04.02.1953
Neðri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í B-deild Alþingistíðinda. (2104)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Frsm. (Pétur Ottesen):

Ég gerði hér í gær grein fyrir þessu frv. fyrir hönd sjútvn., sem hafði verið falinn flutningur þess. Sjútvn. mun ekki bera fram neina brtt. við þetta frv., en hins vegar hef ég leyft mér að bera hér fram brtt. við 1. gr. frv., sem þó er eingöngu breyting á fyrri málsgr. 1. gr. Og sú breyting er í því fólgin, að gjaldfrestur á afborgunum til stofnlánadeildar taki einnig til togaraeigenda, og hef ég breytt orðalagi till. í samræmi við það, að útvegsmönnum verði veittur þessi gjaldfrestur á afborgunum af stofnlánum til vélbáta- eða togarakaupa, sem féllu í gjalddaga o.s.frv.

Ástæðan til þess, að ég ber fram þessa till., er sú, að eins og kunnugt er hefur rekstur togaraútgerðarinnar gengið heldur illa á s.l. ári, og af því hefur leitt, að allmargir, sem að togaraútgerð standa, hafa ekki getað staðið í skilum með greiðslur á lánum sínum og þar á meðal til stofnlánadeildarinnar. Það er kunnugt, að nokkur útgerðarfélög og þar á meðal bæjarfélög, sem að togaraútgerð standa, munu skulda allt að tveggja ára greiðslur af lánum sínum úr stofnlánadeildinni, auk þess sem sum þessara félaga eru einnig í nokkrum vanskilum með aðrar skuldir, sem á þeim hvíla. Til þess að koma í veg fyrir, að þetta yrði til þess að stöðva rekstur togaranna og að stofnlánadeildin gengi að og léti selja skipin á uppboði til lúkningar þessum greiðslum, þá hefur ríkisstj. skorizt í leikinn og fengið í nokkur skipti frest á þessum greiðslum, þannig að þrátt fyrir þessi vanskil, sem orðin eru allviðtæk, hefur stofnlánadeildin ekki enn gengið að neinu þessara togarafélaga. Þetta getur nú vitanlega ekki gengið svo til lengdar.

Nú hafa hér á Alþingi í sambandi við afgreiðslu fjárlaga verið gerðar ráðstafanir gagnvart nokkrum bæjarfélögum, sem að togaraútgerð standa, og ríkisstj. hefur þar verið heimilað að ábyrgjast lán allt að 500 þús. kr. á hvern togara, og er það m.a. gert til þess, að það sé hægt að inna af hendi þessi gjöld til stofnlánadeildarinnar. Nú er mér kunnugt um það, að svo er ástatt fyrir sumum af þessum bæjarfélögum, að þessi hjálp, sem ber að þakka, hrekkur hvergi nærri til þess, að þau geti staðið í skilum með áfallnar greiðslur, svo að með þessu næst engan veginn það, sem stefnt er að, að koma í veg fyrir, að stöðvun verði á útgerð togara hjá þessum félögum vegna áfallinna greiðslna.

Þess vegna er það, sem ég hef leyft mér hér að bera fram þessa brtt., sem nokkuð mundi verða til viðbótar þeim atbeina, sem Alþingi nú hefur samþykkt við afgreiðslu fjárlaganna til þess að greiða úr fyrir þessum bæjarfélögum. Það er sem sé, að gefinn yrði um eitt ár frestur á afborgunum af lánum í stofnlánadeildinni til togarakaupa, eins og hér á að gera gagnvart bátaútveginum, og að lánstíminn yrði lengdur sem því svarar. Þetta mundi hjálpa nokkuð til að greiða úr brýnustu þörfum. Þótt hins vegar sé ekkert hægt að segja um það, hvað þessi aðstoð til viðbótar því, sem þegar er búið að gera, kann að draga langt á götur fyrir þessi félög að geta haldið útgerðinni áfram, þá er þetta þó allmikils virði fyrir þessi félög og mundi skapa þeim bætta aðstöðu og nýja möguleika frá því, sem nú er.

Eftir því sem mér er kunnugt um togaraútgerð á s.l. ári, þá mun það hafa verið svo, að afkoma þeirra útgerðarfélaga mun vera bezt, sem hafa haft þann hátt á að afla eingöngu eða að mestu leyti fisks í salt og hafa selt þennan fisk á markaði í Danmörku. Á Akranesi eða í mínu byggðarlagi hefur sá háttur verið hafður á í aðalatriðum að afla fisks til vinnslu í hraðfrystihúsunum þar heima. Þetta hefur verið ákaflega hagkvæmt að því leyti til, að þetta hefur veitt mjög mikla atvinnu á staðnum. Hins vegar hefur þetta gefið fyrir útgerðina allmiklu lakari raun, heldur en saltfisksveiðarnar. Auk þess varð bæjarútgerðin á Akranesi fyrir því mikla fjárhagstjóni og áfalli, að báðir togararnir þar voru látnir sigla tvisvar sinnum á Þýzkalandsmarkað, meðan það stóð opið, og voru alveg sérstaklega óheppnir í báðum þessum ferðum, svo að það út af fyrir sig hefur valdið bæjarútgerðinni á Akranesi á s.l. ári geysilegu tjóni, sem mun nema upp undir 1/2 millj. á hvorn togara, að ég ætla. En þetta er nú sérstök óheppni, sem þetta útgerðarfélag varð fyrir. Þó að hins vegar sé kunnugt, að mjög lélegar sölur á Þýzkalandsmarkaði ættu sér einnig stað hjá öðrum útgerðarfélögum, þá mun vart nokkurt togarafélag, sem seldi á s.l. ári fisk á Þýzkalandsmarkaði, hafa borið svo skarðan hlut frá borði sem togaraútgerð bæjarins á Akranesi.

Ég hef þess vegna, með tilliti til þess ástands, sem ríkir hjá bæjarfélaginu þar í sambandi við togaraútgerðina, hversu afkoma þess hefur verið slæm á s.l. ári, leyft mér að bera fram þessa brtt. hér, auk þess sem mér er kunnugt um það, að svo er ástatt fyrir fleiri togaraútgerðarfélögum, að þeim væri hin brýnasta þörf á því að fá þann atbeina, sem í því felst að geta fengið frestun á afborgunum þeim, sem féllu í gjalddaga 1. nóv. 1952, og þar með lengdan lánstímann um eitt ár.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að segja meira um þessa till. núna, en vænti þess, að með tilliti til þeirrar brýnu þarfar, sem hér er fyrir hendi, verði vikizt vel við því, sem í þessari till. minni felst.