16.01.1953
Efri deild: 50. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1992)

201. mál, erfðaleiga af hluta af prestssetursjörðum

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. það munu nú ekki hafa verið gerðar ráðstafanir viðkomandi prestssetrinu á Brjánslæk, meðan ég hef verið kirkjumrh., og ég er þess vegna ekki svo kunnugur, að ég geti gefið neinar upplýsingar, sem að gagni koma um það mál. En það kom þarna fram hjá hv. þm. Barð., að þessu mundi vera skipt samkv. till. nýbýlastjórnar. Ég geri líka ráð fyrir, að það sé rétt, að það hafi verið gert. Það er ekki ástæða til þess viðkomandi þessu máli að fara að lengja um þetta umr. Það er vitað mál, að sumir prestar hafa notað aðstöðu sina eða misnotað, hvort sem maður vil] heldur segja, til þess að leigja prestssetrin fyrir allháa leigu og hafa af því verulegar tekjur. Og það hefur verið mjög illa séð, sem eðlilegt er.

Nú er það þannig, að n., sem á að gera till. um skipun prestssetra, á einnig að gera till., ef ég man rétt, um þetta atriði, hvaða prestssetrum megi skipta, hver séu nægilega stór til þess, og í þeirri n. er sá maður, sem mest hefur með þessi mál að gera, nýbýlastjórinn, Pálmi Einarsson, ásamt þeim tveimur mönnum, sem hv. 1. þm. N-M. nefndi hér, skrifstofustjóri í stjórnarráðinu og ritari biskups.

Ég efast ekkert um það, að það er rétt, að einstaka prestar hafa notað þetta sem verulega tekjulind og það á ekki alveg viðkunnanlegan hátt. Hins vegar má gæta að sér, alveg eins og hv. þm. Barð. sagði, að ganga ekki of langt í þessu efni og skipa því í hóf, og mér virðist nú satt að segja, að ef þessar n. eiga að fjalla um það, sem þarna ræðir um, þá muni nú vera nokkur trygging fyrir því.

Það verður að segja það eins og er, að þess gætir miklu víðar en hjá prestum, að menn séu landsárir hér í þessu landi, þar sem hefur verið búskapur, sem hefur verið rekinn með rányrkju. Menn verða að skilja það, að það skilur eftir hjá þeim, sem búskap stunda, vissa tegund af eftirsókn, sem gengur úr hófi fram, eftir landi. Það vita flestir, sem þekkja íslenzka bændur. Það er ekkert við því að segja. Það hefur verið stunduð hér rányrkja. Þeir hafa orðið að gera það um aldir. Og síðan lifir það í þjóðinni, alveg eins í prestunum, að það sé ómögulegt að búa nema hafa svo og svo stórt land. Þetta veit nú hv. 1. þm. N–M. áreiðanlega eins vel og aðrir. Það verður að segja það eins og er, að þessi tilfinning, sem er kannske helzt til rík hjá prestunum, er ákaflega rík hjá mörgum öðrum, sem stunda búskap.

Ég hef í sjálfu sér ekkert á móti því, að þetta mál gangi fram. En það þarf að athuga það gaumgæfilega í n., og væri ástæða til þess að ræða það við þá n., sem fer með skipun prestssetra, hvað hún hefur í þessum málum gert og hvað ríka ástæðu hún sjái til þess að gera slíka skipun sem gert er ráð fyrir í þessu frv., sem þarna liggur fyrir. Mér finnst það alveg sjálfsagður hlutur, þar sem n. starfar í þessu máli, að ræða við hana um málið.

Það er ekki alveg eins einfalt og hv. 1. þm. N-M. talar um að taka á þessu máli. Ég get nefnt dæmi. Það er óánægja út af Brjánslæk. Það er t.d. ekki að leyna því, að það er dálítil óánægja út af Árnesi í Árneshreppi, sem er svo stór jörð, að prestur hefur litið með hana að gera. Presturinn, sem kemur þangað núna, hefur skilning á þessum málum, og þess vegna getur þetta nú gengið eins og það er, en áður var mikil óánægja út af því. Og það er ekki að leyna því, að það stóð nokkuð í vegi fyrir því, að það fengist prestur til þess að koma þangað, að þar er búið að skipta landinu. Það verður að ganga að þessu með gát.