04.02.1953
Efri deild: 67. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

126. mál, Iðnaðarbanki Íslands

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil út af yfirlýsingu hæstv. ráðh. mega leyfa mér að benda á, að það getur vel komið til mála, að það þurfi að athuga nokkru nánar það frv., sem hér um ræðir, áður en það gengur hér út úr deildinni.

Ef það á að skiljast svo, að hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj. ætli ekki að beita sér fyrir því að fá lán til Iðnaðarbankans, fyrr en búið sé að fá lán fyrir allt að 200 millj. kr., eins og hann las hér upp áðan, og jafnvel kannske ekki fyrr en búið sé að fá lán fyrir allt að 400 millj. kr., eins og raunverulega mátti skilja á orðum hæstv. ráðh., þá sé ég ekki, að það sé nein ástæða til þess að afgr. málið eins og það er hér á þskj., og þá sé alveg nauðsynlegt að breyta 1. gr. frv. Hæstv. ráðh. sagði alveg réttilega, að það væri ekki um, að ríkisstj. ábyrgðist fyrir bankann, heldur um það, að ríkisstj. væri heimilt að taka lánið. En ég vil spyrja alveg ákveðið um það, hvort hæstv. ríkisstj. mundi taka slíkt lán, ef aðrir aðilar gætu útvegað það. Það er mergurinn málsins. Hér hefur verið gerður samningur um það, að þessi mál skyldu bæði verða afgreidd, ekki til málamynda, heldur raunverulega afgr. til þess að verða þeim aðilum, sem eiga við þau að búa, til einhvers gagns. Annars vegar eru gefnir eftir tugir millj. króna af eigum ríkissjóðs til ákveðinna stofnana, sem ég hef ekkert á móti, nema síður sé, en ef ætti að leggja þá skyldu áfram á Búnaðarbankann að endurgreiða þessi lán, þá gæti það fé a.m.k. gengið til þess að styrkja Iðnaðarbankann. Hins vegar vildi ég gjarnan, að kæmi hér fram, hvort það er hugsunin að gefa eftir þetta fé til Búnaðarbankans, sem honum er alveg nauðsynlegt að fá til þess að vinna að þeim verkefnum, sem honum eru ætluð, en á sama tíma sé afgr. frv. á þskj. 180 aðeins til málamynda, þannig að ekki eigi að vinna að þeim málum, fyrr en búið sé að útvega lán upp á 200 millj. kr., eins og hæstv. ráðh. sagði — og kannske upp á 400 milljónir — og aðrir megi ekki heldur vinna að því að útvega það lán, þannig, að ríkisstj. tæki það lán, ef aðrir gætu útvegað það, annaðhvort allt lánið eða einhvern hluta þess. Það er allt önnur aðstaða fyrir bankann að leita fyrir sér hér innanlands t.d. um einhvern hluta af láninu eða allt lánið og skapa áhuga hinna ýmsu manna, sem hafa hagsmuna að gæta af starfsemi bankans, fyrir því að bjóða fram fé, sem ríkisstj. tæki til þess að láta bankann hafa sem rekstrarfé. Og það er vel hugsanlegt, að það ástand gæti skapazt hér, að þeir menn vildu vinna til þess, á meðan ekki er hægt að fá allt það fé erlendis, sem þarf til annarra fyrirtækja. En þá er alveg nauðsynlegt, að það liggi fyrir hér annaðhvort yfirlýsing frá hæstv. ríkisstj. um, að tekið verði á móti slíkri aðstoð, en ekki farið með málið eins og mér skildist áðan á hæstv. ráðh., að það yrði eingöngu fyrir milligöngu hæstv. ríkisstj., að lánið yrði tekið, og að það, að mér skildist, yrði ekki tekið fyrr en búið væri að fá þau önnur lán, sem hann ræddi hér um. Sé það alveg ákveðið, þá er nauðsynlegt undir öllum kringumstæðum að breyta 1. gr. frv., til þess að þetta verði annað en pappírsgagn. Og ég tel, að ef málið er afgr. þannig út úr d., þá sé fullkomlega rofið samkomulag, sem gert var og lýst var í fjhn. í sambandi við afgreiðslu þessara mála.