02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1365 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. Hafnf. þá brtt. á þskj. 657 við frv. þetta, að í stað orðsins „Reykjavík“ í 2. málsgr. komi: kaupstöðum. — Þessi brtt. þarfnast út af fyrir sig ekki skýringar. Við flm. litum svo á, að sé þörf á að takmarka fjölda vöruflutningabifreiða í Reykjavík, eftir að álits hlutaðeigandi stéttarfélags hafi verið leitað, þá sé ekki síður ástæða til þess að gera það í öðrum kaupstöðum landsins. Það er alkunna, að atvinna hefur verið mjög stopul hjá vörubílstjórum nú síðari árin, og ég held, að ástandið í þeim efnum sé enn þá verra í kaupstöðunum úti á landi, heldur en hér í Reykjavík. Á stríðsárunum fjölgaði mjög í bifreiðarstjórastéttinni vegna aukinnar atvinnu á vegum setuliðsins. Tala vörubifreiðarstjóra hefur nokkurn veginn staðið í stað síðan, þrátt fyrir það að atvinnan hefur mjög mikið minnkað.

Brtt. þessari er stefnt að því, að ákvæði frv. um, að unnt sé að takmarka tölu vöruflutningabifreiðarstjóra að fullnægðum vissum skilyrðum, nái til allra kaupstaða landsins, en sé ekki eingöngu bundið við Reykjavík.