17.10.1952
Efri deild: 10. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

19. mál, tekjuöflun til íþróttasjóðs

Haraldur Guðmundsson:

Mér virðist hæstv. ráðh. vera sömu skoðunar og hv. frsm. fjhn. um, að hugmyndin að styrkja sjúkrahúsabyggingar og sjúkrahúsarekstur í landinu sé góð, en það sé hugmynd, sem sjálfsagt sé að gæla við og tala vel og fagurlega um, en forðast vandlega, í sambandi við þetta mál að minnsta kosti, að gera nokkuð málinu sjálfu til stuðnings.

Hæstv. ráðh. telur, að ekki sé ástæða til þess að fara að setja ákvæði um að dreifa hagnaðinum fyrr en séð er, hver hann verði, og bendir á það, að enn sé hann enginn orðinn eða mjög lítill. Ég vísa til þess, sem ég fyrr sagði. Ég held, að það sé miklu betra að ákveða þegar í upphafi, — einmitt nú í sambandi við þau skattfríðindi, sem verið er að ræða um hér og ráðgert er að veita beinlínis til þess að þessi starfsemi geti aukizt og hagnaðurinn af henni því vaxið, — að setja einmitt þá í byrjun ákvæði um það, hversu hagnaðinum skuli skipt, því að það er alveg víst, að ef svo fer, að mikill hagnaður verður af þessu á næstu árum, þá verða íþróttasamtökin og þeir menn, sem vilja halda fram þeirra málstað, skiljanlega ekki fús á að láta taka einhvern hluta af þeim hagnaði, sem þau eru þá farin að reikna með sem vissum tekjum, frá sér til annarrar starfsemi í landinu. Slíkt mundi valda hinum mestu átökum; það er ég ekki í neinum vafa um, að hæstv. ráðh. gerir sér fullkomlega ljóst. Hæstv. ráðh segir (ég hef nú ekki haft tóm til að athuga lögin), að hægt sé með reglugerð að liðnum þremur árum að setja hver þau skilyrði sem ráðh. sýnist fyrir áframhaldandi leyfum til íþróttasamtakanna í þessu efni, þar á meðal að taka svo og svo mikið af hagnaðinum til allt annarrar og óskyldrar starfsemi. Ég fæ nú ekki séð, að lögin heimili slíkt. Þetta væri ákaflega víðtækt vald fyrir ráðh. Mig minnir, að ráðh. hafi heimild til þess að veita samtökum íþróttamanna heimild til þess að reka þessa starfsemi, sem ákveðin er í 1. gr. l. frá 1940, — og að hæstv. ráðh. geti, eftir að þeir eru búnir að hafa tekjurnar allar af þessari starfsemi í 3 ár, bundið síðan áframhaldandi leyfi því skilyrði, að 2/3 af tekjunum renni t.d. til sjúkrahúsa í landinu, sem hvergi er minnzt á í lögunum og ekki sjáanlegt, að Alþingi hafi haft í huga, þegar það setti lögin, það virðist mér vera mjög hæpið, vægast sagt, og ég vil fullyrða, að það mundi trauðla nokkur ráðh. gera það án þess að hafa samráð um það við Alþingi. En það breytir ekki því, sem ég fyrr sagði, að verði verulegar eða drjúgar tekjur af þessari starfsemi, þá verður þeim mun erfiðara að fá l. breytt í það horf, að nokkur hluti teknanna gangi til sjúkrahúsabygginga og sjúkrahúsarekstrar í landinu, og því er eðlilegt frá sjónarmiði þeirra manna, sem telja eðillegt og æskilegt, að einhver hluti teknanna renni til þeirrar starfsemi, að setja ákvæði um það nú þegar, um leið og skattfríðindin eru veitt, þau skattfríðindi, sem ætlað er að tryggja það, að verulegar tekjur hljótist af starfseminni, en ekki koma eftir á með ráðstafanir, sem þá virðist fráleitt að ætla að gera.