15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (2075)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Þess hefur orðið vart, að nokkuð eru skiptar skoðanir þm. um það, hvernig með þetta mál skuli fara. Á það hefur verið bent, að hæstv. ríkisstj. ætti svo mikið óunnið við útvegun lánsfjár til nauðsynlegra framkvæmda samkv. áður samþykktum lögum, að ekki væri bætandi við þau verkefni hennar að svo stöddu. Einnig hefur verið haldið fram þeirri skoðun, að eðlilegast mætti telja, að ríkisstj. ætti frumkvæði að útvegun lánsheimilda frá þinginu og að stjórnin tæki, í samráði við þá flokka, er hún styðst við, ákvörðun um það, í hvaða röð þau verkefni væru tekin til úrlausnar, sem ríkisstj. ætti að hafa með höndum eða útvega fjármagn til. Var því borin fram till. við 2. umr. frv. um að vísa málinu til ríkisstj. til athugunar. Sú till. var felld hér í hv. þd. Minni hl. iðnn., sem stóð að þeirri till., leyfir sér því að bera fram brtt. við frv., og liggur hún hér fyrir á þskj. 457.

Brtt. er um það, að við 1. gr. frv. verði bætt ákvæði um, að ríkisstj. skuli láta sitja í fyrirrúmi að útvega þau lán, sem þar eru talin og áður hafa verið samþ. l. um hér á Alþingi. Eru þar fyrst talin lán til áburðarverksmiðjunnar og stórvirkjananna, svo að takast megi að ljúka þeim framkvæmdum, einnig lán handa byggingarsjóði og ræktunarsjóði og til smáíbúðabygginganna, en stjórnarfrv. um þessar lántökur hafa nýlega verið afgr. sem lög frá þinginu. Þá er loks talið lán til byggingar sementsverksmiðju.

Hv. þdm. er það kunnugt, að ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir útvegun þeirra lána, sem talin eru í brtt. á þskj. 457, og þessi ákvörðun hæstv. ríkisstj. hefur ekki sætt gagnrýni, svo að vitað sé. En það liggur í augum uppi, að ef þingið samþ. nýjar lántökuheimildir til viðbótar þeim, sem fyrir eru, eins og lagt er til í því frv., sem hér liggur fyrir, þá þarf það um leið að ákveða, hvað af þessu eigi að sitja í fyrirrúmi. Það er nauðsynlegt vegna þess, að engar líkur eru til, að hægt sé að fá allt það lánsfé í einni svipan, sem lagaheimildir eru fyrir, ef enn verður við þær bætt. Þarf þá ríkisstj. að vita, hvað þingið vill leggja mesta áherzlu á og láta sitja fyrir, svo að hún geti hagað sér samkv. því við öflun lánsfjárins.

Eins og áður segir, eru talin í brtt. okkar þau lán, sem ríkisstj. hefur ákveðið að vinna að útvegun á og hún telur mest um vert að náist nú þegar eða mjög fljótlega. Við flm. till. lítum einnig svo á, að þær lántökur, sem þar eru taldar, eigi að sitja fyrir öðrum. Og við væntum þess, að aðrir hv. þdm. hafi svipaðar skoðanir á þeim málum og geti því á það fallizt að samþ. brtt. okkar á þskj. 457.