15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1418 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnist, að það komi eiginlega úr hörðustu átt, þegar svo ákveðnir stuðningsmenn hæstv. fjmrh. eins og þeir, sem standa að þessari till., koma fram með till. um að ætla að fara að fyrirskrifa ríkisstj., í hvaða röð hún eigi að taka lán, og taka þar ekkert tillit til þess, hvernig hæstv. ríkisstj. kunni að takast að fá lánin, með tilliti til þess, hve hentugt sé að útvega þau vegna þess,i hvað þau eigi að fara. Og svo verð ég að segja, að mér finnst hv. minni hl. iðnn. taka nokkuð lítið tillit til þeirra frv., sem hér liggja fyrir þinginu, m. a. frá hv. Framsfl., þegar hann ætlar nú að láta allt ganga fyrir, sem ríkisstj. sjálf er með, en man ekki eftir því, að það liggja fyrir frv. frá Framsóknar-þm. um að taka 3 millj. kr. lán og veita 3 millj. kr. til raforkusjóðs og gefa eftir lán og allt mögulegt annað upp á 72 millj. kr., sem Framsóknarþm. hafa flutt hér fram, svo að maður taki nú ekki tillit til þess, sem hinn stjórnarflokkurinn hefur verið hérna með, upp á 74 millj., að veita á ýmsan hátt. Ég held þannig, að í öllum þessum milljónaaustri, þar sem það mun vafalaust vera tilgangurinn hjá hv. þm. stjórnarflokkanna að setja meginið af sínum frv. í gegn, þá mætti það nú æra óstöðugan, ef ætti að fara að raða því upp hérna og binda þannig hendur hæstv. ríkisstj. Ég held hún verði nú að fá að hafa svo lítið frjálsræði, að hún ráði því, í hvaða röð hún tekur lánin og hvernig heppilegast muni vera hægt að fá þau, eftir því, í hvað góða hluti þau fara. Ég sé þess vegna ekki, að það sé hægt að standa með þessari till. frá minni hl. iðnn., og mun greiða atkv. á móti henni.