alla kaupstaði landsins og sérstaklega fyrir þá, sem smáir eru, þá mundi ég þó greiða því atkv., vegna þess að ég liti svo á, að það mundi vera borið fram af ríkri þörf fyrir Reykjavík eða a.m.k. að álitinni ríkri þörf fyrir Reykjavík og mundi ekki verða beitt á hinum smærri stöðum.

En ég er hins vegar algerlega andvígur þeim brtt., sem komið hafa fram við frv., og mér fannst satt að segja hv. 11. landsk., þegar hann var að reka hnýfla í mig og aðra, sem höfðum mælt gegn till., minna mig dálítið á sjálfan sig eins og ég hugsa mér, að hann — þessi maður, sem er mjög skeleggur í því að bera fram tillögur um eyðingu svartbaks — mundi verða, ef honum væri fenginn til fósturs svartbaksungi. Þetta fósturbarn hans er honum, að mér sýndist, álíka ánægjulegt og honum mundi verða svartbaksungi. Ég lít einmitt svo á, að svo langt sé gengið í þessum till. að leggja til hæfis fyrir menn, að þeir geti skapað sér útilokunaraðstöðu, að það gangi vargi næst. Og þess vegna mun ég eindregið greiða atkv. á móti brtt. eða m.ö.o. vera með eyðingu þeirra. — Fleira sé ég ekki ástæðu til að segja.