04.02.1953
Efri deild: 69. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (2118)

214. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Nd. hefur nú samþ. frv. um breyt. á Stofnlánadeild sjávarútvegsins, sem var borið fram að tilhlutun atvmrn. Eins og 1. gr. frv. ber með sér, þá er gerð sú breyt. á gildandi l. í þessum efnum, að Stofnlánadeildin skal, ef nauðsyn krefur og ríkisstj. óskar þess, veita bátaútvegsmönnum gjaldfrest á afborgunum þeim af stofnlánum vélbáta, sem féllu í gjalddaga 1. nóv. 1952, um eins árs skeið, og lengist lánstími í samræmi við það. Verði gjaldfrestur veittur samkv. 1. mgr., frestast endurgreiðsla stofnlána samkv. 6. gr. laganna til Seðlabankans sem því svarar. Í grg. eru færð rök að því, að þetta sé nauðsynlegt. Til frekari skýringar vil ég aðeins geta um það, að af 108 eða 109 vélbátum, sem lán hafa fengið hjá Stofnlánadeildinni, munu ekki vera fleiri en 9, þ.e.a.s. 8% af flotanum, sem hafa getað staðið í skilum. Að því liggja meðal annars rökin, sem grg. getur um, og raunar fleiri, en það hefur verið talið óhjákvæmilegt, að þessi gjaldfrestur yrði nú gefinn, og að loknum umr. féllst hv. Nd. á, að svo skyldi verða, og felldi brtt., sem fram voru bornar við málið og áttu þó við rök að styðjast. Vil ég sérstaklega geta um það hér til að fyrirbyggja misskilning, að hv. þm. Borgf. bar fram brtt. í Nd. um það, að þessi fríðindi skyldu einnig ná til stofnlána, sem veitt hefðu verið togurum. Ég gaf í Nd. þá skýringu á málinu, sem ég tel einnig nauðsynlegt að hv. Ed. fái.

Það mun hafa verið haustið 1950, sem núverandi ríkisstj. hlutaðist til um það, að stjórn Stofnlánadeildarinnar féllist á vissar óskir útvegsins og stjórnarinnar, sem þó voru ekki í samræmi við gildandi lög. Ríkisstj. gekk þá inn á það, að hún mundi ekki eiga frumkvæði að því, að þessum lögum yrði breytt, nema þá með samþykki stjórnar stofnlánadeildarinnar. Ég vil þess vegna, að menn geri sér ljóst, að enda þótt færa megi að því ýmis rök, að nauðsynlegt sé, að togaraútvegurinn eða a.m.k. nokkur hluti hans fái notið vissra fríðinda í þessu sambandi, þá er þó, eins og málið nú horfir við, svo komið, að ríkisstj. getur ekki lagt annað eða meira til í málinu en fyrir liggur í frv. á þskj. 730 og mundi raunar verða neydd til þess að draga frv. til baka, ef á því yrðu gerðar breytingar.

Ég vil til áréttingar því, sem ég segi um togarana, taka það fram, að ef marka mætti gjaldgetu þeirra á greiðsluskilum við stofnlánadeildina, þá eru þær tölur, sem þar liggja fyrir, nokkurt sönnunargagn um, að enn sem komið er eru togararnir betur bærir um að standa skil sinna skulda heldur en bátaflotinn, því að eins og ég áðan sagði, þá eru það ekki nema um 8% af bátunum, sem hafa gert skil, og það verður að telja líklegt, að það sé almennt vegna þess, að þeir séu ekki bærir um að gera það. En af togaraflotanum hafa nú þegar 18 af 33 gert skil, og þegar ég hef kynnt mér nöfn og eigendur hinna 15, sem ekki hafa gert skil, er mér að minnsta kosti fullljóst, að fjórir þeirra geta gert skil, ef að er gengið. En þá mundi svo komið, að 66% af togaraflotanum hefðu þegar gert skil.

Ég vil auk þess setja fram þá almennu athugasemd, að ég tel, að Alþ. og ríkisstj. beri að stilla mjög í hóf að reyna að beita áhrifavaldi sínu annaðhvort með beinum fyrirmælum laga eða óbeinum afskiptum ríkisstj. til afskipta gagnvart lánsstofnunum af slíkum málum. Það hefur oft verið mitt hlutskipti sem sjútvmrh. að þurfa að bera fram óskir og kröfur útvegsmanna gagnvart bönkunum, en ég hef nokkrum sinnum orðið þess var, að fullar upplýsingar hafa ekki legið fyrir mér, eins og þær hafa komið fram frá útvegsmönnum, og ekki fyrr en ég hef verið búinn að kynnast skoðunum bankanna, einkum Landsbankans, í þeim efnum. Ég tel varhugavert, að stjórnarvöldin beiti sér fast fyrir því, að þeir menn, sem tekið hafa á sig skuldbindingar, standi ekki við þær, ef nokkur möguleiki er fyrir hendi. Um það dæmir reynslan bezt, bæði varðandi þessi sérstöku lán og annað, og reynsla Landsbankans í þessum efnum er sú, að varðandi togaraflotann hefur tekizt svona almennt talað að halda þessu í sæmilegu horfi, þó að miður hafi tekizt um bátana. Ég árétta það, að ég hygg, að það sé varlega gerandi af Alþingi að taka um of fram fyrir hendur lánsstofnana í þessum efnum og að sama skapi beri ríkisstj. einnig að fara varlega, enda er það engri ríkisstj. til heilla, að hún verði talin aðalstjórn eða yfirstjórn bankanna í landinu, og mundi þó enn síður til heilla bönkunum eða fjármálastarfsemi landsmanna yfirleitt.

Ég vil vekja sérstaka athygli á því til að fyrirbyggja misskilning, að hv. þm. Borgf. leiddi í Nd. athygli að því, að hans till. hnígur ekki að öðru eða meira en því, að togararnir fái þennan rétt, ef ríkisstj. óskar eftir honum og nauðsyn er talin krefja.

Ef það er nú rétt — og það er rétt, að ríkisstj. er bundin af fyrri loforðum, og ef það er líka rétt — og það er rétt, að það, sem hér liggur fyrir á þskj. 730, er það mesta, sem ríkisstj. hefur getað samið um við Stofnlánadeildina, þá er ekki þægilegt fyrir ríkisstj. að fá viðbótarheimildir eins og hv. þm. Borgf. mæltist til. Ég mælist þess vegna mjög fastlega til, að frv. verði samþ. hér í hv. d. án allra breytinga, og endurtek, að ef á því yrðu breytingar, þá mundi stj. verða að taka frv. aftur. — Herra forseti. Ég vildi aðeins mælast til, af því að þessu máli liggur nú á og er mjög einfalt mál, að hægt væri að afgr. það hér án þess, að því yrði vísað til nefndar, eins og gert var í Nd.