15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1447 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Svo sem nál. hér á þskj. 413 ber með sér, þá hef ég undirritað með fyrirvara, og ég vil leitast við að gera grein fyrir þessum fyrirvara mínum.

Ég er á þeirri skoðun, að það sé nauðsynjamál, sem ekki verði hægt að komast hjá að leysa, að koma á sams konar verði á dieselolíu og brennsluolíu á öllum aðalhöfnum landsins, þar sem möguleikar eru á því að taka við olíu með ekki allt of óhæfilegum kostnaði, — ég á við þá staði, þar sem tankar eru fyrir hendi. Mismunurinn, sem hefur verið á brennsluolíu til togaranna á hinum ýmsu höfnum, hefur verið um 145 kr. á tonn. Það er ekki rétt, sem er sagt hér í bréfi því frá olíufélögunum, sem birt er með nál. okkar í meiri hl., að það sé 100 kr. mismunur. Það er 145 kr. mismunur og jafnvel 147 kr. mismunur á Akureyri, og ef miðað er við, að togararnir þurfi 200 tonn á mánuði, sem ekki er mjög í lagt og ekki óvarlegt, og að þeir taki alla sína olíu heima hjá sér, sem sagt þeir geri út frá sinni heimahöfn og leggi upp afla sinn þar, sem er vitanlega höfuðtilgangurinn með því að vera að kaupa togarana á hina ýmsu staði úti á landinu, þá er þessi verðmismunur umfram það að hafa gert út frá Reykjavík og tekið olíu sína hér um 30 þús. kr. á mánuði. Það er ekki ólíklegt sem sagt, að yfir allt árið muni þessi mismunur geta orðið 200 þús. kr. eða jafnvel meira, og þá er gert ráð fyrir því, að allmarga mánuði ársins sé togarinn gerður út frá öðrum stað, en sinni heimahöfn. Þá sér hver einasti maður í hendi sinni, áð þetta er slíkur baggi á togarana, að þeir hljóta að hyllast til þess að gera yfirleitt allt mögulegt annað við sinn afla heldur en að fara með hann á sína heimahöfn. Það er betra fyrir þá að sigla til útlanda, þótt ísfisksölur séu vafasamar, til þess að geta tekið olíur þar, eða að fara með aflann til Reykjavíkur, sigla með saltfisk út til Esbjerg o. s. frv. Þarna er beinlínis verið að ýta togurunum í það að leggja upp afla sinn annars staðar, en á sinni heimahöfn.

Nú er ástandið víða þannig, að það þarf beinlínis að gera opinberar ráðstafanir fólki til lífsframfæris, ef ekki tekst að auka atvinnuna á hinum ýmsu stöðum. Þess vegna er nauðsynlegt, að viðskiptaaðbúð togaranna og hinna meiri atvinnutækja á hinum ýmsu stöðum sé þannig, að þeir hafi sem svipaðasta aðstöðu hvað reksturinn snertir, þó að þeir leggi upp afla sinn á sinni heimahöfn. Þyrfti raunverulega að vera betri aðstaða við það, því að það eru mörg önnur atriði, sem valda togaraútgerðinni miklum kostnaði við það, þegar togararnir eru gerðir út frá hinum smærri höfnum hingað og þangað úti á landinu, miðað við það, sem er hér í Rvík og við Faxaflóa. En þetta er þó það, sem skyggir á allt annað og veldur úrslitum um það, að ekki er hægt að gera togarana út á ýmsum höfnum úti á landi, ef það þarf að greiða svona miklu hærra olíuverð, en greitt er hér í Rvík og hér við Faxaflóa.

Sama má vitanlega segja um þær verksmiðjur, sem þurfa á miklum hita að halda, t. d. gufuframleiðslu o. s. frv., eða eyða miklum hita í að þurrka mjöl, fiskimjöl og ýmislegt þess háttar. Þær þurfa mikla olíu, og þær er varla hægt að reka úti á landsbyggðinni, ef á að kaupa olíuna jafnháu verði og nú er gert. Þetta er sem sagt orðin alveg óhjákvæmileg nauðsyn fyrir atvinnulífið í landinu.

Hins vegar er ég á þeirri skoðun, að það sé dálítið annars eðlis með benzín. Þó að mörg rök mæli með því, að benzín sé á svipuðu verði á flestum höfnum landsins, þá er þó mjög miklu erfiðara að fylgjast með því. Benzín er ekki eins stór þáttur í atvinnulífinu og brennsluolía og dieselolía og þess vegna ekki eins sterk rök fyrir því að draga það inn undir verðjöfnunina eins og þær tvær olíutegundir, sem ég nefndi fyrst. Ég er þess vegna á þeirri skoðun, að benzín ætti ekki, a. m. k. ekki að svo komnu, að dragast inn undir þá verðjöfnun, sem frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir, ef að l. verður.

Þá vil ég benda á, að olíufélögin íslenzku, sem eru aðallega og raunar eingöngu þrjú, hafa á undanförnum árum haft ákaflega góða aðstöðu til þess að hafa verðlagseftirlitið í landinu eftir eigin geðþótta. Og ég býst við því, að það hafi aldrei komið fyrir, að olíufélögin, þegar þau hafa lagt saman þrjú, hafi ekki fengið að ákveða það olíuverð, sem þau hafa komið sér saman um, sem sagt að verðlagseftirlitið hafi ekki fallizt á verðkröfur þessara félaga á olíu. Ég er á þeirri skoðun, að olíuverð á Íslandi sé óhæfilega hátt og gróði olíufélaganna sé óhæfilega mikill. T. d. á s. l. sumri var olía hækkuð um 10%, án þess að nokkur samsvarandi hækkun væri á olíu á erlendum markaði og án þess að nokkuð væri hægt að sjá, að sérstök rök lægju fyrir því að framkvæma slíka gífurlega hækkun. Olíufélögin fóru samtaka fram á þetta. Það var fallizt á þeirra sjónarmið, og þau fengu að hækka olíuna um svona mikið, um 10%. Þetta er vitanlega óhæfa, að olía sé þannig hækkuð, og ég er á þeirri skoðun, að það væri hægt að framkvæma þá verðjöfnun, sem frv. gerir ráð fyrir, án þess að olía þurfi nokkurs staðar að hækka í verði í landinu, en láta olíufélögin sjálf kosta þá verðjöfnun. Ég mun þess vegna flytja brtt. um það, að aftan við frv. komi bráðabirgðaákvæði, þar sem ákveðið skuli vera, að árið 1953 verði olíufélögunum bannað að hækka útsöluverð á olíu sem svarar því verðjöfnunargjaldi, sem þau eiga að greiða samkv. frv., ef að l. verður. Þetta bráðabirgðaákvæði geri ég ráð fyrir að gildi fyrir árið 1953 eingöngu, með það fyrir augum, að þá geti fengizt reynsla fyrir því, hvort ekki sé fullkomlega forsvaranlegt að láta olíufélögin lækka verð á olíu sem svarar kostnaðinum við þessa verðjöfnun. Ég tel, að svo sé. Ég býst við því, að flestir þm. ættu að geta fallizt á það, að þessi tilraun verði gerð og það verði þannig gengið úr skugga um það, hvort ekki séu á rökum reistar þær skoðanir manna, að olían hér sé óhæfilega há í verði.

Ég tel mikið nauðsynjamál að koma á þessari verðlækkun á olíu á hinum ýmsu stöðum, á dieselolíu og brennsluolíu, og vil fastlega mælast til þess, að hv. þdm. leitist við að hraða þessu máli, þannig að það fái afgreiðslu á þessu þingi.