19.01.1953
Neðri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1464 í B-deild Alþingistíðinda. (2149)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram brtt. við þetta frv. á þskj. 467 og skal nú leyfa mér að skýra þær brtt. nokkuð.

Í fyrsta lagi er lagt til, að 1. gr. sé breytt þannig, að söluverð á gasolíu, brennsluolíu, ljósaolíu og benzíni skuli vera hið sama á öllum útsölustöðum úti um land og er á hverjum tíma útsöluverð í Reykjavík. Með því að breyta þessari grein þannig, á að vera tryggt, að útsölustaðirnir úti um land njóti sama verðs fyrir allar þessar olíutegundir elns og er á hverjum tíma útsöluverðið í Reykjavík, og það er samkv. því, sem flm. þessa frv. hafa lýst yfir, höfuðtilgangur með þeirra frv.

Hins vegar vil ég fara nokkuð aðra leið til þess að ná þeirri verðjöfnun, sem með þessari orðun 1. gr. væri ákveðin, heldur en lagt er til í 2., 3. og 4. gr. hjá þeim. Þess vegna legg ég til, að 2 gr., sem í þeirra frv. fjallar um verðjöfnnnargjaldið, breytist þannig, að verðlagseftirlitið skuli á hverjum tíma ákveða útsöluverðið í Reykjavík. Ég vona, að ég þurfi ekki að taka það fram, að þegar svona ákvæði eru sett í lög eða lagafrv., að verðlagseftirlitið skuli ákveða útsöluverðið, þá er ekki gengið út frá því, að verðlagseftirlitið ákveði slíkt út í bláinn. Það er ákveðið, að verðlagseftirlitið byggi á ákveðnum forsendum, ákveðnum rannsóknum á skilríkjum, sem fyrir því liggja, og það er nauðsynlegt, — það vil ég taka fram hér, — að það sé haft þó nokkurt aðhald að verðlagseftirlitinu um ákvörðun útsöluverðs, því að reynslan, eins og ég kom nokkuð inn á við fyrri umr. þessa máls, hefur sýnt okkur, að það hefur áður verið tilhneiging til þess hjá verðlagseftirlitinu, eða verðlagsstjóra, meðan það hét nú svo, að ákveða útsöluverðið á olíutegundum og benzíni óþarflega hátt, m. ö. o. taka of mikið tillit til þeirra reikninga, sem olíufélögin leggja fram. Sýndi ég hér greinilega fram á það með tilvitnunum í bréf, sem liggja fyrir Alþ., og yfirlýsingar frá fjvn., byggðar á yfirlýsingum frá þáverandi forstjóra innkaupastofnunar ríkisins, Finni heitnum Jónssyni, að ríkisinnkaupastofnunin gat fengið olíuna með allt að því 20% lægra verði, en verðlagseftirlitið hafði leyft olíufélögunum að setja á olíuna. M. ö. o.: Samkv. þessari 2. gr., 1. mgr. í henni, mundi verðlagseftirlitið ákveða útsöluverðið í Reykjavík á hverjum tíma, og geng ég þá náttúrlega út frá því, að það byggi á góðum skilríkjum eins og venjulega og meiri gagnrýni, en verið hefur fram að þessu á reikningum olíufélaganna í því sambandi. Enn fremur er þarna tekið fram, að þó megi verð, þegar þessi verðákvörðun fyrst kemur til framkvæmda, ekki hækka frá því, sem það er í Reykjavík við samþykkt þessara laga, þannig að það sé alls enginn möguleiki til þess að breyta frá því, sem nuna er, nema þá til lækkunar.

Svo legg ég til, að 3 gr. sé orðuð þannig, að frjálst sé að flytja til landsins allar þessar olíutegundir og eins efni til geyma fyrir þær og að bankarnir skuli skyldir til að láta gjaldeyri af hendi til greiðslu þeirra. Ég álít, að verðlagseftirlitið og þess starfsemi sé ekki nægilegt til þess að „kontrolera“ olíuhringana og þeirra verðlagsmyndun. Reynslan sýnir, að hvað eftir annað hefur það komið fyrir hér á voru landi, að stjórnarvöld, jafnt ríkisstjórn, sem verðlagsnefndir, hafa lýst því yfir, að olíuverð væri það lágt, að það væri ekki hægt að lækka það, og t. d. þegar benzínskattur var settur á af hálfu Alþ., hafa allar viðkomandi opinberar stofnanir lýst því yfir, að það yrði að hækka benzínið sem þessu svaraði, því að olíufélögin gætu ómögulega borið það. Samt hefur það sýnt sig, að á sama tíma sem þessu hefur verið haldið fram af opinberum stofnunum, þá hefur verið hægt að flytja olíu eða benzín til landsins og selja undir því verði, sem hringarnir hafa sett á, meira að segja við mun lakari tæknileg skilyrði heldur en hringarnir hafa haft. (Gripið fram í.) Hér í Reykjavík fyrst og fremst, alveg rétt, enda fer meiri hlutinn af olíusölunni fram hér í Reykjavík. Það er þess vegna gefið, að það mundi auka möguleikana til að lækka verð á olíu og benzíni á Íslandi, ef það væri tryggt, að frjálst væri að flytja inn til landsins þessar olíutegundir og jafnvel efni til geyma fyrir þær, þannig að hvaða aðilar sem vildu með þetta verzla, hvort það væru samtök útvegsmanna, neytenda eða annarra, gætu á þennan hátt reynt að keppa við þessa stóru og voldugu hringa sjálfir. Nú er vitanlegt, að á undanförnum árum hafa þeir þrír hringar, sem aðallega annast söluna á olíum hér á Íslandi, fengið gjaldeyri til þess að byggja hér bæði stóra geyma sem höfuðgeymslur og benzíntanka úti um allt land og setja of fjár í þessa geyma, þ. e. leggja í frá þjóðhagslegu sjónarmiði að miklu leyti óþarfa fjárfestingu, sem þjóðin síðan er látin borga á 5–10 árum í allt of háu olíuverði. Hefði verið hugsað um þjóðarhag í þessu sambandi og reynt að skipuleggja olíudreifinguna á Íslandi, þannig að það væri sem ódýrast fyrir þjóðina, þá hefði fyrir löngu verið tekin upp sú tillaga, sem oft hefur verið flutt og raunar ríkisstj. að nokkru leyti hefur heimild til eftir gömlum l., að taka upp einkasölu á olíunni. Það hefur hins vegar ekki fengizt fram, enda stefna ríkisstj. ekki verið neitt í þá átt. Fyrst hins vegar það hefur þótt eðlilegt, að þeir þrír hringar, sem nú annast olíudreifinguna og benzíndreifinguna á Íslandi, fengju allir að koma upp miklu af geymum og óþarflega miklu af geymum um allt land, þá er náttúrlega ekkert óeðlilegt, að Íslendingum sé sjálfum gefinn kostur á því að mega, til þess að reyna að keppa við þessa hringa, hafa frjálsan innflutning á olíum. Það er vitanlegt, að olíuhringarnir í heiminum, sem þessir íslenzku hringar eru angi af, eru það sterkir, fjárhagslega það voldugir, að það er ákaflega erfitt við þá að berjast, og svona skilyrði eins og í þessari 3. gr. — eins og ég legg til að orða hana — er þess vegna ekki nema rétt til þess að opna þann möguleika, að fólkið hafi sjálft þó nokkra möguleika til þess að eiga í höggi við þá. Þó vil ég um leið geta þess, að mér er það alveg ljóst, að slíkt er ákaflega miklum erfiðleikum bundið. Þeir geymar, sem olíuhringarnir nú hafa hér á Íslandi, eru það stórir, miðaðir við að geta flutt í 10 þúsund lesta skipum beint frá olíuhöfnunum, framleiðslulöndunum, þannig að tæknilega séð er orðið afskaplega erfitt við þá að keppa, þegar tæknilegir og verzlunarlegir yfirburðir eru þannig mjög miklir. Það þýðir hins vegar, að frá sjónarmiði þeirra, sem væru á einhvern hátt að bera hagsmuni olíuhringanna fyrir brjósti, ætti að vera alveg óhætt að ganga inn á þessa 3. gr., gefa landsbúum þetta litla frelsi, sem þar er farið fram á, Það er hverjum manni, sem eitthvert skynbragð ber á olíuverzlunina, ljóst, að það er ákaflega erfitt að hagnýta það. Yfirburðir allra voldugra auðhringa liggja fyrst og fremst í því, að þeir reka sína verzlun í svo stórum stíl, að þeim hagnýtast þess vegna allar aðstæður allt öðruvísi og betur, en hverjum sem rekur eitthvað í smáum stíl, og það er þetta, sem gerir það fyrir fram ákaflega erfitt fyrir alla þá smáu, sem hefðu kannske löngun til þess hér heima að keppa við þessa hringa, að nota sér meira að segja það litla frelsi, sem þeir nú fengju með þessari 3. gr. En aðhald gæti það samt sem áður orðið, þannig að hringarnir misnotuðu ekki aðstöðu sína, sem þeir hafa vegna sinna miklu fjárhagslegu og tæknilegu yfirburða, eins geipilega og þeir hafa gert undanfarið.

Þá legg ég enn fremur til, að 4. gr. sé breytt, og er það rökrétt áframhald af mínum brtt. við 2. og 3. gr. — 4. gr. legg ég til að sé ákveðin þannig, að ef nú innflytjendur á þessum nefndu olíutegundum selja þær að staðaldri ódýrari í Reykjavík heldur en aðrir, þá skuli verðlagseftirlitið ákveða útsöluverðið á olíum og benzíni um allt land í samræmi við þetta lægsta söluverð. Ég veit, að þessi grein muni máske vera höfuðdeiluatriðið í sambandi við þessar brtt. mínar, og ég skal alveg skýrt og greinilega og hreinskilnislega segja frá, hvað það er, sem ég hef hugsað mér með þessu. Ég hugsa mér það, að það eigi að vera möguleikar fyrir þá, sem nota benzín og olíur hér í Reykjavík, að koma sér upp þó ekki væri nema litlum olíugeymi eða olíugeymum og lítilli benzín- eða olíustöð og selja frá þessum geymum olíur og benzín hér í Reykjavík. Ég set orðin „að staðaldri“ hérna inn í til þess að sýna þá sanngirni gagnvart olíuhringunum, að það sé ekki hægt t. d. að fá einn lítinn farm af þessum olíutegundum og selja hann út hérna innan viku í Reykjavík á mjög lágu verði og síðan yrðu hringarnir að lækka verðið um allt land í samræmi við það. Ég orða þetta svona, þannig að þeir aðilar, sem tækju að sér að flytja inn benzín eða olíur hingað til Reykjavíkur, yrðu að geta að staðaldri fullnægt þeirri eftirspurn, sem hér yrði eftir olíum og benzíni. Ég álit, að þetta ætti að geta verið hægt, og veit ég þó, að það er miklu erfiðara að gera þetta nú en stundum áður. Það er miklu erfiðara vegna þess, að fyrir 15 árum eða svo höfðu olíuhringarnir íslenzku ekki þá aðstöðu, sem þeir hafa núna, að geta flutt í eins stórum skipum beint frá framleiðslulöndum. Ég geng út frá því, að hver sem nú ætlaði að hefja olíuinnflutning hérna, þá mundu ekki vera neinir þeir aðilar til, sem hefðu það mikið fjármagn, að þeir gætu gert meira en að koma upp hér litlum olíugeymi, sem flutt yrði í á litlum olíuskipum frá Englandi eða meginlandinu, þ. e. þeim löndum, sem sjálf flytja til sín frá framleiðslulöndunum, og það þýðir, að verðið á höfnum meginlandsins er þeim mun hærra, en ef það er suður í Suður-Ameríku eða öðrum slíkum stöðum, sem við nú aðallega flytjum frá, eða í Mið-Ameríku, að það er strax erfiðara að keppa. En ég álit, að þeir tæknilegu yfirburðir, sem hringarnir hafa með sínum stóru tönkum hér nú, séu það miklir, að svo framarlega sem einhverjir gætu á þennan hátt flutt olíur eða benzín hingað inn til Reykjavíkur og selt það út hérna að staðaldri ódýrara, en olíuhringarnir selja hér, þá væri það ekki nema sanngirnismál, að olíuhringarnir, vegna þeirrar sérréttindaaðstöðu, sem þeir hafa fengið í krafti sinna stóru tanka og síns gífurlega dreifingarkerfis, væru skyldaðir til að selja olíuna á sama verði úti um allt land. Ég álít, að það yrði þeim engan veginn ofvaxið, og ég álít þess vegna, að þessi 4. gr., eins og ég hef orðað hana, mundi opna möguleika fyrir jafnt t. d. bílstjórana hér í Reykjavík, útgerðarmennina, togaraeigendurna eða þá, sem nota olíu til kyndingar í húsum, til að skapa sér með samtökum nokkurn hemil á verðlagningu olíuhringanna. Og mér finnst, að þeim, sem trúa á frjálsa samkeppni, og þeim, sem prédika mest frjálsa verzlun, ætti nú að þykja óhætt að lofa fjármagnslitlum aðilum í Reykjavík að skapa sér samtök eða að reyna á annan hátt að skipuleggja þannig olíudreifinguna í Reykjavík, að hún gæti orðið nokkur hemill á verðlagsákvarðanir olíuhringanna.

Þess vegna álít ég, að þessi grein mundi þýða það, að þeir aðilar úti um land, sem núna þurfa endilega á því að halda og eiga á því sanngirniskröfu, að verð sé lækkað hjá þeim, mundu með því að opna þessa möguleika viðvíkjandi innflutningnum í Reykjavík vera að vinna að hagsmunum sjálfra sín með því. Ég hef þarna bundið þetta við Reykjavík. Ég skal að vísu játa, að þetta gæti auðvitað eins komið til greina með ýmsa bæi úti um land, og það má vel vera, að einhverjir hv. þm. vildu þarna ganga lengra en ég og leggja til, að jafnvel einhverjir aðrir staðir á landinu yrðu látnir fá þennan rétt til þess að ákveða þannig verðlagið. Ég hef nú ekki viljað ganga svo djarft til verks. Hins vegar, eins og segir í 3. gr. eftir minni tillögu, er öllum stöðum á landinu frjálst sjálfum að flytja inn. Það, að ég tel Reykjavík þarna, er af því, að ég veit, að það mundu vera mestir möguleikarnir til þess að skapa raunverulega samkeppni við hringana á þeim stað.

Ég álit þess vegna, að með þessu móti mundi þeim tilgangi, sem fyrir flm. vakir, verða fullnægt, sem sé með þessu tvennu móti, sem segir í 2.–4. gr. eins og ég legg til, að þær verði orðaðar: annars vegar með aðstoð ríkisvaldsins í gegnum verðlagseftirlitið, hins vegar með frjálsri verzlun á olíu og þeirri ákvörðun, að útsöluverð, sem að staðaldri er í Reykjavík það lægsta, skuli aftur sjálfkrafa verða hið lægsta útsöluverð úti um land. Ég held, að það væri betur búið um hagsmuni fólks úti á landi með þessum tveim aðferðum til verðlækkunar á olíunni og benzíninu heldur en með því verðjöfnunargjaldi, sem lagt er til að leggja á með frv.

Í 5. og 6. gr. er ákveðið, hvernig skuli fara með brot gegn ákvæðum þessara laga og að brot á verðlagsákvæðum gagnvart þeim skuli sæta sömu viðurlögum og brot gegn l. um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm.

Ég veit, að sérstaklega hv. þm. Framsfl. muna eftir því, að l. um verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdóm voru ein höfuðlögin, sem sett voru á þinginu 1949 eftir kosningarnar og áttu þá að vera kosningasigursmál Framsfl., eftir að hann hafði háð mikla kosningarbaráttu fyrir því, að kaupendur og notendur í landinu hefðu meiri rétt, en áður til vörukaupanna. Það voru að vísu upprunalega í frv. Framsfl. ákaflega hörð viðurlög við brotum á l. um verðlag, m. a. svipting á atvinnuréttindum og öðru slíku, og verðlagsdómstóllinn átti að vera afskaplega harðvítugur eftir þeim till., sem form. Framsfl. bar fram í Ed. Það var nú dálítið úr þessu sniðið, og mér sýnist nú á þeim stærsta dómi, sem enn þá hefur fallið hjá verðlagsdómi, að þá hafi lítið verið notað af þeim hörðu heimildum, sem Framsfl. lagði til að þar væri beitt, en það eru máske sérstakar ástæður fyrir hendi til þess.

Þetta er um þessar brtt. mínar við þetta frv., og ég held, að með þeim mundi vera náð — jafnvel betur en með frv. sjálfu — tilganginum, sem fyrir hv. flm. þessa frv. vakir.

Þá er komið að aðalatriðinu í sambandi við þetta, sem ég veit að hv. flm. frv. og fylgjendur þess munu spyrja mig að: Er þetta hægt? Er hægt að ætla olíuhringunum, að þeirra verzlun geti borið það, að verðið sé lækkað frá því, sem nú er, og síðan miðað við útsöluverð í Reykjavík? Er það hugsanlegt, að olíuhringarnir geti borið það tvennt: í fyrsta lagi, að verðið úti um allt land á olíum og benzíni sé núna lækkað niður í verðið í Reykjavík, eins og það er nú, og í öðru lagi, að verðið í Reykjavík og þar með úti um allt land þar á eftir yrði lækkað, svo framarlega sem hægt væri að hafa samkeppni og selja með lægra verði hér í Reykjavík heldur en olíuhringarnir gera að staðaldri? Þegar við eigum að svara þeirri spurningu, hvort það sé hægt að ætla olíuhringunum að bera þetta, þá komum við alltaf að þessari sömu athugun aftur og aftur: Hafa olíuhringarnir það mikinn gróða, að það sé hægt að skella þessu á þeirra breiða bak? — Ég hef áður — og ætla ekki að endurtaka það — skýrt frá þeim einu yfirlýsingum, sem fyrir Alþingi liggja um verðlagningu olíuhringanna, þegar m. a. hráolían var seld út á 650 kr. eða eitthvað þar um kring tonnið með leyfi verðlagseftirlitsins, en innkaupastofnun ríkisins gat fengið hana fyrir 520 eða 530 krónur, svo að það var 120 króna munur. Það var sem sé hægt að fá hana 20% undir því verði, sem olíuhringarnir höfðu getað sannfært verðlagsnefndina um að væri eðlilegt útsöluverð fyrir þá. Það má af því sjá, að það er ekki sérstaklega mikið að marka það verð, sem olíuhringarnir gefa upp til verðlagseftirlits, jafnvel til nefnda hér í þinginu. Staðreyndirnar liggja þarna fyrir, að þeir hafa getað selt 20% undir því verði, sem þeir hafa gefið upp sem nauðsynlegt útsöluverð, og það hafa þeir vafalaust ekki gert sér í óhag; þeir hafa ekki gert það þannig, að þeir hafi tapað á þessari olíu. Ég álít þess vegna, að af sölu olíuhringanna hér á Íslandi sé vel hægt að ganga út frá því, að þeir mundu sjálfir, þ. e. íslenzku olíuhringarnir, þola lækkun, sem væri þannig raunverulega um 20%. Nú er ég því miður ekki nægilega kunnugur hlutfallinu á milli sölunnar hér í Reykjavík og nágrenni annars vegar og úti um land hins vegar til þess að þora að segja, hverju þarna mundi muna, hvað það mundi þýða mikið fyrir olíuhringana að verða að lækka verðið úti um land, til þess að það yrði sama eins og er í Reykjavík. En ég verð þó að álíta, að það sé nokkuð stórt, sem olíuhringarnir hafa upp á að hlaupa í þessu sambandi.

Það liggja ekki fyrir tölur um, hvað öll sala á olíu á Íslandi er í útsöluverði til notenda, og ég þori ekki að slengja á það neinni tölu nema sem hreinni ágizkun. Ef maður talar um t. d. 250 eða 300 millj., þá er það hrein ágizkun hjá mér, aðeins til þess að hafa einhverjar tölur til þess að geta reiknað með. En gizki maður á, að af útsöluverði á öllu þessu, sem væri máske t. d. 300 millj. kr., væri 20% ágóði, þá þýðir það um 60 millj. kr., sem olíuhringarnir hefðu upp á að hlaupa. En ef þetta væru 250 millj. og það væru 20%, þá væri það samsvarandi minna. Ég held nú, að það væri engu spillt, þó að sú tilraun væri gerð að láta olíuhringana horfa fram á það að gera svo vel að selja úti um allt land olíu og benzín á sama útsöluverði og í Reykjavík og sjá, hvað þeir segja. Að vísu veit ég, að það gæti verið nauðsynlegt að hressa upp á þær heimildir, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú þegar að nokkru leyti, enda lögin frá 1943 gömul lög, sem sett voru af utanþingsstj. þá. Ég held, að þau séu enn þá í gildi nema síðasta greinin í þeim um leigunámið á olíugeymunum. Það væri þó hægt að hressa þann part við, sem féll úr gildi, þannig að ríkisstj. hefði heimild til þess að taka leigunámi eignir olíuhringanna hér á Íslandi, — olíuhringarnir stæðu frammi fyrir því, að ríkisstj. mundi þá flytja inn olíu sjálf og benzín og selja það í þeirra tönkum, svo framarlega sem þeir neituðu að lækka verðið úti um allt land niður í sama verð og er í Reykjavík. Ég þykist vita, að það mundi vera hollt, að ríkisstj. hefði slíkt vopn í hendinni, þegar hún væri að tala við olíuhringana, en ég þykist líka alveg vita, að það væri nóg að hafa slíkt vopn í hendinni, það þyrfti aldrei að beita því gagnvart þeim.

Svo er hitt, að þótt með svona verðlagsákvæðum væri gengið alllangt gagnvart íslenzku olíufélögunum og þeim möguleikum, sem þau hafa til gróða, þá vil ég taka það fram, að ég efast nú um, að öll sú lækkun á olíum og benzíni, sem knúin yrði fram með svona ráðstöfunum, mundi skella á íslenzku olíufélögunum einvörðungu; þar með á ég við umboðsfélög þeirra stóru útlendu olíuhringa hér heima. Ég efast ekki um, að þegar svona verðlækkun kæmi nokkuð jafnt við öll olíufélögin hér heima, þá mundi það raunverulega þýða, að þau mundu knýja fram lægra verð á olíunni í innkaupi. Olían, sem flutt var til Íslands á síðasta ári, kostaði 150 millj. kr. komin hér í höfn. Það er fimmti eða sjötti parturinn — held ég — af öllum innflutningi Íslands, m. ö. o. langsamlega stærsti liðurinn í öllum okkar innflutningi. Við greiðum í erlendum gjaldeyri 150 millj. kr. fyrir olíutegundirnar sem við flytjum hingað, og það vil ég alveg fullyrða, að ekki sé undir 20–25% af þessum 150 millj. hreinn gróði fyrir hina útlendu olíuhringa, og það getur hver maður kynnt sér, sem les núna skýrslurnar um viðureign persnesku ríkisstj. við Anglo-lranian Oil Company, þar sem kemur fram, hvaða verð það er, sem Anglo-Iranian hefur greitt undanfarið fyrir olíuna þar, og þar sem líka kemur fram, hver gróðinn hefur verið á undanförnum árum, sem Anglo-Iranian hefur fengið, og ég veit, að það félag er samt ekki það voldugasta; Standard Oil og félögin, sem eiga olíulindirnar í Venezuela og á öðrum þeim stöðum, sem við fáum olíuna frá, hafa ekki grætt minna. Hins vegar er mér alveg ljóst, að til þess að draga eitthvað úr 30–40 millj. kr. gróða, sem útlendir olíuhringar taka af okkur á hverju ári núna í of háu olíuverði, þá þarf mjög harðvítugar aðgerðir af hálfu Íslendinga. Ég veit, að þær litlu till., sem ég geri um frelsi fyrir Íslendinga almennt til þess að mega flytja inn olíu, eru rétt eins og að fá Íslendingi lítinn korða í hendurnar til þess að berjast við stórveldi í fjármálaheiminum, sem beita fallbyssum og hverju öðru sem er. Það er rétt til þess að gera menn ekki algerlega varnarlausa hérna heima — rétt til þess að þeir séu þó ekki reyrðir í bönd og afhentir olíuhringunum til ævarandi eignar og ábúðar. Ég veit, að til þess að ná einhverju ofur litlu — þið hafið stundum kvartað um gjaldeyrisskort hérna — af þeim 30 millj. kr., sem útlendu olíuhringarnir núna taka af okkur fyrir utan það, sem þeir íslenzku græða, þá þarf, ef vel á að vera, að beita íslenzka ríkisvaldinu gagnvart þeim, láta þá standa frammi fyrir því, að svo framarlega sem þeir ætli að rísa upp á móti þeim ákvörðunum, sem íslenzka ríkið gerir um verðlag á olíum, þá sé íslenzka ríkið reiðubúið til þess að kaupa sínar olíur annars staðar. Og ég veit, að þeim mönnum, sem þekkja þessa hluti, er kunnugt um það, að olía er boðin út á verði, sem er langt fyrir neðan það verð, sem olíuhringar, sem selja hér heima, selja á.

Það var nýlega upplýst af hálfu Bandaríkjastj., hvers konar samtök þessir olíuhringar hafa sín á milli um að okra á almenningi í heiminum. Það var nú frekar lítið gert úr því hér í þeim stjórnarblöðum, sem annars gera mikið með það, sem Bandaríkjastj. gerir. Það var frekar lítið gert með þessa málshöfðun Trumans forseta gegn olíuhringunum. En það var hins vegar mjög ljóst, hve ósvífinn gróðinn var, og það hefði raunar ekki heldur komið neitt við hjartað í Bandaríkjastjórn, þó að þessir olíuhringar þar í landi græddu eitthvað á almenningi og íbúum annarra landa, en það kom eitthvað við pyngjuna, þegar Bandaríkjastj. varð sjálf í gegnum Marshallaðstoðina að greiða óþarflega hátt okurverð fyrir olíuna til þessara hringa. Nú er auðvitað búið að afturkalla þessa málshöfðun, því að nú eru kosningarnar liðnar hjá í Bandaríkjunum. Ég veit ekki með málaferlin hér heima, hvort þau verða líka afturkölluð eftir kosningarnar og að það verði eitt í því, sem stjórnarflokkarnir munu semja um eftir kosningar, en a. m. k. það sem af er liggja þó fyrir nokkrar upplýsingar um, að meira að segja olíufélögin hér heima láta sér ekki nægja þann allmikla svo kallaða löglega gróða, sem þau fá, heldur seilast líka stundum eftir ólöglegum. En alvarlegasta málið í þessu öllu saman er, að þessir olíuhringar eru ekki aðeins mikið fjárhagsvald í okkar þjóðfélagi, voldugasti innflutningsaðilinn á Íslandi, heldur líka voldugasta stjórnmálaaflið í báðum stjórnarflokkunum, og það er það, sem gerir það erfitt að fá í gegn hér á Alþ. till., sem annars mættu virðast svo sjálfsagðar sem nokkrar till. væru, eins og þær, sem ég legg hér fram á þskj. 467.

Það er sannarlega ekki til mikils mælzt, að verðlagseftirlit ætti að ákveða útsöluverð á olíum, eins og verðlagseftirlit hefur gert það langan tíma á öðrum tegundum vara hér á Íslandi, og það er ekki heldur til mikils mælzt, að við þessa voldugu hringa, sem ræna okkur tugum milljóna króna á hverju ári, hefðu landsmenn þó það takmarkaða frelsi til þess að berjast við þá, sem þeir fengju með því að verða að flytja inn olíu með miklu lakari tæknilegum skilyrðum heldur en olíuhringarnir hafa. En ég er hræddur um, að sterkari en allir fjárhagslegir og tæknilegir yfirburðir olíuhringanna í viðureign þeirra við Íslendinga verði þeirra ægishjálmur yfir stjórnarflokkunum á Alþingi, verði þeirra ítök í stjórnarflokkunum á Alþingi. Mér hefur þótt það hart, að við þetta mál, sem hér hefur verið rætt, skuli það ekki hafa fengizt rætt af alvöru, hvort hringar, sem selja veigamestu vöruna, sem flutt er til Íslands, hringar, sem selja fimmtunginn af öllu, sem flutt er til Íslands af öllum vörum, taki óheyrilegan gróða á þessu eða ekki.

Ég álít, að í þessu máli eigi fulltrúar dreifbýlisins úti um land og alþýðan í Rvík að standa saman á móti olíuhringunum til þess að bæta kjör beggja þessara aðila á kostnað olíuhringanna, bæta fyrst og fremst kjör þeirra, sem búa í dreifbýlinu úti um land, — og þegar ég tala um dreifbýli, á ég við bæina úti á landi líka — þannig að fyrst sé lækkað verðið á olíum og benzíni úti um allt land niður í það verð, sem nú er í Rvík, síðan sé gefið það frelsi, sem 3. og 4. gr. fjalla um, til þess að Reykvíkingar geti fengið rétt til þess að berjast fyrir því að lækka olíuna og benzínið enn frekar, og þá skuli fólkið úti um allt land njóta þeirrar lækkunar. Ég álít það vera hörmulegt, þar sem á borðinu liggur hjá útlendum og innlendum olíuhringum 50–60 millj. kr. gróði á ári, ef fólkið úti um land og fólkið í Rvík getur ekki komið sér saman um að létta þungum byrðum fyrst og fremst af fólkinu úti á landi á kostnað olíuhringanna. Og enn hefur ekki verið komið fram með nein rök, sem sýndu fram á, að þær till., sem ég hér hef flutt og að sumu leyti eru svipaðar þeim, sem ég var með við 2. umr., en að öðru leyti ekki, séu ekki raunhæfar. Það hefur enginn treyst sér til þess að halda því fram, að olíuhringarnir gætu ekki borið þessar byrðar, sem lagt er til af minni hálfu að taka af herðum fólksins úti á landi og leggja á herðar ríkasta og gróðafíknasta hlutans af auðvaldi heimsins.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hv. þm. geti samþ. till. mínar og fengið þannig þá lausn á þessu máli, sem tvímælalaust verður affarasælust, bæði fyrir fólkið úti um land og fyrst og fremst fyrir það, en síðan, ef vel tækist til, líka fyrir Reykvíkinga, þó þannig, að fólkið úti um land nyti þess þá einnig.