04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1421 í B-deild Alþingistíðinda. (2091)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér finnst alveg sérstök ástæða til þess að óska hæstv. fjmrh. mjög til hamingju með það, hversu fjárhagur íslenzka ríkisins hlýtur að hafa stórkostlega breytzt núna síðustu mánuðina. Ég man það, að þegar hæstv. ráðh. lagði fjárlagafrv. sitt fyrir þingið í okt. s.l., þá taldi hann, að þar væri teflt á tæpasta vað, svo mikil óvissa væri með horfurnar, að ekki væri gerlegt að ætla tekjur ríkissjóðs meiri, en þar var gert ráð fyrir. Gjöldin taldi hann þá að ekki væri hægt að minnka, og virðist það einnig hafa orðið ofan á hjá því Alþingi, sem nú situr, því að það hefur verið við þau bætt. Hæstv. ráðh. varaði einnig mjög við því að takast á hendur nýjar ábyrgðir og benti á, að það gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir ríkissjóð að taka slíkar skuldbindingar á sig.

Nú líður að þinglokum og styttist til kosninga. Í gærkvöld voru bornar hér fram í einu lagi till. um það að veita sem óendurkræf framlög að mestu til Búnaðarbankans og nokkuð til byggingarsjóðs verkamanna um 44 millj. kr. af lánum, sem ríkissjóður hefur veitt á seinustu tveimur árum, og enn fremur að taka lán handa Iðnaðarbankanum, 15 millj. kr. Við lokaafgreiðslu fjárlaganna voru útgjöldin þar, án þess að tekjurnar væru hækkaðar öðruvísi en á pappírnum, hækkuð um milli 20 og 30 millj. kr. Það er því augljóst, að álit hæstv. ráðh. á fjárhagsástæðum landsins og horfum, hlýtur nú að vera allt annað, en var í þingbyrjun. Finnst mér ástæða til þess að óska honum til hamingju með þær breytingar, sem á hafa orðið, þótt ég vilji ekki leyna því, að ég teldi æskilegt, að hann upplýsti þingið að nokkru um það, í hverju þessi breyting liggur, því að varla getur hún legið í því eingöngu, að kosningar eru nú svo mjög nálægt fram undan.

Hæstv. ráðh. gerði grein fyrir því, sem nú væri búið — áður en þetta seinasta kemur nú til, sem hæstv. ráðh. veik að hér í gærkvöld — að ákveða af ábyrgðum ríkissjóðs núna á næstunni og lántökum. Þær lántökur, sem gert er ráð fyrir, upplýsti hæstv. ráðh., væru 70–80 millj. kr. í virkjanirnar, 16 millj. í smáíbúðir og 22 millj. í Búnaðarbankann í viðbót við þau framlög, sem honum eru ætluð núna samkv. frv., sem hér liggur fyrir næst á dagskránni. Þetta eru samtals 108–118 millj. kr. Þá ræddi hæstv. ráðh. um framkvæmd, sem þegar sé byrjað á, að afla 80–85 millj. kr. til sementsverksmiðju og ýmsar ótilgreindar raforkumálaframkvæmdir upp á nálægt 80 millj. kr. Við síðustu umr. um fjárlagafrv. var samþykkt að veita einkafyrirtækjum ábyrgðir, þrem fyrirtækjum samtals 30 millj. kr., allt saman nauðsynlegum fyrirtækjum, en það er ný braut, sem Alþingi gekk hér inn á, að veita einkafyrirtækjum ríkisábyrgð í svo ríkum mæli sem þar um ræðir. Í lögum um Framkvæmdabanka er, eins og hæstv. ráðh. benti á, gert ráð fyrir ríkisábyrgð upp á 80 millj. kr. Og svo kemur nú það, sem hér er um að ræða, 15 millj. kr. lántaka til Iðnaðarbankans, — auk þess sem 44 millj. kr. af fyrri lánum eiga að gefast eftir með öllu.

Mér þótti rétt, af því að svo lítið hefur verið um þessi lán rætt hér, — enda komið nú að þinglokum, þegar þau koma til afgreiðslu, — að rifja þetta upp og draga þetta saman. Mér virðist allt benda til þess, að annaðhvort hafi, eins og ég áður sagði, stórkostlega batnað fjárhagur og horfur hjá íslenzka ríkinu á seinustu mánuðum eða þá að hugarfarsbreyting hafi orðið hjá hæstv. ráðh. og væntanlega þá einnig þeim flokkum, sem standa að ríkisstj.

Ég þarf ekki að taka það fram, að eins og málum er komið, þá mun ég greiða atkvæði með þessu frv. um Iðnaðarbankann. Ég sé ekki, að það muni um það í þessum mikla mat, þótt hann sé látinn fljóta með. Ég verð að segja það alveg eins og er, því að það er engin ástæða til þess, ef svo rúmt er um hendur hjá hæstv. ríkisstj., að láta hann verða alveg útundan og láta hann ekki einhvers njóta af þeirri almennu hagsæld, sem bersýnilegt er að hér er nú til staðar.