02.02.1953
Efri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

209. mál, veð

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég minntist á það, að þegar frv. kom til n., þá var það, eins og hæstv. ráðh. er ljóst, svo seint, að það var ekki nokkur leið að senda það neitt til umsagnar. Ef ég man rétt, þá fengum við það á föstudaginn seinni part og vorum í því á laugardaginn á nefndarfundi. Og þegar hugsað er að slíta þinginu á morgun eða á miðvikudaginn, þá sáum við, að var ekki til neins að fara að senda það til umsagnar. Hins vegar vorum við svo vel sett, að við höfðum þarna í n. þrjá lögfræðinga, sem ég held að allir séu taldir mjög sæmilegir lögfræðingar og sumir af þeim, eins og þm. Seyðf., með gróflega langa reynslu sem lögfræðingur, — og reyndar má segja sama um 6. landsk., að hann hafi líka langa reynslu. Einn þeirra hefur hana náttúrlega ekki langa.

Það kann vel að vera rétt hjá hæstv. ráðh., að málið þurfi enn þá að komast í nýjan búning til að gera það gagn, sem við erum sammála um, að það þurfi að gera. En ég held nú, að það sé komið í þann búning, að það geti farið að vappa með stokknum næsta ár og við þá fært það í betri föt að ári, ef þörf er á. Ég held, að það komi ekki að sök, þó að það fari að byrja að lalla svolítið með á þessu ári, sem nú fer í hönd, þangað til þing kemur saman aftur, og eins og ég áður hef lofað hæstv. ráðh., að ég skyldi vera með í því að athuga mál á næsta þingi, þá vil ég enn gera það með þetta mál og það mjög gjarnan. Ég vona þess vegna, að frá hans hálfu og annarra verði ekki neitt til trafala fyrir því, að málið fái nú að fara fram í þessari mynd. En það sýnir okkur bezt, hvernig góðir og glöggir menn, — eins og lögfræðingar í stjórnarráðinn eru sumir hverjir a.m.k., sem um þetta mál voru látnir fjalla og semja, fara að, þegar það eru mál, sem þeir þekkja ekkert til eða skilja not þeirra í hinu praktíska lífi. Þá taka þeir bara þegjandi og hljóðalaust upp grein úr kreppulánalöggjöfinni, miðaða við allt annað og allt aðra staðhætti, og ætla að færa hana út í hið daglega líf undir allt öðrum, aðstæðum. Það bendir aftur stjórnarráðinu á það almennt, að þegar það á að afgreiða einhver mál, sem eiga að hafa þýðingu fyrir hið praktíska líf, þá þýðir ekki að setja í það lögfræðinga, hversu góðir sem þeir eru, — sem hafa aldrei út úr stofunni farið að heita má og skilja ekki neitt eða þekkja til atvinnulífsins í landinu.