19.01.1953
Neðri deild: 52. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1482 í B-deild Alþingistíðinda. (2155)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Jón Gíslason:

Herra forseti. Það er nú þegar allmikið farið að ræða þetta mál, og hafa komið fram við það nokkrar brtt. Hv. 2. þm. Reykv. flytur brtt., sem eru það víðtækar, að þær blátt áfram umbreyta frv. að mestu eða öllu leyti. Einnig hefur hv. þm. Siglf. flutt brtt., sem gengur í sömu átt og einn liður af brtt. hv. 2. þm. Reykv., sem er það, að útsöluverð á olíu og benzíni, sem sagt jöfnunarverð, skuli ákveðast það sama og nú er í Reykjavík, eða m. ö. o. að hvergi megi selja benzínið eða olíuna á hærra verði. Það kann að vera, að það væri gott að geta fært verðið á þessum vörum þannig niður, en einn agnúi er á því, og hann er sá, að ef það væri bundið fast, að ekki mætti hækka neitt verð á þessum vörum í Reykjavík, þá yrði það þannig, að olíufélögin, sem selja þessar vörur og annast dreifingu á þeim út um landið, mundu telja það, og í raun réttri væri það svo, að þau hefðu ekkert fyrir flutningskostnaði á þessum vörum og dreifingarkostnaði. Ég sé ekki annað en þetta hlyti að verða til þess, að þau 3 aðalfélög, sem hafa þessa sölu og dreifingu á hendi, mundu bítast um það og öll vilja gera sem minnst að því að flytja þessar vörur út á land og selja þær þar, og mundi jafnvel leiða til þess, að á þessum vörum gæti orðið hörgull úti um landið. Það liggur í augum uppi, ef selt er á sama verði, án þess að verðjöfnun fari fram fyrir flutningskostnaðinum, að þá er það mestur hagur fyrir þau félögin, sem selja alla sína olíu eða mest af sinni olíu og benzíni á staðnum hér í Reykjavík, en óhagur fyrir þau, sem gera mikið að því að flytja vöruna út um landið. Af þessum ástæðum sé ég ekki, að það sé hægt fyrir þá, sem vilja sanngjörnum augum líta á þetta mál, að samþ. brtt. hv. þm. Siglf., og ég legg það eindregið til, að hún verði felld.

Brtt. hv. 2. þm. Reykv. ganga miklu víðara í þessu máli, og er nú þegar búið að taka þær til athugunar bæði af hæstv. viðskmrh. og hv. 1. þm. Árn. Hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan í ræðustólnum, að menn mundu líklega spyrja sem svo, hvort hægt væri að framkvæma verðjöfnun á þann hátt, sem till. hans leggja til. Ég er nú satt að segja ekkert hissa á, þó að honum dytti í hug, að þessi spurning kæmi fram, því að mér fannst meira að segja á honum sjálfum, að hann teldi varla, að hún mundi verða, eins og nú standa sakir, framkvæmanleg á þennan hátt. Ég get sagt það fyrir mig, að ég tel, að það muni ekki vera kleift að framkvæma verðjöfnun á þann hátt, sem till. hv. 2. þm. Reykv. fara fram á, og ef þær yrðu samþ., sem ég vona að verði ekki, hér í hv. d., þá teldi ég, að þær yrðu til þess að setja þetta mál úr sögunni, sem er þó mikið sanngirnis- og nauðsynjamál.

Minni hl. allshn. hefur allmikið dregið það að skila sínu áliti. Hv. 1. þm. Árn. minntist nokkuð á það, að þeir hefðu sennilega verið að biða eftir hentugu tækifæri, eftir því sem þeir orða sína dagskrá, og get ég vel tekið undir það. En þegar loksins nál. hv. minni hl. kemur, þá er það alllangt mál, en ég get ekki séð, að þar sé komið með svo mikil rök fram á móti áliti meiri hl., að það hefði þurft að taka hv. minni hl. langan tíma að semja það. Ég held, að þeir hefðu getað sett sitt nál., þótt alllangt sé hér, yfirleitt í eina setningu og bara þá: Við viljum, að Reykjavík og nágrenni hafi betri kjör til atvinnurekstrar á þessum sviðum, en dreifbýlið úti um land.

Fyrst tekur hv. minni hl. í nál. til meðferðar benzínið, sem hann virðist leggja minni áherzlu á, þrátt fyrir það þótt benzínið sé nákvæmlega jafnmikilsverð framleiðsluvara fyrir landbúnaðinn og þá, sem í dreifbýlinu búa, eins og olían er fyrir þá, sem sjávarútveginn stunda. Í niðurlagi grg. sinnar um benzínið segja þeir, að þetta frv. um verðjöfnunina á benzíninu, sem hér er til umr., ef það yrði að l., mundi leiða af sér almenna hækkun á útsöluverði á benzíni. Það er líklegt og vitanlegt, að það mundi leiða af sér einhverja örlitla hækkun á benzíni hér í Reykjavík, en það mundi líka úti um landið, þar sem lengstir eru flutningar, leiða af sér hlutfallslega mun meiri lækkun. En ég veit ekki, hvað þeir kalla almenning hér í þessu landi eða almenn sjónarmið. Það virðist bera alveg að sama brunninum og ég gat um áðan, að almenning í þessu landi telji þeir vera í Reykjavík og aðeins í Reykjavík og nágrenni.

Þá ræða þeir allmikið um útgerðina og telja, að útgerð við Faxaflóa mundu verða lagðir allt of þungir baggar á herðar með verðjöfnunargjaldi á olíu. Þetta hefur verið tekið til athugunar hér nú í hv. d., bæði af hv. þm. Siglf. og hv. 1. þm. Árn., og hafa þeir sýnt fram á það með rökum, sem ég vil líka taka undir, að ef það á að binda útgerðinni hér við Faxaflóa ókljúfanlega bagga að taka á sig einhverja verðjöfnun á þessum vörum, þá er sannarlega ástæða til þess að ætla, að útgerð úti á landi sé óframkvæmanleg undir þeim kringumstæðum, sem nú eru með verðlagningu þessara vara. Enn fremur bendir hv. minni hl. á það, að heppilegra mundi vera að greiða beinlínis úr ríkissjóði til togara utan Faxaflóa einhverja lækkun á olíunni heldur en gera verðjöfnun á þann hátt, sem hér er um rætt. Þetta ber enn þá að sama brunninum, að leggja þá bagga á ríkissjóð, sem að öllu sanngjörnu og með sambærilegri aðstöðu ættu að hvíla á atvinnuvegunum í heild.

Þá minntist hv. 5. þm. Reykv. á það hér í framsöguræðu fyrir minni hl., — mér þykir slæmt, að hann er hér ekki, — og fór þar að gefa góð ráð til að jafna hlut dreifbýlisins í benzínmálum við þá, sem búa hér nálægt Reykjavík, og ráðið var að fá endurgreiddan benzínskattinn af þeim bílum, sem flutninga stunda á langleiðum. Í því sambandi vil ég minna hv. 5. þm. Reykv. á það, að á þingi 1949, þegar benzínskattur var síðast hækkaður með breyt. á bifreiðaskattsl., þá flutti ég ásamt hv. þm. V-Húnv. brtt., sem fór fram á það að endurgreiða bílum, sem stunda flutninga á langleiðum, 10 aura af benzínskattinum, þó aldrei svo mikið, að þeir fengju ódýrara benzín en þar, sem það væri selt með lægstu verði, t. d. í Reykjavík. Þessi till. var felld hér í hv. d. með 18 atkv. gegn 11, og ég er ákaflega hræddur um, að hv. 5. þm. Reykv. hafi verið einn af þessum 18, sem þá voru á móti þessari tillögu. Það er náttúrlega gott, ef hann hefur allt í einu breytt um skoðun á því máli. En í þetta skipti reyndist ógerningur að fá því komið hér í kring í d., að aðstöðumunur framleiðendanna yrði jafnaður á þennan hátt, og ég er mjög hræddur um, að enn þá hefði farið svo, hefði málið verið flutt á þeim grundveili nú, að aðstöðumunurinn yrði jafnaður með því móti, og þá hefði hv. 5. þm. Reykv. orðið á móti þeirri leið, þrátt fyrir það að hann virtist nú hafa áhuga á að benda mér á þessa leið og lét líka í það skína, að hann væri líklegur til stuðnings við hana.

Það er nokkuð mikið búið að ræða þetta mál, og ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þær umr. mjög mikið, enda sé ég, að það er komið að lokum fundartímans og einhverjir eru víst eftir á mælendaskrá, en það er till. mín, og ég vonast til þess, að hv. þdm. verði líka þeirrar skoðunar, að þær brtt., sem eru nú komnar fram við frv., beri að fella og samþ. það eins og það var afgr. í þessari hv. d. við 2. umr. Ég held, að allir séu jafnvel sammála um það, að þetta sé sanngirnismál, sem sjálfsagt sé að framkvæma, og ég held jafnvel, að það gangi svo langt, að þeir, sem eru með veikum mætti að mæla á móti frv., viðurkenni það líka.