24.11.1952
Efri deild: 30. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

38. mál, verndun fiskimiða landgrunnsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af fyrirspurn hv. 4. þm. Reykv. vildi ég aðeins leyfa mér að segja það, að auðvitað er það rétt til getið hjá honum, að ríkisstj. hefur mikið hugsað og fjallað um þetta mál. Og ég hygg, að það sé sannmæli, að af þeim mörgu vandamálum, sem ríkisstj. hefur þurft að fjalla um undanfarna mánuði, þá sé nú þetta það, sem hefur verið hvað tímafrekast og einna bezt sinnt af hendi stjórnarinnar. Ég er hins vegar ekki reiðubúinn að gera nú grein fyrir áframhaldandi þróun málsins af hendi ríkisstj., en að gefnu tilefni vil ég þó segja það, að það hefur auðvitað verið fullkomlega til athugunar, — og síðast í morgun, — hvar á erlendum vettvangi við eigum að taka málið upp, og koma þá til greina ekki aðeins Sameinuðu þjóðirnar, heldur og aðrar þær samkundur, þar sem rödd Íslands heyrist. Brezka stjórnin hefur, eins og kunnugt er, haldið því fram, að þessar kúgunartilraunir, — og ég skal nú reyna að hafa hér ekki um það fleiri stóryrði, hvað sem nú hugur minn kann að hafa tilhneigingu til, — þessar kúgunartilraunir brezkra þegna gagnvart íslendingum, manna, sem hér hafa um langan aldur notið góðs og einskis nema góðs, þær séu enn sem komið er lögmætar og að ríkisstjórn Breta hafi ekki vald til að hindra þær. Við getum í ríkisstj. Íslands haft okkar hugmyndir um aðgerðir og aðgerðaleysi brezku stjórnarinnar í málinu. Það fer vel á því að tala varlega um þau efni og gera sér sem gleggsta grein fyrir hverju orði, sem þar er sagt, því að mælt orð verða þar ekki aftur tekin, og varðar mestu að fylgja málinu fram af fullum hug og fullri einurð, án þess að láta of mikið gæta þar þeirrar óánægju, sem að sjálfsögðu hlýtur að gera vart við sig hjá öllum íslenzkum mönnum út af þessu máli.

Ég hygg, að það sé ekki rétt af mér á þessu stigi málsins að segja annað eða meira um þetta, en vænti þá líka, að hv. þm. sjái af þessu, að ríkisstj. hefur fullan hug á að láta ekki sinn hlut að óreyndu og mun raunar ekki hopa í þessu máli, hvaða afleiðingar sem það hefur. Það er aðalsjónarmið málsins. Hitt sjónarmiðið er að rétta okkar hlut, þannig að við getum notið fulls frelsis til að selja okkar vöru í Bretlandi, að svo miklu leyti sem það ekki brýtur í bága við þau réttindi, sem aðrar þjóðir njóta þar, sem sömu kjara eiga að njóta eins og við.

Ég býst við, að ég geti aðeins bætt því einu við, að þess ætti ekki að vera langt að bíða, að íslenzka stjórnin komi sínu máli á framfæri —– ja, ef maður vildi orða það — á áhrifaríkari hátt, en verið hefur fram að þessu, og höfum við þó einskis látið ófreistað. En því verðum við að gera okkur grein fyrir, að þó að við höfum frá okkar sjónarmiði lög að mæla í þessum efnum, þá er það hvort tveggja, að aðrir kunna að líta á það öðrum augum, sem hitt, að heimurinn hefur nú um fleira að hugsa en það, hvort smáþjóð á hjara veraldar nýtur síns réttar til hins ýtrasta á þá lund, sem hennar eigin réttlætiskennd telur hana eiga skýlausan rétt á, þ.e.a.s., að það er nokkuð sitt hvað að eiga réttinn og hitt, að fá allan heiminn til þess að veita því nægilega athygli, að við eigum hann, og með því að koma að þeim áhrifum, sem annars vilja nú réttlætinu fylgja, okkur til framdráttar. Menn mega reiða sig á, að ríkisstj. mun gera það, sem hún telur í sínu valdi í þeim efnum.