04.02.1953
Neðri deild: 65. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1432 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Út af síðustu ummælum hv. þm. Ísaf. sé ég mig til neyddan að lýsa því yfir, að ég get ekki tekið á mig né stj. siðferðislegar skuldbindingar um að leysa vanda þeirra báta, sem eru í vanskilum fyrir árið 1951. Þessi megintill. stj. er borin fram til að leysa vanda bátaflotans í heild og þá auðvitað þessara báta líka, að svo miklu leyti sem þeir eiga samstöðu með hinum bátunum.

Út af því, sem hv. 2. landsk. þm. sagði, þá þóttist ég hafa kveðið alveg skýrt á um það, að ég hefði ekki eða ríkisstj. komizt lengra í okkar samningum við stjórn stofnlánadeildarinnar heldur en þetta frv. ber vott um, og hins vegar, að vegna fortíðarinnar hefði ríkisstj. ekki aðstöðu til að eiga frumkvæði að breyt. á lögunum um stofnlánadeildina nema með samþykki stjórnar stofnlánadeildarinnar og ég teldi mig þess vegna og við, sem í ríkisstj. eigum sæti, bundna af málinu í því formi, sem það liggur fyrir.

Hitt fór ég svo ekki dult með og sé ekki heldur ástæðu til að gera það, að ég tel, að vandræði togaraflotans hafi farið vaxandi og það sé mál, sem þarfnist alveg sérstakrar athugunar. Það er svo hins vegar nokkur misskilningur, að þau vandræði, sem hafa steðjað að Íslendingum vegna þeirrar réttlátu og þjóðarnauðsynlegu ráðstöfunar, sem gerð var með útvíkkun landhelgislínunnar, bitni eingöngu á togurunum. Að svo miklu leyti sem um vandræði verður að ræða í þessum efnum, - en úr því sker nú framtíðin ein, - þá má kannske álykta á þá leið, að nokkur hluti þeirra geti lent sérstaklega á togurunum, þ.e.a.s. þau óþægindi að geta ekki hagað sínum veiðum eftir því, sem hagkvæmast er fyrir þá á hverjum tíma. Hins vegar er í mínum huga sá aðalhængur á ráði okkar í þessum efnum, að ef togararnir, vegna þess að þeir eiga ekki aðgang að ísfisksmarkaðinum, neyðast til þess að stunda saltfisksveiðar, þá geti af því leitt þá hættu, að saltfisksframleiðsla landsmanna yrði of mikil. En það er hætta, sem allir sjá að er alveg jafnslæm fyrir bátaútveginn eins og togaraútveginn. Ef verðfall verður á saltfiski, verður það verðfall ekki síður á þeim saltfiski, sem framleiddur er af bátaflotanum, heldur en togaraflotanum. Og þó að ég meti í hvívetna skilning, undirtektir og framkomu íslenzkra togaraútvegsmanna strax og við þá var rætt um víkkun landhelginnar, þá vil ég, að mönnum sé ljóst og ekki sízt þeim sjálfum, hvað þeir hafa lagt á sig og hvað svo aftur á móti lendir eða getur lent á landsmönnum öllum.

Ég tel ekki líklegt, þó að ég færi nú að ræða að nýju við stjórn stofnlánadeildarinnar um frekari útvíkkun á heimildum þessa frv., að það mundi leiða til annars eða meira, en þær umræður, sem ríkisstj. hefur átt við stjórn stofnlánadeildarinnar að undanförnu. Ég veit líka, að hv. þm. skilja, að ríkisstj. er nokkur vandi á höndum um það að ætla um of að seilast til valda um stjórn bankanna. Það er hæpinn ávinningur fyrir ríkisstj., að það sé litið svo á, að hún stjórni bönkunum. Ofstjórn ríkisvaldsins mundi og bönkunum skaðleg, en hættulegust þó fyrir fjármálalífið í landinu. Ég hef hvað eftir annað átt samtal við bankana — og ekki sízt Landsbankann — hlaðinn rökum og sannfæringu um, að útgerðarmenn hafi verið beittir harðræði, en stundum fengið gagnrök frá stjórn bankans, sem hafa valdið því, að ég hefði heldur viljað láta niður falla þá göngu, heldur en að hafa farið hana. Það er kannske ekki nema eðlilegt, að menn, sem ýmist eru í peningavandræðum eða eiga þá hættu yfir sér að verða það, — því að sú hætta grúfir auðvitað ætíð yfir í þessum áhættusama atvinnuvegi, — reyni að færast undan jafnvel tilskildum og lögbundnum afborgunum, ef þeir telja sér undankomu auðið í þeim efnum. Afleiðingin af því er sú, að ef þessir menn fyrir milligöngu ríkisvaldsins og Alþ. geta losað sig undan kvöðunum, þá standa þeir ekki í fyllstu skilum. Ég hef um þetta reynslu í viðskiptum mínum við Landsbankann, þar sem ég sem málsvari útvegsins æ ofan í æ hef fengið skýrslur og rök frá bankanum, sem hafa ekki verið í samræmi við það, sem ég hef álitið, þegar ég hef komið þangað niður eftir til að verja mál útgerðarmanna. Og ég minni enn á þann aðstöðumun, sem er á milli vélbátanna annars vegar og togaranna hins vegar, ef dæma má eftir reynslunni, að af 108 vélbátum eru 9 — held ég í skilum, allir hinir í vanskilum fyrir árið 1952; en af 33 togurum eru 18 í skilum og a.m.k. 4 í viðbót, sem án efa geta staðið í skilum, þ.e.a.s. 22 af 33; 2/3 í skilum annars vegar eða 66%, en kannske 8 eða 9% í skilum hins vegar. Og það er ekki nema eðlilegt, að bankarnir segi: Við viljum sjálfir og einir án afskipta ríkisvaldsins glíma þessa glímu. Við höfum ekki verið þekktir að því að gera leik að því að setja útgerðarfélögin á hausinn.

Ég vil, að menn skilji það, að enginn ætti betur en ég að skilja örðugleika þá, sem togaraútgerðin á við að glíma. Ég vil einnig, að menn geri sér ljóst, að engum ber fremur skylda en mér til þess að reyna að halda hlífiskildi yfir þessari útgerð af einni orsök og annarri. Við útgerð hef ég lengi unnið og lengst af haft þaðan til daglegra þarfa minna. Ég hef mikinn kunnugleika í þeim efnum. Ég sé mér samt sem áður ekki fært að leggja þetta til gegn tillögum þeirra, sem stjórna bönkunum, af þeim rökum, sem ég þegar hef tilgreint. Og ég vil segja það hér, að mér finnst oft og einatt nokkuð mikil brögð að því, að framleiðendur í landinu snúi sér til ríkisstj. og ætli henni að vera yfirbankastjórn landsins eða a.m.k. umboðsmaður atvinnurekstrarins gagnvart bönkunum í stað þess að leita sjálfir til bankanna. Ég veit auðvitað ekkert, hvort stjórn togaraútgerðarmannafélagsins hefur sérstaklega reynt að semja um þetta við bankana, en a.m.k. yrðu slíkir samningar að vera á undan gengnir, áður en til kasta hins opinbera kæmi. Ég treysti því, að útgerðarmenn taki ekki þessa afstöðu mína sem vott um kaldan hug eða skilningsleysi í garð togaraútgerðarmanna, því að ég held, að engum bæri fremur en mér að bera þá fyrir brjósti, þó að málin liggi nú þannig fyrir, að ég sjái mér það ekki fært eins og sakir standa að bera óskir þeirra fram við bankana.

Varðandi það, sem hv. þm. Borgf. gat um, þá er það að sönnu alveg rétt, sem hann sagði, að hér er um heimild fyrir ríkisstj. að ræða, en þó er nú heimildin orðuð þannig, að ef nauðsyn krefur og ríkisstj. óskar þess, þá skuli þetta gert. Mig langar ekki að lenda í því að fá slíka heimild frá Alþ., úr því að ég þykist vita það fyrir vist, að ég geti ekki fengið samþykkt stofnlánadeildarstjórnarinnar til þess, þar sem það eru samningsrof frá minni hendi að knýja þá til þess með valdi þessara laga. Ég get þess vegna ekki, þrátt fyrir þessi rök eða þessar skýringar, mælt með þeim till. og verð að halda fast við það, sem ég áður sagði, að ég óska þess, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir og án allra breyt. Ég býst svo við, hver sem endir málsins verður. að það liggi fyrir ríkisstj. frekari athugun á vandkvæðum togaraflotans.