02.02.1953
Efri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

209. mál, veð

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið hingað frá hv. Nd. Þar var það flutt af landbn. eftir ósk hæstv. ríkisstj. Það fór í gegnum þá d. óbreytt og umræðulitið. Þegar við fórum að athuga það hér í n., þá sáum við fljótt, eða okkur fannst a.m.k., að frv. gæti ekki náð fram að ganga óbreytt. Okkur fannst líka, að til þess að ná þeim tilgangi, sem okkur skildist að væri með frv., þá væri ekki þörf á því að hafa það í því formi, sem það kom til okkar frá Nd. Okkur skilst, að tilgangurinn með þessu frv. sé sá að skapa aðstöðu til þess, að bændur geti með tiltölulega hægu móti náð sér í rekstrarfé, sem sé skammvinn lán og þeir, eins og búskaparháttum er nú orðið fyrir komið, geta ekki án verið.

Það hefur verið svo yfirleitt hér á landi, að mikill hluti af bændunum, sem hefur ekki vörur að selja nema tvisvar sinnum á ári, ull að vorinu og kjöt eða sauðfjárafurðir að haustinu, hefur ekki haft aðra úrkosti heldur en annaðhvort af tvennu að eiga til höfuðstól, sem væri nógu mikill til þess að geta keypt sínar þarfir á milli þess, sem afurðirnar féllu til, ellegar að fá lán, taka út frá áramótum og til næsta hausts í reikning, sem svo er borgaður með afurðunum í sláturtíðinni að haustinu. Þetta er það, sem yfirleitt hefur átt sér stað. Kaupmenn og kaupfélög hringinn í kringum landið hafa þess vegna orðið nokkurs konar lánsstofnanir fyrir bændurna. Þau hafa lánað þeim allar þeirra þarfir frá hausti til hausts, og þarfirnar voru ekki margbreyttar né miklar. Nú hafa þær aukizt ákaflega mikið. Þær hafa aukizt bæði með áburðarkaupum og fóðurbætiskaupum og mörgu fleira. Afleiðingin af því er sú, að samhliða því, að þarfirnar hafa aukizt og um leið aukizt ákaflega mikið fjárfesting, er sá höfuðstóll, sem bændurnir áður höfðu sjálfir til þess að hafa í þessu og verzlanirnar höfðu líka frá innstæðum annarra manna og gátu þess vegna lánað, meira og minna orðinn fastur, og þess vegna er núna svo komið, að það verður ekki hjá því komizt að útvega á einhvern hátt möguleika til þess, að bændurnir geti átt aðgang að rekstrarlánum árlangt. Hins vegar er engin þörf á því að búa út frv. til þess á sama hátt og frv., sem kom frá hæstv. ríkisstj., þar sem ætlazt er til, að þessi lán, sem svona eru fengin, geti verið viðvarandi lán, og ekki stafur um það, hvort þau séu til hálfs árs, eins árs, 20 ára, 50 ára eða l00 ára. Þá er það bara heimild til þess að veðsetja, ekki bara búfé, heldur líka allt innbú og allt saman óákveðið, sem þar er upp talið, í einum hóp fyrir láni, sem getur verið svo eða svo lengi. Þetta fannst okkur gersamlega ómögulegt.

En til þess þó að geta skapað þann möguleika, sem í frv. átti að felast, þ.e. að útvega bændunum möguleika til rekstrarlána, þá breyttum við 1. gr. frv. og álítum, að með því að hafa hana eins og hún er þar, þá sé möguleiki til þess, að bændurnir geti árlangt í einu veðsett hópveð eða afurðir af búfénu banka eða sparisjóði til þess að geta fengið út á það lán, og á þann hátt álitum við nægilega greinilega frá þessu gengið. Eins og var í frv., þá var líka ætlazt til þess, að slík veð þyrftu ekki að færast á milli lögsagnarumdæma í veðmálabókum, þótt menn flyttu búferlum. Það var náttúrlega alveg nauðsynlegt að færa það á milli veðmálabókanna, þegar menn flytja búferlum, ef það átti að vera til langs tíma, en þegar við gerum það að eins árs rekstrarláni handa viðkomandi manni, þá er ekki þörf á því. Nefndin er öll sammála, bæði lögfræðingarnir þrír í n. og svo við ekki lögfræðingar í henni, og teljum, að með þessu náist sá tilgangur, sem okkur virtist vaka fyrir og varð ljóst að var tilgangurinn með því, þegar landbrh. kom á fund n. og talaði um þetta. Frv., eins og það kom frá hæstv. ríkisstj. og Nd., var að okkar áliti alveg óalandi og óferjandi, en við teljum það vera orðið sæmilegt núna. Við erum öll með því, að frv. sé samþ., og skal ég svo ekki hafa þetta meira. — Þó vil ég aðeins bæta því við, að það er að því leyti frábrugðið frv., sem kom frá ríkisstj., að við látum vera núna annaðhvort bústofninn í hópveði eða loforð fyrir afurðum í hópveði. Afurðaloforðið var ekki í frv. stjórnarinnar, heldur bara sjálft búféð. Það skiptir ekki miklu máli, en ég held, að það sé rýmra og réttara að lofa þeim heldur að vera með afurðirnar í veði fyrir því. Það svarar til óveidda fisksins í sjónum, og sumir mundu kjósa það heldur en að láta búféð fara í hópveð.

Við leggjum þá til, að frv. sé samþykkt.