02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Frsm. meiri hl. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Samgmn. þessarar hv. d. klofnaði um þetta mál, þegar það var hér upphaflega til meðferðar, og n. hefur ekki tekið málið til frekari athugunar, eftir að það kemur nú með nokkrum breyt. frá hv. Ed. En fyrir hönd okkar hv. 2. þm. Eyf. vil ég aðeins taka það fram, að við teljum óheppilegt, að nýjar breyt. verði nú gerðar hér við þessa umr. og afgreiðslu málsins stefnt þannig í nokkra hættu. Að vísu eru þær brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 657 og 704, ekki efnismiklar og breyta í sjálfu sér ekki mjög miklu. Fyrri till. er um það, að fyrir orðið „Reykjavík“ komi: kaupstöðum — eins og upprunalega mun hafa staðið í frv., en í þessu sambandi má benda á það, að það er fyrst og fremst héðan úr Reykjavík, sem hafa komið fram óskir um heimild til slíkrar takmörkunar. Þess vegna má segja, að ekki beri brýna nauðsyn til þess að víkka þessa heimild eins og gert er ráð fyrir í till., þó að hins vegar megi segja, að það sé ekkert óeðlilegt, að önnur byggðarlög, þar sem svipað kunni að standa á og hér gerir í þessum efnum, fái slíka heimild til þess að gera nokkrar takmarkanir á þessu sviði. — Varðandi brtt., sem hv. þm. DaI. mælti hér fyrir, þá er hún ekki heldur efnismikil, þar sem lagt er til, að í stað „dómsmrn.“ komi: samgmrn. — Ég er nú heldur mótfallinn þessari till., vegna þess að ég tel eðlilegt, að þessi mál heyri undir dómsmrn., sem hefur með framkvæmd bifreiðalaga að gera. Það má að vísu segja, að þetta sé að dálitlu leyti samgöngumál, þessi heimild til takmörkunar. En mér virðist þó, að frekar beri á hitt að lita, að dómsmrn. hefur yfirleitt með framkvæmd bifreiðalaganna að gera. Annars skipta hvorugar þessar till. meginmáli. Aðalatriðið er, að málinu sé ekki stefnt í hættu með því að samþ.brtt. við það og senda það á ný til Ed. í þann mund, sem þinginu er að ljúka.