15.12.1952
Neðri deild: 40. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (2138)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég efast ekki um, að það, sem hv. þm., sem hér hafa þegar talað með því frv., sem fyrir liggur, hafa lýst viðvíkjandi ástandinu úti á landi almennt, sé alveg rétt. Það er alveg óþolandi aðstaða, sem nú á sér stað, í fyrsta lagi fyrir togaraútgerðina hjá bæjarfélögunum úti um allt land og í öðru lagi fyrir alþýðu manna, sem verður að greiða þetta mjög háa verð á olíum og benzíni þar. Það er ástand, sem verður að breytast. Og það er alveg rétt, að það verður að horfast í augu við það, að þetta ástand, að leyfa olíuhringunum að leggja svona gífurlega á olíuna úti um land, verður að afnemast. Það er ekki hægt að una við það, að alþýðu manna úti um land sé gert þannig miklu erfiðari öll hennar lífsbarátta af völdum nokkurra auðhringa í landinu. Þetta kemur við atvinnulífið, ekki sízt hvað snertir togarana, sem bæjarfélögin um allt land eru nú að reyna að hafa sem grundvöll að stórrekstri hjá sér, en það kemur líka við alla þá, sem þar nota olíu til annarra hluta, hita og annars slíks, og við þær rafstöðvar víða úti um land, sem verða að kynda þar með olíu. Ég held, að hv. d. þurfi að gera sér það ljóst, að hún verði þarna að taka í taumana og að það verðum við að vera sammála um.

Þá kemur hin spurningin: Með hverju móti er skynsamlegast og réttlátast að gera þetta? Hér í Rvík er olía notuð, eins og úti á landi, til togaraútgerðarinnar, til raforkuframleiðslu og til upphitunar. Hér er fjöldi húsa, og hér í bæjunum í kring er fjöldi húsa, sem kynt eru upp með olíu. Hér eru m. a. verstu híbýlin í Rvík, allir braggarnir, kynt upp með olíu. Og sannleikurinn er, að eins illa og farið er með bæjarútgerðirnar úti um land af hálfu olíuhringanna núna, svo að það er alveg óþolandi ástand, þá er hins vegar vitanlegt, að þrátt fyrir það mun lægra verð, sem togararnir hérna fá olíu á, þá virðist eins og þeir berjist í bökkum líka. Og hvað snertir það fólk, sem þarf að greiða olíuna, þá mun því vafalaust finnast — og ekki sízt þeim fátækustu — nóg vera af sér tekið. Fyrsta spurningin, sem hlýtur að vakna fyrir okkur, þegar við viðurkennum, hvað óþolandi ástandið sé úti um land, er þess vegna: Getum við bætt úr þessu okri, sem landsbyggðin býr nú undir, án þess að hækka verðið í Rvík og nágrenni? — Það hlýtur að vera það fyrsta, sem við hljótum að athuga, eins og hv. þm. Siglf. kom hér inn á áðan og leiddi nokkuð rök að, þ. e., olían verður að lækka úti á landi. En á kostnað hverra? Hver er það, sem á að borga? Og þar held ég, að við verðum alveg hreint að gera okkur ljóst, og það verður þessi hv. d. að horfast í augu við, að það er hún, sem ræður því, hverjir verða látnir borga lækkunina, sem verður að fara fram á olíunni úti um land. Ég er ekki í neinum minnsta vafa um það, að það er hægt að lækka olíuna úti um allt land niður í það verð, sem nú er í Rvík. Og ég mundi vilja taka dýpra í árinni. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að það er hægt að lækka olíuna úti um allt land og benzínið niður í sama verð eins og nú er í Rvík og lækka síðan verðið, bæði úti um land og í Rvík, niður úr því, sem nú er. Og ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að hv. d. taki það mál til alvarlegrar umr. og skorist ekki undan að rannsaka það mál fyllilega til hlítar, komi sér ekki hjá því.

Ég vil minna á það, að þetta mál með olíuokur er ekki neitt nýtt mál hér á Alþ. Íslendinga. Fyrir 40 árum lá þetta mál hér fyrir Alþ., 1912. Þá var því lýst hér af þeim þm., sem þá áttu sæti hér á þingi, m. a. af Jóni Ólafssyni ritstjóra, hvernig olíuhringurinn, sem þá hafði einokunartök hér á Íslandi, arðrændi landsbúa. Jón Ólafsson talaði þá um risablekfiskinn, sem teygði út arma sína um allt atvinnulífið og sygi til sín gróðann frá fólkinu. Og þá hafðist í gegn eftir harða baráttu ákvörðun um einkasölu á olíu hér á Íslandi. Þá stóð baráttan við félag hér heima, sem hét og heitir Hið íslenzka steinolíufélag og hafði umboðið fyrir Det Danske Petroleum Aktieselskab (D. D. P. A.), sem, eins og menn vissu þá og vita enn, er umboðshringur fyrir Standard Oil í Danmörku. Það var baráttan gegn þeim danska einokunarhring, sem var útsendari þessa ameríska einokunarhrings, sem var þá háð og um tíma með nokkrum árangri. Þeim, sem þá áttu sæti á Alþ. Íslendinga, var alveg ljóst, hvernig farið var með landsfólkið. Þeim var alveg ljóst, að það var verið að ræna það í hvert einasta skipti, sem nokkur maður keypti olíu eða annað, sem hringarnir framleiddu. Og þeim var það ljóst, að Alþ. Íslendinga hafði sjálft möguleika til þess að koma í veg fyrir þetta arðrán og lækka verðið á olíunni.

Sú spurning, sem nú hlýtur þess vegna að liggja fyrir okkur hér fyrst og fremst að taka ákvörðun um, er: Hafa olíuhringarnir breytzt svo mikið síðan 1912, eru þeir orðnir svo uppfullir af miskunnsemi, réttlætistilfinningu og góðvilja í garð almennings, að þeim detti nú aldrei framar í hug að arðræna nokkurn mann? Eru þeir orðnir svo sérstaklega góðir við Íslendinga, að þeir selji þeim olíuna svo ódýrt, að það sé alveg ómögulegt að selja hana billegri? Eða eigum við enn þá við að búa alveg samsvarandi okur eins og meðan danskir bankar réðu hér á Íslandi, danskur olíuhringur arðrændi okkur og íslenzkir þm. risu upp hér á Alþ. Íslendinga til þess að krefjast þess, að valdi íslenzka ríkisins væri beitt til þess að vernda landsmenn á móti þessum olíuhring. Gildi olíunnar og hinna ýmsu olíuafurða hefur nú margfaldazt fyrir okkar þjóðfélag frá því 1912. Olían og benzínið — og ég á þá við allar þessar tegundir, þegar ég tala um olíu — eru orðin bókstaflega eins og blóðið í þjóðarlíkamanum hvað atvinnulífið snertir, enda er nú svo komið, að fimmti hlutinn af innflutningi Íslands er olía og olíuafurðir. Ég geng út frá því, að í ár muni innflutningur á olíu og olíuafurðum varla vera undir 150 millj. kr., miðað við verðið hér á höfninni, áður en tollar og slíkt leggjast á það.

Ég leyfi mér að fullyrða, — og skyldi færa fram rök fyrir því, ef það væri ekki of langt mál hér, — að af því olíuverði, segjum 150 millj. kr., sem Ísland greiðir hinum útlendu olíuhringum, þ. e. þeim, sem senda olíuna hingað til sinna umboðsfélaga hér, sé aldrei undir 20% hreinn gróði. Og ég býst satt að segja við, að það sé mun meira. Það hefur m. a. komið ákaflega greinilega í ljós við það uppgjör, sem átt hefur sér stað í Íran við olíuhringana þar, hvað gífurlegur gróðinn er, sem olíuhringarnir taka. Og það er vitanlegt, að sem stendur er olía fáanleg á heimsmörkuðunum 20% undir því verði, sem þeir hringar, sem hingað selja, Standard Oil og aðrir, nú skrá. Þó að maður þess vegna aðeins gangi út frá þessum verðmismunn, þá er sá skattur, sem Íslendingar sem heild borga hinum útlendu olíuhringum af olíuverðinu, ef maður reiknar með 150 millj. kr., varla undir 30 millj. kr. og líklega mun meira í útlendum gjaldeyri af olíuverðinu hér við höfn. Síðan eiga íslenzku olíufélögin að taka við þessari olíu og selja hana út hér með þeirri álagningu, sem bæði ríkið leggur á og þau leggja á. Og hvernig hefur verið háttað þessari álagningu hjá sjálfum innlendu olíuhringunum, hjá þessum umboðsfélögum, sem taka hér við olíunni af Standard Oil, Anglo- Iranian og Shell? Við fengum ofur litla mynd af því fyrir tveim árum hér á Alþ., þegar upplýst var, hvernig verð það, sem innkaupastofnun ríkisins fékk hjá olíufélögunum, var í hlutfalli við það opinbera verð, sem olíuhringarnir fengu að selja á út til almennings með leyfi þáverandi verðlagsnefndar. Ég veit, að suma hv. þm. rekur minni til þessa, en ég skal ítreka það, til þess að ekkert fari á milli mála. Í bréfi til fjvn. Alþ. 18. jan. 1951 lýsti fulltrúi verðgæzlustjóra því yfir, að 3. apríl 1950 hefði verð til báta, hámarksverð, verið 653 kr. á tonn. Þann sama dag hins vegar var það verð, sem innkaupastofnun ríkisins samdi um við Olíufélagið h/f til skipa í Reykjavík, 530 kr. á tonn, eða 120 kr. lægra á tonn. Og samsvarandi verðmunur var á öðru því frá útsöluverðinu, sem olíuhringarnir höfðu sannað verðgæzlustjóra, að þeir þyrftu að hafa, með mjög skynsamlegum útreikningum vafalaust og auðvitað mjög vel undirbyggðum, sem þeir höfðu lagt fyrir. Verðmismunurinn, sem hægt var að fá þá til að selja fyrir, var hvorki meira né minna en 120 kr. á tonni, sem kostaði í útsölu opinberlega 653 kr. Og ætlar nú nokkur maður, að þrátt fyrir alla ást olíuhringanna á íslenzka ríkinu hafi þeir látið íslenzka ríkið og innkaupastofnun þess fá olíuna án nokkurrar álagningar? Nei. Það dettur engum hv. þm. í hug, og því síður nokkrum manni utan Alþ. Það liggur þess vegna fyrir staðfest, að sá gróði, sem olíuhringarnir taka hér fram yfir allan sinn kostnað, er á hlutum eins og þessum slíkur, að þeir geta leikið sér að því að gefa 20% í afslátt, án þess að það gangi út yfir þeirra gróða. Ég efast ekki um, að verðmæti allrar olíu og benzíns, þegar hvort tveggja er selt út hér á Íslandi, ef það kostar 150 millj. kr. í innkaupi hér á höfn, sé komið allmikið yfir 200 millj. kr., þegar alþýða manna á Íslandi og atvinnuvegirnir kaupa það. 20% gróði á slíku er þá aldrei undir 40 millj. kr. M. ö. o.: Það er ekkert ólíklegt, að útlendu og innlendu olíuhringarnir hafi jafnvel 70 millj. kr. gróða á ári af Íslendingum, þegar Íslendingar borga 150 millj. kr. fyrir olíuna hér á höfn.

Ég nefni þetta aðeins sem litið dæmi, til þess að sýna fram á, hvernig sópað er inn úr vösum almennings í hít olíuhringanna gróðanum nú sem stendur, enda er það vitanlegt og auðsjáanlegt á öllum þeim tankbyggingum og öllum þeim benzínstöðvum, sem upp hafa risið um allt land og olíuhringunum er leyft að skrifa niður á örfáum árum á kostnað Íslendinga, stórkostlegum mannvirkjum, sem reist eru að miklu leyti alveg að óþörfu og í hreinni vitleysu. Það er auðséð, að þessir hringar vita yfirleitt ekki, hvað þeir eiga við peningana að gera, sem þeir ná út úr almenningi. Það er þess vegna engum efa bundið, að það er hægt að lækka verðið á olíu og benzíni úti um allt land niður í það, sem er í Rvík, og jafnvel lækka það síðan niður úr því, ef aðeins Alþ. Íslendinga og ríkisstj. landsins er samhent um að láta olíuhringana borga. Það er ekkert mark takandi á neinu því, sem frá olíuhringunum sjálfum kemur í þessu efni. Það eru búmenn, sem kunna að barma sér, og þeir munu ætið og ævinlega lýsa því yfir, að þeirra þrautpíndu bök þoli nú ekki meira.

Það rekur vafalaust ýmsa hv. þm. minni til, að einu sinni var lagður hér á sem oftar hækkaður benzínskattur, og olíuhringarnir lýstu því yfir, að auðvitað gætu þeir ekkert borið af þessum benzínskatti, vesalingarnir, og kröfðust þess og gerðu það að hækka benzínið, sem skattinum samsvaraði. En það var hins vegar hægt að velta öllum þessum skatti yfir á hringana. Og það var sannað og gert með því, að ríkisstj., sem trúði þeim og leyfði þeim að hækka, var knúin til þess að leyfa frjálsan innflutning á benzíni til landsins.

Það er engum efa bundið, að möguleikarnir til þess að lækka verðið á olíunni eru fyrir hendi. En hitt er gefið, að skynsamlegasta aðferðin til þess að berjast við olíuhringana, vegna þess að hér er um að ræða eitthvert mesta stórveldi heims, er, að ríkið sjálft beiti sér fyrir því. Að vísu er hægt fyrir samtök almennings að gera þetta. Það er hægt fyrir sterk og harðvítug samvinnusamtök neytenda, bænda, útvegsmanna að segja olíuhringunum stríð á hendur og knýja niður olíuverðið. Það er engum efa bundið. En ef olíuverzlun á að vera á því tæknilega stigi, að allt sé gert sem ódýrast, benzínið haft á stórum tönkum og með stórum olíuflutningaskipum og slíku, þá þarf þetta að vera gert af fjárhagslega sterkum aðilum. Og ég efast ekki um, að ef samtök útvegsmanna hér á Íslandi, Samband íslenzkra samvinnufélaga hér á Íslandi og önnur slík samtök tækju sig saman frjáls og óháð með velvilja ríkis og banka, þá gætu þau fyllilega sýnt olíuhringunum, sem nú okra á þjóðinni, í tvo heimana. En þetta er ekki gert. Af hverju? Það er máske ekkert undarlegt, þó að sá flokkur, sem fyrst og fremst hefur staðið með auðhringunum hér á Íslandi, Sjálfstfl., standi með þeim í svona átökum. Hitt er undarlegra, að þau samtök, sem menn alveg sérstaklega hefðu búizt við að ættu að berjast á móti okri hringanna, eins og S. Í. S., skuli ekkert gera í þessum efnum, og þó þarf ekki langt að leita að orsökunum til þess. S. Í. S. og forstjóri þess, Vilhjálmur Þór, — og ég veit, að hann á næga forsvarsmenn hér inni, svo að ég kinoka mér ekkert við að nefna hans nafn, — eru nú sjálf orðin umboðsmenn fyrir voldugasta einokunarhringinn í olíu í veröldinni, Standard Oil, þann sama hring sem teygði klær sínar í gegnum Danmörku til okkar 1912 og Jón Ólafsson átti við, þegar hann talaði um risablekfiskinn. Það, sem nú hefur gerzt, er, að langsamlega svívirðilegasti gróðahringur veraldarinnar, Standard Oil Co., hefur náð slíkum tökum á S. Í. S., að það er búið að skapa sams konar afstöðu hjá því og því olíufélagi, sem það er í hér, eins og hjá öðrum hringum, sem hér voru fyrir, þannig að allir þessir þrír hringar hafa nú sömu afstöðuna gagnvart neytendunum og standa saman um að okra á þeim, standa saman um yfirlýsingarnar um, að ekki sé hægt að lækka verðið. Þetta er það, sem gerir það að verkum, að Framsfl. hér í þinginu tekur nú ekki upp baráttuna gegn olíuhringunum, beinir nú ekki geiri sínum þangað, sem þörfin er mest fyrir að skera niður svo og svo mikið af þeim gróða, sem olíuhringarnir hafa, og lækka þannig verðið á olíunni úti um allt land, til manna í bæjum og í sveit.

Ég hjó eftir því, að hv. 1. þm. Árn. kom að því í sinni ræðu sem frsm. hér áðan, að honum þótti Alþ. lint í þessum efnum, og ég skil hann vel. Hann sem einn okkar elzti þm. man þá daga, þegar var barizt öðruvísi í þessum efnum hérna. Og ég held, að það sé tími til kominn, að Alþ. láti til sín taka um þessi mál. Það er sú ríkisstj., sem situr hér að völdum, sem lætur olíuhringana, bæði þá útlendu og innlendu, leggja 60–70 millj. kr. skatt á ári á landsbúa. Og það er á valdi þessarar stofnunar, á valdi Alþ. að binda endi á þetta olíuokur. Þegar fjöldinn allur af öðrum þjóðum heims rís upp á móti olíuhringunum, þegar jafnvel menn, sem við höfum nú ekki álitið að stæðu sérstaklega framarlega í mannréttindabaráttu, eins og Persar eða íbúar Íraks, rísa upp gegn olíuhringunum, þá erum við ekkert skuldbundnir til þess að sitja rólegir og una öllu því okri. Ég held, að það væri alveg óhætt að láta olíuhringana fá að vita af því, að það sé búið með þolinmæði Íslendinga í þessum efnum. Svo fremi sem það er ekki gert, svo fremi sem baráttunni er ekki beint gegn olíuhringunum til þess að lækka verðið úti á landinu, bæði á olíum, benzíni og öðrum slíkum afurðum, þá er það einvörðungu vegna þess, að olíuhringarnir hafa slík tök á ríkisstj. Íslands og að þm. stjórnarfl. hér á Alþ. þora ekki að láta það koma í ljós, hve sterk þau tök eru, eða þeir hliðra sér hjá því að sýna olíuhringunum í tvo heimana. Ég vil sérstaklega minna hv. þm. Framsfl. á, að hér í Rvík var mjög herskár þm. af þeirra hálfu að tala fyrir síðustu alþingiskosningar og lýsti því yfir með góðum undirtektum, að fjárplógsstarfseminni væri sagt stríð á hendur, og það hafa ekki minnkað, síðan þær kosningar fóru fram, hneykslin, sem standa í sambandi við olíuhringana, né grunur manna um að gróði þeirra og álagning þeirra á landsmenn sé ekki aðeins meiri en góðu hófi gegni, heldur líka jafnvel meiri, en nokkur lög leyfa. Ég held þess vegna, að höfuðatriðið við umr. þessa mál verði að vera, hvort hv. þm. þora — svo að ég noti orð Framsfl. — að segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur, þora að láta olíuhringana borga fyrir fólkið úti á landi. Það, sem hér þarf að gera upp, er það, hvort alþýðan úti á landi og alþýðan í Rvík á að standa saman á móti olíuhringunum eða hvort olíuhringarnir eiga svo sterka erindreka hér, að það megi ekki róta við þeirra okri, hvort tök amerísku og ensku olíuhringanna á Framsfl. og Sjálfstfl. séu svo sterk, að það megi ekki snerta við þeim, þó að það sé vitanlegt og opinbert og skjalfest, að það skiptir tugum millj. kr., líklega 60–70 millj., sem hringarnir, þeir útlendu og innlendu, taka af Íslendingum á hverju ári með olíuverðinu.

Ég sé, að hv. þm. Siglf. hefur borið fram till. um bráðabirgðaákvæði viðvíkjandi árinu 1953, sem út af fyrir sig er mjög gott. En ég held satt að segja, að það væri alveg óhætt að taka enn þá dýpra í árinni hvað þetta snertir, og ég hef þess vegna leyft mér að útbúa hér brtt., sem enn eru skriflegar, og ég verð að biðja hæstv. forseta um afbrigði, á þá leið, sem ég nú vil greina:

1) Að í 1. gr., þar sem segir: „Söluverð á gasolíu, brennsluolíu og ljósaolíu og benzíni skal vera hið sama“ — þar komi á eftir: og nú er í Reykjavík á öllum útsölustöðum á landinu — þ. e. að orðunum „og nú er í Reykjavík“ sé skotið þarna inn í, þannig að öll setningin verði sem sé, að verðið skuli vera hið sama og nú er í Reykjavík á öllum útsölustöðum á landinu.

2. Að í staðinn fyrir 2. gr., eins og hún er orðuð, komi grein, sem hljóði svo: Verð það, sem ákveðið er með 1. gr., má því aðeins hækka, að verðlagseftirlitið leyfi. — Sem sé, þessu verði sé slegið föstu og það þurfi leyfi verðlagsnefndar til að breyta því.

3. Að 3. gr. orðist svo: Nú álítur verðlagseftirlitið mögulegt að lækka útsöluverð á olíum og benzíni, og skal það þá fyrirskipa olíufélögunum að gera það. — En 4. og 5. gr. séu felldar niður.

Þó vil ég geta þess, — mér hefur ekki unnizt tími til þess enn þá, — að vafalaust er nauðsynlegt, ef þessar brtt. mínar fást samþykktar, að bæta refsiákvæðum inn í staðinn fyrir 4. eða 5. gr., og mundi ég þá gera það við 3. umr., ef þær yrðu samþ.

Mín hugmynd með þessum brtt. er, að Alþ. láti olíuhringana vita, að það treystir sér til og vill ákveða olíuverðið í landinu og segja þeim fyrir verkum. Ég skal taka það fram, að ef einhverjum olíuhringanna dytti í hug að fara ekki að þessu, sem ég veit að engum þeirra dettur í hug, þá þyrfti ekki annað til, en að Alþ. samþ. þá heimild, sem liggur fyrir í frv. frá Sósfl. á öðru þskj. um að heimila ríkisstj. að annast öll olíuinnkaup til landsins.

Ástandið á olíumörkuðunum í heiminum er þannig í dag, að ríkisstj. Íslands getur leikið sér að, ef hún hefur á hendi öll olíuinnkaupin, að hagnýta sér samkeppnina á milli hringanna þannig, bæði þeirra þriggja, sem nú verzla hérna, og annarra, sem til eru úti um heim, að hún gæti lækkað olíuna stórkostlega. Hún getur leikið sér að því, ef hún hefur ein innflutninginn til landsins. Það er það mikil hótun fyrir olíuhringana hérna að taka þeirra tanka leigunámi og láta þá jafnvel standa ónotaða, sem ekki byðu það lágt, þegar þeir væru að bjóða í hjá ríkisstj., að þeir yrðu lægstir. Ríkisstj. hefur alla aðstöðu til þess að kúska olíuhringana, ef hún aðeins hefur vilja til þess. Það er sannarlega ekki erfitt sem stendur í veröldinni að fást við þessi olíumál, ef vilji er fyrir hendi, þannig að ég er ekki í neinum efa um, að þessar till. eru fyllilega framkvæmanlegar. Það er aðeins spurningin um vilja til þess að ganga þannig á hagsmuni hringanna. Ég vil þess vegna eindregið vonast til þess, að hv. þm. geti fallizt á þessar brtt., því að allir hljótum við að vera sammála um það, að langbezt væri að geta komið þeirri nauðsynlegu lækkun á um allt land niður í það verð, sem nú er í Rvík, með því móti, að það yrði gert á kostnað þeirra olíuhringa, sem nú taka gífurlegan gróða af öllum Íslendingum.

Svo vil ég leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessum brtt.