08.12.1952
Neðri deild: 36. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (2065)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er á þskj. 180 og er um heimild fyrir ríkisstj. til lántöku handa Iðnaðarbanka Íslands h/f.

Í 1. gr. þess segir:

„Ríkisstjórninni er heimilt að taka lán allt að 15 millj. kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og endurlána fé þetta Iðnaðarhanka Íslands h/f með sömu kjörum og það er tekið.“

Ég vil taka það strax fram vegna nokkurs misskilnings, sem gætti við 1. umr. þessa máls, að þetta frv. fjallar ekki um það eingöngu að taka lán þetta erlendis, heldur er gert ráð fyrir báðum þeim möguleikum, í fyrsta lagi lántöku innanlands og í öðru lagi, ef hún er ekki fær, þá lántöku erlendis. Þetta vil ég að liggi skýrt fyrir vegna nokkurs misskilnings, sem kom hér fram.

Þetta mál hefur verið til meðferðar í iðnn., og gat hún ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þess. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. vegna hinnar brýnu þarfar á að útvega iðnaðinum aukið starfsfé, eins og segir í nál. á þskj. 278. Minni hl. vill vísa frv. til stj.

Við 1. umr. þessa máls lagði ég áherzlu á það, og undir það var tekið af öðrum ræðumönnum, að brýn nauðsyn væri á því að efla hinn nýja Iðnaðarbanka. Ég þarf ekki að færa mörg rök fyrir þessari nauðsyn, en vil þó benda á það, að um 40% þjóðarinnar hafa nú lífsframfæri sitt af iðnaði. Ef við lítum á, hver þáttur iðnaðarins er í þjóðartekjunum, þá skiptast þjóðartekjurnar 1950, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, milli aðalatvinnuveganna á þessa lund: Landbúnaður 204 millj., sjávarútvegur 305 millj., iðnaður 392 millj. Hér er sem sagt um að ræða skiptingu þjóðarteknanna, en að sjálfsögðu gilda allt önnur hlutföll, þegar rætt er um útflutningsverðmæti. En þetta yfirlit um skiptingu þjóðarteknanna ætti þó að sýna mönnum greinilega, hversu stór þáttur iðnaðurinn er orðinn í þjóðlífinu og þjóðarbúinu. Ég vil einnig benda á annað. Atvinnuvegir okkar til lands og sjávar eru mjög óstöðugir og þó sérstaklega sjávarútvegurinn; veðráttan óstöðug. Þess vegna hefur jafnan verið svo um allan aldur Íslandsbyggðar, að hér hefur verið svo kallað árstíðabundið atvinnuleysi. Það er enginn vafi á því, að iðnaðurinn er sá atvinnuvegur, sem flestir líta til með björtustu vonum, að hann geti úr þessu bætt. Til þess að vinna bug á þessu árstíðabundna atvinnuleysi, að jafna atvinnuna yfir árið, bæði til lands og sjávar, er iðnaðurinn sérstaklega vel fallinn, bæði verksmiðjuiðnaður og handiðnaður.

Síðasta Alþ. samþykkti l. um stofnun Iðnaðarbanka Íslands, og hefur formlega verið frá stofnun hans gengið. Sá banki er að sjálfsögðu mjög félitill í fyrstu. Þetta frv. fer fram á, að ríkisstj. sé heimilað að taka allt að 15 millj. kr. lán til að endurlána bankanum og útvega honum þannig nokkurt byrjunarstarfsfé.

Andmæli gegn þessu frv. eru helzt þau, að ekki sé rétt af Alþ. samþ. lántökuheimildir, nema fyrir fram eða um leið sé öruggt um, að þau lán fáist. Ég vil benda á það, að Alþ. hefur ekki fylgt þessari reglu. Alþ. hefur á undanförnum árum hvað eftir annað samþykkt stórar lántökuheimildir fyrir ríkisstj. í ýmsu skyni, án þess að vissa væri fyrir um það þá, hvort þessi lán fengjust. Og í nál. minni hl. er greinilega á þetta bent. Þar eru taldar upp hvorki meira né minna, en lánsheimildir að upphæð 262 millj. kr., sem samþ. hafa verið á síðustu þingum, en enn hefur ekki verið útvegað að láni. Minni hl., sem notar þó að nokkru leyti þessa röksemd, hefur í rauninni hrakið hana sjálfur í sínu nál., þar sem hann bendir á, hversu Alþ. hefur á undanförnum árum í stórum stíl samþ. lánsheimildir með það fyrir augum, að ríkisstj. gerði allt, sem í hennar valdi stæði til að útvega þessi lán, en Alþ. hefur afgr. lögin án þess, að fyrir fram væri öruggt um þessi lán.

„Hver er þá tilgangurinn með því að vera að samþ. slíkar lántökuheimildir?“ kunna menn að spyrja. Tilgangurinn er auðvitað sá, að Alþ. marki það skýrt og skorinort, hvaða mál það vill leggja áherzlu á. Alveg eins og Alþ. hefur samþ. helmildir til lántöku vegna Sogsvirkjunar, Laxárvirkjunar, áburðarverksmiðju, sementsverksmiðju o.m.fl. til þess um leið að leggja áherzlu á, að þessum málum skuli hrinda fram sem fyrst, eins tel ég fulla nauðsyn, að Alþ. samþ. nú þetta lántökufrv. til þess að leggja áherzlu á, að það telur brýna nauðsyn á að efla bankastofnun iðnaðarins og færa þar með nýtt fjör í þennan þýðingarmikla atvinnuveg.

Út úr þessari d. hefur verið afgr. frv. um 22 millj. kr. lántökuheimild vegna Búnaðarbankans. Eins og ég minntist á við 1. umr., þá hefur Búnaðarbankinn svipuðu hlutverki að gegna fyrir landbúnaðinn eins og Iðnaðarbankinn fyrir iðnaðinn. Og Alþ. og ríkisstjórnir hafa vissulega stigið stórt skref í þá átt að stuðla að vexti og viðgangi Búnaðarbankans. Svo að ég nefni nokkur dæmi, þá hefur Alþ. ákveðið á síðustu 2–3 árum að verja 13.75 millj. kr. af gengishagnaði bankanna 1950 til þess að lána Búnaðarbankanum, í öðru lagi af greiðsluafgangi ríkissjóðs á árinu 1951 15 millj. kr., í þriðja lagi lántökuheimild frá síðasta þingi um 16 millj. kr. lán frá alþjóðabanka, og loks í fjórða lagi hefur hæstv. ríkisstj. lagt fyrir þetta þing frv. um 22 millj. kr. lánsheimild til handa Búnaðarbankanum, sem þessi d. hefur þegar afgr. frá sér. Ég vil taka undir, að allar þessar ráðstafanir eru æskilegar og nauðsynlegar til eflingar þessum banka og þeim atvinnuvegi, sem hann á að þjóna. En á sama hátt verður Alþ. að sýna skilning á eflingu iðnaðarins. Þetta frv. fer þó ekki fram á nema lítið brot af því, sem þegar er búið og verið er að samþ. til handa landbúnaðinum.

Í grg. minni hl. á þskj. 289 er svo kveðið að orði af minni hl. n., — en það eru fulltrúar Framsfl. í n., — að minni hl. n. þyki ekki tímabært að gera upp á milli þeirra till., sem liggja fyrir Alþ. um lántökur. Ég vil segja, að ef lántökuheimildin handa Búnaðarbankanum verður samþ., sem ég vona að verði, en þessi lántökuheimild handa Iðnaðarbankanum nær ekki fram að ganga, þá væri verið að gera upp á milli þessara atvinnuvega og setja iðnaðinn skör lægra.

Ég skal ekki hafa orð þessi fleiri, en fyrir hönd meiri hl. mæli ég eindregið með því, að frv. þetta verði samþykkt.