15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Pétur Ottesen:

Ég vil leyfa mér að benda á það, að hér liggur aðeins fyrir nú við þessa umræðu nál. frá meiri hl. allshn., sem fyrir alllöngu var falið að athuga þetta mál. Mér virðist, að þetta mál sé þess eðlis, að fullkomin ástæða væri til, að fram færi á því gagnger athugun, af því að með þessu frv. mætti líta svo á, að lagður væri grundvöllur að því, að allmiklu lengra yrði gengið inn á þetta svið síðar meir, eftir að Alþ. væri búið að taka ákvörðun um, að verðjöfnun á einstökum vörutegundum bæri að gera með löggjöf. Ég hefði þess vegna, áður en ég tæki endanlega ákvörðun um þetta mál, talið það allmikilsvert, að fyrir lægi frá báðum nefndarhlutunum álit, þar sem þeir gerðu grein fyrir afstöðu sinni til málsins. Ég álít, að meiri hl. hafi gert hreint fyrir sínum dyrum með því nál., sem hann hefur gefið út í málinu, en hins vegar skorti alveg á um, að minni hl. geri sams konar grein fyrir sinni afstöðu. Hv. 5. þm. Reykv., sem talaði hér áðan af hálfu minni hl., fór aðeins mjög skammt inn á þetta mál og miklu skemmra, en gera verður kröfu til, að nefndarhluti geri um svo mikilvægt mál sem þetta er. Það er nú vitað, að hv. þm. Hafnf., sem er í minni hl. allshn. í þessu máli, á mjög annríkt þessa dagana og hefur þess vegna sjálfsagt nokkra afsökun í því að hafa ekki af sinni hálfu gert þessu máli þau skil, sem hann hefði þurft að gera.

Með tilliti til þess, sem ég nú hef sagt, teldi ég það vera mjög mikilsvert, að annaðhvort á þessu stigi eða þá á síðara stigi þessa máls lægi fyrir álit frá minni hl., þar sem skýrt kæmu fram þau sjónarmið, sem hann hefur í þessu máli, svo að málið bæri þannig að hér, að báðir nefndarhlutarnir gerðu rækilega grein fyrir afstöðu sinni, eins og ég álít að meiri hl, hafi þegar gert með nál. á þskj. 413. Ég fyrir mitt leyti vildi því mjög fara fram á það, að áður en endanlega væri gengið frá þessu máli, þá gerði n. málinu full skil, þannig að álit lægi einnig fyrir frá minni hl. Með tilliti til þess, að það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var borið fram á þinginu, væri ef til vill rétt, að málið gengi nú til 3. umr., en ég vildi mjög skjóta því til hæstv. forseta, að hann reyndi að stilla svo til, að minni hl. gerði fulla grein fyrir afstöðu sinni, svo að fyrir lægju þau tvö sjónarmið, sem fram hafa komið í nefndinni, áður en endanlega verður gengið frá afgreiðslu þessa máls. Ég tel það allmikilsvert, af því að ég tel það ekki ólíklega til getið, að af samþykkt þessa frv. mundi leiða, að till. kæmu fram um, að það mál yrði fært síðar út á nokkru víðara svið. Hér er því allur varinn góður.