02.02.1953
Neðri deild: 62. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1368 í B-deild Alþingistíðinda. (1980)

66. mál, leigubifreiðar í kaupstöðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, í sambandi við þá breyt., sem nú er orðin á þessu frv., láta það koma fram frá minni hálfu, að ég tel, að hér sé um allvarhugavert mál að ræða. Ég var á þeirri skoðun hér í þessari hv. d. við fyrri afgreiðslu málsins, að það yrði að hafa öll ákvæði um heimild til handa bifreiðarstjórum til þess að takmarka rétt manna við starfsemi í stéttinni í rauninni ákaflega mild og sem mest þannig, að það væri í hendi stéttarfélaganna sjálfra að setja reglur um það, að óeðlileg útþensla í starfsgreininni þyrfti ekki að koma til. En hins vegar hef ég verið á þeirri skoðun, að það sé mjög hæpið að veita bæði ráðuneytum og bæjarstjórnum rétt til þess, jafnvel þó að sá réttur sé bundinn við það að hafa þar samráð við stéttarfélögin, — að veita slíkum aðilum rétt til þess að loka að verulegu leyti viðkomandi starfsgrein; það sé mjög varhugavert.

Eins og frv. fór héðan frá þessari d. á sínum tíma til Ed., þá var það orðið í þeim búningi, að stéttarfélögin sjálf gátu nokkuð við þetta ráðið. Þau gátu t.d. með samningum sínum við bílastöðvarnar takmarkað nokkuð tölu þeirra bifreiða, sem starfandi eru á hverjum tíma. Þetta var þá alveg einkamál stéttarinnar sjálfrar við þær stöðvar, sem reka bíla. Þetta þótti mér í rauninni alveg nóg fyrir stéttina til þess að reyna að hafa nokkurn hemil á þessu. En nú þekkjum við það, og það er í rauninni ekkert nýtt fyrirbrigði, að mörg stéttarfélög hafa áhuga á því að vilja loka starfsgrein sinni, gera þannig atvinnugreinina fyrir þá fáu, sem eftir verða í félögunum, mjög örugga og verka sem hemil] að nokkru leyti á eðlilega starfrækslu viðkomandi greinar. Ég verð t.d. að segja það, að ég óttast það beinlínis, að verði þetta frv. lögfest í þeim búningi, sem það er orðíð nú, þá mundi það koma fram í æði mörgum kaupstöðum, að viðkomandi stéttarfélag bifreiðaeigenda óskaði eftir því, að félaginu yrði lokað. Og þá yrði það ekki lengur réttur manna á þeim stað að taka upp þessa atvinnu fram yfir það, sem hið lokaða stéttarfé]ag hefur komið sér saman um. Það hefur síðan fengið rétt bæjarstjórnar og ráðuneytis til þess að loka viðkomandi félagi með öllu og fyrirbyggja það, að menn geti tekið upp þessa starfsemi. Þar sem ég á heima, þá óska ég fyrir mitt leyti sem einn af bæjarfulltrúum þar ekki eftir því að þurfa að standa í deilum við viðkomandi stéttarfélag á þeim stað um að loka þar t.d. vörubifreiðarstjórastéttinni.

Ég tel, að sú tilhneiging, sem að verulegu leyti kemur fram í þessu máli einmitt hér í Reykjavík, sé í sjálfu sér mjög varhugaverð, og spái því fyrir mitt leyti, að það sé ekki ótrúlegt, að bæði hv. þm. og reyndar bæjarfulltrúar í Reykjavík muni eiga eftir að verða varir við það, þótt síðar verði, að það muni koma allverulegur þrýstingur á þá frá ýmsum mönnum, sem telja það verulegar hömlur á atvinnurétti sínum að geta ekki með nokkru móti komizt inn í þessar starfsgreinar, vegna þess að með reglugerðum, staðfestum af viðkomandi ráðuneyti, er þar búið að loka starfsgreininni með öllu. Ég vil því fyrir mitt leyti halda mér við frv. í því formi, sem það var, þegar það var afgr. héðan frá þessari d. á sínum tíma, og get ekki samþ. frv. í þeim búningi, sem það kemur nú frá Ed. Ég tel, að það gangi of langt í því að loka þarna almennri atvinnugrein, sem ég sé ekki að sé bein þörf á eða eðlilegt að gera.