04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mér skildist á yfirlýsingu frá hæstv. fjmrh., að það væri ætlazt til þess, að þeir milljónatugir, sem hann taldi upp að þyrfti í ýmis fyrirtæki, svo sem áburðarverksmiðjuna, sementsverksmiðjuna og til þess að ljúka ýmsum öðrum mannvirkjum, yrðu að sitja fyrir. Er það ekki rétt skilið? (Fjmrh.: Jú.) En hins vegar væri enn óákveðið, hvort þær 80 millj. til Framkvæmdabankans og þær 80 millj. til raforkuframkvæmda mundu verða látnar sitja fyrir þessu láni, sem hér um ræðir fyrir Iðnaðarbankann. Er það ekki líka rétt skilið, að það sé enn óákveðið? — Nú, hæstv. ráðh. vill ekki svara því. En ég vildi þá gjarnan spyrja um, ef bankaráð eða bankastjóri Iðnaðarbankans skyldu geta útvegað lán erlendis eða innanlands, hvort þá mundi ekki verða notuð þessi heimild hér um að ábyrgjast það lán, þó að ekki væri búið að fá þau lán, sem hæstv. ráðh. talaði um. Mér þykir nokkurs virði að fá yfirlýsingu um það. Eða á yfirlýsing hæstv. ráðh. að skiljast þannig, að það sé óheimilt að leita fyrir sér um lán, utanlands eða innan, fyrr en þau lán hafa fengizt, sem hæstv. ráðh. talaði hér um? Um það vildi ég gjarnan fá að heyra frá hæstv. ráðh.