29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1504 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Eins og nál. bera með sér, þá er n. öll í minni hl. um þetta mál, hefur þríklofnað, og þó að ég hafi ekki getað orðið samferða þeim minni hl., sem þegar hefur verið flutt framsaga fyrir, þá er það ekki af því, að ég sé honum ekki sammála um það atriði, sem reyndar er kannske meginefni málsins, að sanngjarnt sé, að þær vörur, sem hér er um að ræða, þ. e. a. s. brennsluolíur og benzín, séu seldar á sama verði sem víðast eða jafnvel kannske alls staðar á landinu.

Eins og hv. dm. vafalaust muna, þá flutti ég hér fyrr á þinginu frv. um það, að ríkið eða ríkisstj. f. h. þess gerðist þátttakandi í innflutningi á þessum vörum til landsins með það fyrir augum að gefa landsmönnum yfirleitt kost á því að fá þessar nauðsynjavörur fyrir lægra verð, heldur en nú er á þeim. Og ég þóttist þá færa fram allsterk rök fyrir því, að verðlagið á þessum vörum hér væri allmiklu hærra, en nauðsyn bæri til, ef innflutningur þeirra og verzlun með þær væri miðað við þarfir neytendanna, en ekki eins og nú er gert við gróðasjónarmið þeirra aðila, sem þessa verzlun annast, þ. e. olíufélaganna.

Í samræmi við þessa skoðun mína, sem gleggst kom fram í sambandi við flutning þessa frv., sem ég nú nefndi, lít ég svo á, að þá verðjöfnun, sem farið er fram á með þessu frv., sé hægt að framkvæma á kostnað olíufélaganna, sem nú annast innflutning og sölu á þessum vörum, vegna þess að álagning þeirra sé það mikil, að þau geti hæglega tekið á sig þá byrði, sem af því mundi leiða fyrir þau að verðjafna þessar vörur, án þess að hækka útsöluverðið, þar sem það er lægst, þ. e. hér í Reykjavík og hér við Faxaflóa, þ. e. þeim stöðum, sem næstir eru aðalbirgðastöðinni, sem olíunni síðan er dreift frá út um landið. Nú hefur mikið verið um þetta deilt í sambandi við þetta frv. í hv. Nd. og þar verið fluttar till. um að framkvæma þessa verðjöfnun á kostnað olíufélaganna. En fyrir því hefur ekki fengizt nægilegur þingvilji. Og reynslan hefur orðið sú sama við afgreiðslu hv. allshn. þessarar d. á frv., að hún hefur ekki viljað fallast á þetta sjónarmið, og það er fyrst og fremst það, sem greinir á milli mín og 1. minni hl. n., eins og ég gat um þegar í upphafi.

Nú hef ég viljað reyna, þó að það fengist nú raunar lítið tækifæri til þess að ræða um það á nefndarfundi, eins konar milliveg í þessu efni, þannig að verðjöfnunin yrði framkvæmd án þess að hækka útsöluverðið á þessum vörum hér í Reykjavík eða á öðrum þeim stöðum, þar sem það er lægst, og að þetta yrði að sumu leyti gert á kostnað olíufélaganna, þ. e. a. s. að því leyti, að þau tækju á sig verðjöfnunargjaldið vegna olíusölunnar, þ. e. sölu á brennsluolíu og gasolíu og slíkum olíum, en að ríkissjóður tæki hins vegar á sig að greiða verðjöfnunargjaldið af seldu benzíni. Með þessu væri létt nokkrum hluta verðjöfnunargjaldsins af olíufélögunum, sem ég held þó að gætu hæglega staðið undir því öllu, en hins vegar komið í veg fyrir það, að þeir notendur olíu og benzíns, sem hafa fengið það við vægustu verði, þurfi að greiða það hærra verði eftir en áður. Ég held, að það sé tiltölulega auðvelt að færa frambærileg rök fyrir því, að ekki sé óeðlilegt, þó að ríkið taki á þennan hátt þátt í því að gefa mönnum úti um land kost á því að fá þessar vörur ódýrari, en verið hefur hingað til, án þess að menn hér á Suðvesturlandi þyrftu þess vegna að greiða þær hærra verði. Ég held, að það sé tiltölulega auðvelt að færa frambærileg rök fyrir þessu, vegna þess að mjög verulegur hluti af verði benzínsins er til orðinn einmitt fyrir tolla og skatta, sem ríkissjóður tekur af þessari vöru og það í stærri stíl, heldur en líklega af nokkurri annarri vöru, sem flutt er til landsins, e. t. v. að undantekinni einhverri lúxusvöru, ég skal ekki fullyrða um það, og þó dreg ég það í efa, en a. m. k. tekur ríkið í þessu tilfelli svo ríflegan hlut af benzínverðinu, að það er hægt að færa mjög frambærileg rök fyrir því, að það ætti að taka á sig þá tiltölulega litlu byrði, sem af því mundi leiða að greiða verðjöfnunargjaldið af því samkvæmt þessu frv.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. sé að vísu um það kunnugt, hversu mikið þetta er. Þó er ég ekki alveg viss um, að þeir hafi lagt það niður fyrir sér, því að þessar hækkanir hafa verið gerðar stig af stigi og kannske án þess, að menn hafi lagt það mjög nákvæmlega niður fyrir sér, hvað þetta væri orðið mikið, þegar síðasta hækkunin var gerð, en það er hvorki meira né minna en það, að sennilega á milli 40 og 50% af útsöluverði á benzíni hér í Reykjavík er beinlínis vegna tolla, sem á benzínið eru lagðir. Hið svo kallaða sérstaka innflutningsgjald af benzíni nemur 31 eyri á lítra. Síðan er vörumagnstollurinn 20 aurar á lítra, þannig að þar er kominn 51 eyrir. Það, sem við bætist síðan, verðtollinn og söluskattinn, get ég ekki reiknað út nákvæmlega upp á eyri, vegna þess að til þess þyrfti ég að hafa gögn í höndum, sem ég hef ekki, en ég þori að fullyrða, að þetta hvort tveggja er eitthvað yfir 20 aura á lítra, a. m. k. ekki undir 20 aurum, þannig að með þessu móti eru það a. m. k. 70 aurar og sennilega eitthvað nokkuð yfir 70 aurar á lítra, sem ríkissjóður tekur beint af benzínverðinu í innflutningsgjöldum og söluskatti.

Nú reikna olíufélögin með því í þeim umsögnum, sem þau hafa sent um þetta frv., að ef verðjöfnun yrði framkvæmd á benzíninu, þá mundi útsöluverð hér þurfa að hækka um 4½ eyri á lítra. Ég held, að það sé nú óhætt að slá því föstu, að bæði þessi áætlun og aðrir útreikningar, sem olíufél. gera um þetta, gangi nú a. m. k. fremur of langt, en of skammt í því að sýna, hversu verðjöfnunargjaldið þyrfti að vera mikið. Það gera olíufélögin vegna þess, að þau eru á móti frv. og vilja ekki fá þessa verðjöfnun fram. En jafnvel þó að reiknað væri með því, að ríkið þyrfti að greiða 4–4½ eyri á lítra í verðjöfnunargjald, þá mundi það samt sem áður ekki nema nema um það bil sextánda hlutanum af þeim tollum, sem ríkið tekur af benzíninu, og ég held, að það sé ekki hægt að segja, að í því fælist nein ósanngirni, þó að ríkið gæfi eftir um það bil sextánda hluta af tollunum á benzíninu til þess að greiða þetta verðjöfnunargjald og stuðla þannig að því, að sá mikli fjöldi manna, sem þarf að nota þessa vöru úti um allt land, gæti fengið hana á sama verði eins og hér í Reykjavík, án þess að aukagjald yrði af þeim sökum lagt á benzínkaupendurna hér.

Eins og ég hef áður rætt um, bæði drepið á hér og þó sérstaklega rætt um í sambandi við frv., sem ég flutti hér áður, þá held ég, að olíufélögunum yrði síður en svo ofþyngt með því, þó að þau yrðu látin borga verðjöfnunargjaldið af brennsluolíunum, og teldi ég þá, að í raun og veru ættu allir aðilar að geta sætzt á þá lausn málsins. A. m. k. þykir mér dálítið undarlegt, ef þeir mörgu, — ég held, að það séu 8 flm. að þessu frv., — ef þeir stuðningsmenn stjórnarinnar og aðrir stuðningsmenn hennar, sem þykjast með þessu frv. vera að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna úti um land, geta ekki fallizt á slíka lausn sem þessa, og ef þeim væri einhver veruleg alvara með þetta mál, að þeir gætu þá ekki líka náð um það samkomulagi innan stjórnarflokkanna og við þá ríkisstjórn, sem þeir styðja, að leysa málið á þennan hátt, fremur en að demba þeim kostnaði, sem af þessu verður, á neytendurna hér í Reykjavík. Ég held, að ef einhver virkileg alvara væri hjá þeim í þessu efni, þá gætu þeir komið þessu fram og hægt væri að leysa málið á þennan hátt.

Þetta segi ég fyrst og fremst til 1. minni hl. allshn., sem leggur til, að þetta frv. verði samþykkt óbreytt eins og það var flutt.

Viðvíkjandi afstöðu 3. minni hl., sem birtir hér nál. á þskj. 638 og leggur til að vísa málinu frá, þá tel ég nú í raun og veru ekki sterk rök, sem fyrir því liggja. Hann vísar til þess, að ef frv. væri samþykkt óbreytt, þá mundi felast í því röskun á þeim samningi, sem gerður var til lausnar verkfallinu nú fyrir jólin. Að vísu mætti kannske segja það, ef þetta er framkvæmt á þann hátt, sem frv. nú felur í sér og 1. minni hl. vill láta standa óbreytt. En 3. minni hl. hefði getað komizt fram hjá þessum agnúa með því að fallast á sjónarmið mitt: annaðhvort að láta olíufélögin ein bera kostnaðinn af þessu eða þá að skipta honum á milli olíufélaganna og ríkissjóðsins. Og í áliti 3. minni hl. kemur einmitt fram sú sama hugsun, sem felst í þessari lausn minni, t. d. varðandi verðjöfnunargjaldið á benzíninu, þar sem þeir taka beinlínis fram, eins og hér stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Að sjálfsögðu ber að stuðla að því að halda niðri verði á benzíni og olíu svo sem frekast eru tök á og létta undir með þeim, sem við dýrastan flutningskostnað eiga að búa“ — og bæta síðan við: „Slíkt ber að gera með beinni aðstoð hins opinbera og framlögum úr ríkissjóði.“ 3. minni hl, virðist að þessu leyti vera sammála mér um það, að það væri rétt að jafna þennan aðstöðumun þegnanna með því, að ríkissjóður tæki á sig einhverja byrði af þessu. Mér sýnist þess vegna í raun og veru, að ef — eins og ég sagði áðan — hefði verið einhver veruleg alvara í því að leysa þetta mál með samkomulagi, þá hefðu í raun og veru átt að vera möguleikar fyrir hendi til þess að ná samkomulagi um lausn eitthvað svipað því, sem ég legg til í þeirri brtt., sem fylgir hér nál. mínu á þskj. 628 og ég hef nú fært rök fyrir.

Ég geri reyndar ráð fyrir því, að eins og venjulega er um afgreiðslu mála í þinglok, þá gefist nú ekki mikið tækifæri til þess að reyna frekari samkomulagstilraunir, en í raun og veru hefði þó verið ástæða til þess, því að sannleikurinn er sá, að það hefur mjög lítið tækifæri gefizt til þess að ræða málið í n. og þessi nál. þess vegna meira gefin á hlaupum heldur en að það hafi verið reynt til þrautar um samkomulag í n. áður en málinu var skilað frá henni, en eftir því var mjög fast rekið, að því yrði skilað án dráttar frá nefndinni.

Ég vil sem sagt eindregið mælast til þess, að hv. þdm. vilji taka til alvarlegrar athugunar þá lausn, sem ég hér hef bent á og tel mig hafa fært allsterk rök fyrir.