02.02.1953
Efri deild: 63. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

209. mál, veð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það er nú sýnilegt, eins og hæstv. dómsmrh. benti á, að þetta mál hefur ekki fengið nægilega athugun, enda er það svo, að málínu er útbýtt í hv. Nd. fyrst 26. jan., og síðan hefur það þotið í gegnum þá deild alveg athugasemdalaust. Ég held, að það væri því mjög eðlilegt, að þessari umræðu yrði frestað og málið yrði athugað betur af n. og hún gæti, þó að henni gæfist ekki tími til að senda það til umsagnar, fengið einhvern af hinum fróðu lögfræðingum, annaðhvort úr hæstarétti eða háskólanum, til þess að ræða við hann um þessi sérstöku atriði. Hér er, elns og hæstv. dómsmrh. benti á, ákaflega vandasamt mál á ferðinni. — Verði það ekki gert, þá vil ég nú biðja n. samt sem áður að athuga, hvort ekki þurfi að koma beint fram í l., að fóðurforði sá, sem hér er talað um að megi veðsetja, megi þó notast af eiganda fóðurforðans til þess beinlínis að fóðra það fé, sem veðsett er, eða þann bústofn. Ef einhver bóndi hefur gefið mér veð í ákveðinni hestatölu af heyi og ekkert er um það rætt, engir samningar liggja fyrir um það, að hann megi nota það til þess að fóðra með skepnur t.d., sem aðrir ættu veð í, sem vel getur komið fyrir, þá mundi ég ekki sem veðhafi taka það gilt, að þessu veði væri eytt, nema annað kæmi í staðinn. Ég held, að það sé því alveg nauðsynlegt, að tekin sé upp í lögin setning eitthvað sem líkust þessu: En þrátt fyrir veðsetningu er þó heimilt að nota fóðurforða til að fóðra hinn veðsetta bústofn. — Ég vildi biðja n. mjög að athuga, hvort það væri ekki hægt að koma því þannig fyrir. Einnig finnst mér, að orðin „svo og afurðir þeirra“ síðast í málsgreininni eigi að falla niður, því að ef tilteknar búsafurðir eru veðsettar, þá sé ég ekki ástæðu til þess, að það sé verið að banna viðkomandi manni að veðsetja aðrar afurðir, sem ekki hafa verið veðsettar, þó að þær komi frá þeim skepnum, sem veðsettar eru sjálfar. Mér er kunnugt um það nú, að maður getur veðsett kú, en veðsetningu á kúnni fylgir sannarlega ekki veðsetning á þeirri mjólk, sem kemur frá henni. (Gripið fram í.) Hann getur veðsett þessar afurðir öðrum manni líka. (Gripið fram í.) Þess vegna finnst mér, að þetta eigi að falla héðan í burtu, og vildi ég biðja n. að athuga um þessar tvær breytingar.