03.02.1953
Neðri deild: 64. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Pétur Ottesen):

Atvmrn. sendi sjútvn. þetta frv. og óskaði, að hún flytti málið, eins og hún hefur gert. Efni þess er að veita bátaútvegsmönnum gjaldfrest á afborgunum þeim af stofnlánum vélbáta, sem féllu í gjalddaga 1. nóv. 1952, um eins árs skeið og að lánstíminn lengist í samræmi við það. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að sem afleiðing af þessu verði frestað endurgreiðslum stofnlánadeildarinnar, sem ákveðnar eru í 6. gr. l. um stofnlánadeildina, þ.e.a.s., það verði frestað endurgreiðslum til Seðlabankans sem því svarar. Enn fremur er gert ráð fyrir því, að sama gildi um lán úr fiskveiðasjóði og skuldaskilasjóði, og hyggst ríkisstj. að gera ráðstafanir til þess að koma því í kring, að samningar takist um að fresta innheimtu afborgana til eins árs til þessara sjóða. Ástæðunnar fyrir því, að farið er fram á þetta, er getið hér í grg., sem sé það mikla tap, sem bátaútvegsmenn urðu fyrir á síldveiðunum á s.l. sumri og talið er að hafi numið um 20 millj. kr., þegar búið er að draga frá þær bætur, sem þó fengust úr hlutatryggingasjóði.

Sjútvn. stendur, eins og ég sagði áður, öll að flutningi þessa frv. Hins vegar hafa nm. að sjálfsögðu óbundnar hendur um að flytja brtt. við þetta frv. á síðara stigi hér í d. og þá einnig til þess að vera með brtt., sem aðrir kynnu að flytja.