29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1511 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. 1. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Ég hefði náttúrlega gjarnan viljað, að fleiri væru hér við, sérstaklega 6. landsk. þm., en það verður nú að hafa það.

Ég vil fyrst leyfa mér að benda á það, að þær upplýsingar, sem 3. minni hl. kemur með í sínu nál., þegar hann er að tala um, hvað benzín muni hækka og lækka við það, að sett sé verðjöfnunargjald, eru sýnilega alrangar, hverjum sem það er að kenna. Þetta sjá menn af því, að þeir segja, að það muni hækka benzínverð í Reykjavík um 4,5 aura, en lækka það frá benzíndælum úti um land um 6,5 aura. Ef við athugum nú, að benzínverðið núna er úti um land 15 aurum dýrara fyrir hverja 200 km, sem það er flutt frá höfuðstað, og að það er flutt mest 370 km á þær dælur, sem fjærst eru nú hafnarstað, þá sjáum við í hendi okkar, að það munar um 26 aura hér um bil, sem benzínið er dýrara, þar sem það er dýrast í landinu, heldur en hér í Reykjavík. Og þá ætlar hann að ná jöfnunarverði með því að hækka það á öðrum staðnum um 4,5 aura, en lækka það á hinum um 6,5 aura. Þetta er ekki til í dæminu. Lækkunin á benzíni úti um landið verður misjöfn; ákaflega misjöfn. Það getur vel verið, að hún verði einhvers staðar 6,5 aurar, en það er enginn mælikvarði fyrir því, að hún verði það almennt séð. Hún verður auðvitað misjöfn eftir því, hvar benzínið er, því að það er núna selt 15 aurum dýrara fyrir hverja 200 km, sem þarf að flytja það frá hafnarstað. Þess vegna geta þessar tölur, sem hv. 3. minni hl. er hér með, ekki verið réttar. Þær eru vitlausar. Og líklega er sannleikurinn sá, að þegar á að taka svona verð, eins og þeir taka, bara þrjú verð, þá geta þeir ekki fundið neina tölu, sem er rétt, nema þá kannske fyrstu töluna, hækkunina hér í Reykjavík, og varla hana heldur.

Þá vildi hann halda því fram, frsm. 3. minni hl., að það að setja jöfnunarverð á benzín og olíur væri algert brot, — ja, mér skildist helzt á því samkomulagi, sem gert hefði verið til þess að leysa vinnudeiluna, og alveg sérstaklega almennt brot á útgerðarmönnum, því að þeirra olía mundi hækka frá því, sem nú er.

Nú vil ég fyrst segja það, að ég hygg, að hæstv. ríkisstj. hafi aldrei haft svo heimska menn við að ákveða fiskverð til íshúsanna, sem rekstur bátanna byggist að mestu leyti á, að þeir hafi ekki reynt að finna meðalverð fyrir landið. Ég hygg, að hún hafi aldrei haft svo heimska menn við að ákveða það, hvað frystihúsin um allt landið eigi að kaupa fiskinn á, svo að útgerðin geti borið sig á þeim stað, að hún hafi tekið einn einasta stað og þá þann stað, sem olían hafi verið lægst á, og miðað við hann einan. En það yrðu þeir að hafa gert, ef þetta á að standast, sem hv. frsm. 3. minni hl. vildi vera láta. Það er alveg útilokað annað, þó að mér sé ekki kunnugt um það, heldur en að miðað hafi verið við meðalrekstrarkostnað, sem var ætlað að gilda fyrir stærra svæði, en fyrir einhvern einstakan stað með einhverju ákveðnu olíuverði. Ef það ekki væri, þá mætti gera ráð fyrir því, að verðið á hraðfrysta fiskinum inn í íshúsin væri misjafnt frá höfn til hafnar um allt landið, eins og olíuverðið er misjafnt frá höfn til hafnar um allt landið. En það hefur ekki verið. Það er látið vera það sama, og það er af því, að tekið er meðalverð. Þess vegna er langt frá því, að nokkrum sé gert rangt með því að láta nú koma til framkvæmda það meðalverð, sem lagt hefur verið til grundvallar við það, þegar talað er um, hvað eigi að borga fyrir fiskinn á hverjum stað til að standa undir rekstrarkostnaði. Það á einmitt að láta koma til framkvæmda það, sem raunverulega hefur verið gert, þegar fiskverð og annað hefur verið ákveðið.

Ef hv. þm. hins vegar vill nú halda því fram, að sýnt hafi verið það ranglæti, að allt hafi verið miðað við Faxaflóa einan, fiskverð og annað, og þess vegna sé það mjög ranglátt og brot á þeim samningum, sem gerðir hafa verið, þegar vinnudeilurnar hafa verið leiddar til lykta, þá skulum við bara athuga, hvernig það hefur orðið, þegar vinnudeilurnar voru leystar. Það er þrisvar sinnum búið að ræða um jöfnunarverð á olíum hér á Alþ. Það hefur alltaf haft meiri hl. Það var samþ. í fyrra till. frá hv. þm. Snæf., þáltill. til stjórnarinnar, af því að hæstv. ráðh., Björn Ólafsson, taldi þá, að hann gæti framkvæmt verðjöfnun eftir þeirri till., sem hann svo sá að hann ekki gat, þegar hann átti að fara að framkvæma hana. Þess vegna lá það ljóst fyrir, þegar var verið að tala um þessa vinnudeilu núna og samninga til lausnar henni, að fyrir lá í Alþingi frv. um jöfnunarverð og tillögur um sama efni höfðu haft fylgi þar áður. Þess vegna gátu þeir, ef þeir töldu, að það yrði eitthvað gengið á þeirra rétt með því, slegið þann varnagla að tala um það. Þeir vissu fyrir fram, að það yrði samþ. Þeir sáu, að þáltill. var samþ. í fyrra, að það var þingfylgi fyrir henni þá. Þeir sáu líka, að á þinginu í hittiðfyrra voru hv. þm. V-Húnv. (SkG) og hv. þm. V-Sk. (JG) með frv. um það, þó að það næði þá ekki samþykki, af því að það var talið, að það væri nóg að afgreiða það með rökstuddri dagskrá. Það var komið fram í Alþ. núna, og þeir vissu, hver þingviljinn var áður. Þess vegna máttu þeir vita, að það yrði samþ., og þess vegna áttu þeir, ef þeir að einhverju leyti héldu, að það kæmi í bága við sína hagsmuni hvað þetta snerti og hefði áhrif á vinnudeiluna, að taka tillit til þess og hefðu gert vitanlega, því að einhverjir hafa verið þar svo forsjálir menn, að þeir hafi vitað, hvað þeir voru að gera. Það er ég ekki í neinum vafa um. Þess vegna er það, hvort verðjöfnun komist á eða ekki, ekki á nokkurn hátt vinnudeilunni viðkomandi og að halda því fram byggt á algerum misskilningi. Það hefur engin áhrif á það, hefur aldrei verið um það talað í sambandi við vinnudeiluna, og ef nokkuð væri, þá er verið að framkvæma með verðjöfnuninni á olíunni það atriði, sem hlýtur að liggja til grundvallar, þegar sett var sama fiskverð á öllum hafnarstöðum inn í frystihúsin, hvort sem olían, sem til rekstrarins þarf, kostar mikið eða lítið.

Þá lagði frsm. 3. minni hl. töluvert upp úr því, að það yki kostnað að verðjafna olíu og benzín, af því að þá þyrfti að flytja meira, sérstaklega af benzíni, út um land heldur en ella. Mér þótti þetta ómaklega sagt af embættismanni, því að ég ætlast til þess, að allir embættismenn ríkisins séu það þjóðhollir, að þeir hafi hag heildarinnar í huga í öllum sínum gerðum. Og það er hagur heildarinnar, að tilkostnaður við hvað sem er sé eins lítill og hægt er. Það er þess vegna ómaklega sagt af embættismanni að ætla mönnum þá hugsun að því er snertir þá sjálfa, að þá sé þeim sama, hvort þeir kaupi benzínið þar, sem það er dýrt eða ódýrt, ef ríkið eigi í hlut, en ef þeir eigi sjálfir í hlut, þá fari þeir að hugsa um það, og þegar það sé orðið á sama verði, þá fari þeir með tóma bílana úr Reykjavík, fari bara á næstu stöð og fylli bílana þar og svo frá stöð til stöðvar, því að alls staðar kosti það jafnt.

Ég ætlast til þess, að allir embættismenn ríkisins hafi þann þegnskap við þjóðfélagið, sem þeir vinna fyrir frekar en aðrir menn, að þeir hugsi ávallt um, hvað sé þjóðarhagur, samhliða því að þeir hugsa um, hvað sé sinn hagur, og þess vegna sé illa mælt og ómaklegt af embættismanni að segja þetta. Hitt kann svo að vera, að einhverjir menn — ekki embættismenn, ég ætla þeim það ekki, — séu þeir sérhagsmunapokar, að þeir skilji ekki þörf heildarinnar og landsins og geri þetta þess vegna; það kann að vera. En einn hlutur er þá, sem vegur þar töluvert á móti, og það er það, að víðast hvar á stöðvunum, sem liggja lengra frá Reykjavík, þarf maður að bíða meira og minna eftir afgreiðslu. Og þegar menn eru komnir af stað í ferðalög út um land á sínum bílum, hvert sem er, þá vilja menn ógjarnan þurfa að bíða og flauta við benzíngeymana, sem standa fyrir utan tún eða þá að þeir standa heima á hlaði, og fólk sé allt inni og fáir heima við og kannske engir, eins og hefur komið fyrir mig á benzínstöð, — þá vilja menn ógjarnan þurfa að bíða og vilja þess vegna fylla bílana og hafa sem mest benzín til ferðarinnar, þegar þeir leggja upp í hana. Þetta vinnur þó dálítið á móti hjá þeim, sem ekki hugsa um hag heildarinnar og reyna að haga sinum framkvæmdum og verkum þannig, að það verði sem ódýrast og heppilegast fyrir heildina, heldur bara um hug og hag sjálfs sín og eigin geðþótta.

Þess vegna held ég, að þó að það sé dálítið til í þessu, að það geti orðið til þess, að það verði flutt eitthvað meira — þó ekki nema lítið — af benzíni, sem annars þyrfti ekki að flytja, vegna frv., vegna jöfnunarverðsins, þá geti það aldrei orðið nema lítið. Og ég vildi reyna að vinna með hv. frsm. 3. minni hl. að því að auka þann þegnskap hjá mönnum, að þeir skildu nauðsyn þess að spara, þó að það væru ekki aurar úr sinni eigin buddu, heldur þjóðarheildarinnar, sem væri um að ræða.

Ég held þess vegna, að það sé beinlínis áframhald á því, sem gert er, þegar byggt er á meðaltilkostnaði við útgerð á bát á stóru svæði á landinu og ákveðið það fiskverð, sem þeir eigi að fá og frystihúsin eigi að kaupa af þeim á, til þess að útgerðin geti borið sig, — það sé beinlínis áframhald af því að reyna að stuðla að því, að rekstrarkostnaðurinn sé sem jafnastur á öllum þessum stöðum, með því að gera olíuverðið jafnt, og að það hafi verið yfirsjón meira að segja að vera ekki búinn að því að gera það áður.

Hv. 2. minni hl. vill láta ríkið borga flutningskostnaðinn á benzíninu og olíunni frá hafnarstað. Hann vill láta benzínverðið vera jafnt um allt land, en ríkið borga brúsann, svo að það verði hvergi dýrara hjá einstaklingunum heldur en það er nú, þar sem það er lægst.

Mér finnst þessi till. vera þess verð, að hún sé athuguð. En mér finnst, að eftir að búið er að samþykkja fjárlög og afgreiða þau, þá komi hún ekki til mála. Áður en það hafði verið gert, þá gat vel komið til athugunar, hvort ætti að hækka benzíntollinn í heild sinni um 2 aura og gera benzínverðið jafnt um allt land eða lækka benzíntollinn um 2 aura og spara einhvers staðar annars staðar sem því nam á útgjöldum hjá ríkissjóði, þannig að það gætu náðst rekstrarhallalaus fjárlög. En eftir að búið er að afgr. þau, þá vil ég ekki setja hæstv. ríkisstjórn í þann vanda að taka af henni 2–3 millj., sem hér er um að ræða, og láta hana standa uppi fjárvana fyrir vikið. Þess vegna get ég ekki verið með þessu. En ég skal gjarnan vera með í því á næsta Alþ. að athuga möguleika á að koma því í þetta horf og hvort ekki er hægt að gera það með sparnaði á öðrum sviðum, því að ég álít það meira um vert að reyna að gera aðalrekstrarvörurnar, sem fjöldamargur rekstur í landinu byggist á, sem líkastar alls staðar, þannig að aðstaða manna verði sem jöfnust til að stunda atvinnuna og menn þurfi ekki þess vegna að leita af einum stað, þar sem aðstaðan er erfiðari, og safnist saman þar, sem hið opinbera gerir hana auðveldasta og hægasta. En eins og sakir standa núna get ég ekki á neinn hátt verið með því, af því að fjárl. hafa þegar verið afgr.

Annað held ég að ég þurfi nú ekki að segja. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þetta miklu meira. Ég vil endurtaka það, sem ég hef sagt, að ég tel það höfuðatriði og skipta ákaflega miklu máli; að aðstaðan til rekstrar sé gerð sem líkust á landinu, og hér er um það að ræða. Ég skal viðurkenna, að það er hægt að fara aðrar leiðir til þess, heldur en hér er um að ræða. En þær liggja lengra undan, og eins og málum nú er komið, þá eru þær alls ekki færar, a. m. k. ekki í bili. En það er sú leið, sem ég hér á við, að það er hægt gegnum misjafnt verð á fasteignum, sem hinn ýmsi atvinnurekstur þarf að nota á hinum ýmsu stöðum á landinu, og skatta á fasteignum að jafna aðstöðumuninn. Skattmat fasteigna er núna frá 1942 og hefur ekki verið breytt síðan, og það á eftir landslögum ekki að breytast fyrr en 1965. Á þessum árum hafa orðið svo miklar og margvíslegar breytingar, að það litla, sem fasteignamatið reyndi að gera í þessa átt áður, er alveg rokið í burtu nú, og ég efast nokkuð um, með þeim venjum og reglum, sem hér á landi hafa ríkt í þessum efnum, að þessum jöfnuði verði náð í gegnum fasteignamat, enda þótt ég viðurkenni, að það sé að ýmsu leyti eðlilegast að ná honum þar.