06.10.1952
Efri deild: 4. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í B-deild Alþingistíðinda. (2)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Frv. þetta er til staðfestingar á brbl., sem voru gefin út 16. júní þ. á. Með l. nr. 84/1940, um tekjuöflun til íþróttasjóðs, var veitt sérstök heimild til veðmálastarfsemi til þess að afla sjóðnum tekna. Þessi heimild hefur nú verið notuð og kom til framkvæmda fyrri hluta þessa árs. En það var sýnilegt, að hún mundi ekki koma að tilætluðum notum, nema því aðeins að vinningar í þessari veðmálastarfsemi nytu sömu fríðinda, að því er skatt og útsvar snertir, og hliðstæð fyrirtæki, svo sem ríkishappdrættið og happdrætti Háskóla Íslands. Þess vegna var talin nauðsyn á að undanþiggja vinninga í þessari veðmálastarfsemi íþróttasjóðs skatti og útsvari, er til fellur á árinu, öðrum en eignarskatti.