29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Frsm. 2. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að undirstrika það, sem hv. frsm. 3. minni hl. vakti athygli á hér áðan í framsöguræðu sinni, en það er það loforð, sem hæstv. ríkisstj. gaf í sambandi við lausn vinnudeilunnar hér um jólin og mjög hefur verið á lofti haldið í sambandi við afgreiðslu annars máls hér í d., þ. e. a. s. afgreiðslu á frv. til breyt. á almannatryggingalögunum. Ég býst við, að hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn séu ekki búin að gleyma því, að í þeim samningi, sem gerður var til lausnar vinnudeilunni, var eitt af loforðunum það, að verð á benzíni skyldi lækkað um 4 aura á lítra og á olíu sömuleiðis um 4 aura, og ég hygg, að þetta hafi þegar komið til framkvæmda, a. m. k. er það svo um benzínið. Nú vil ég spyrja þá hv. þdm. og þá hæstv. ráðh., sem í sambandi við afgreiðslu almannatrygginganna þvertóku fyrir það, að hægt væri að hagga nokkuð bókstaf þessa samnings, jafnvel þó að það væri í fullu samræmi við anda þess samnings, sem gerður var, hvernig þeir ætli þá að réttlæta það, ef þessum samningi verður breytt með því að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir og ég fæ ekki betur séð, en mundi leiða til þess, að tekin yrði til baka þessi lækkun á verði bæði olíunnar og benzínsins, samkv. þeim útreikningum, sem liggja fyrir hér í umsögnum olíufélaganna. Ég lagði að vísu ekki sérstaklega mikið upp úr því í sambandi við afgreiðslu almannatrygginganna, þó að fjölskyldubótunum væri hagrætt á þann hátt, sem fluttar voru till. um, vegna þess að þótt það væri ekki í fullu samræmi við bókstaf samningsins, þá taldi ég það í miklu meira samræmi við anda hans, ef þannig hefði verið fært til, en það þótti samt sem áður ekki fært vegna loforðanna, og þeir af stuðningsmönnum stj., sem risu hér upp hver á fætur öðrum og töldu sig samþykka þessum aðgerðum, ef þær brytu ekki í bága við þetta, treystu sér þó ekki til þess að greiða atkv. með þeim vegna þessa loforðs, sem ríkisstj. hefði gefið. Nú vil ég spyrja: Hvernig ætla þessir sömu hv. þm. að stuðla að því með atkv. sínu, að tekin verði til baka sú verðlækkun, sem framkvæmd hefur verið á benzíni og olíu til uppfyllingar á þessum samningi? Eða ætlar ríkisstj. og með hverjum hætti ætlar hún þá að tryggja það, að engin verðhækkun verði á benzíni og olíu hér í Reykjavík þrátt fyrir samþykkt þessa frv. eins og það nú liggur fyrir, ef það verður afgreitt óbreytt? Ég vildi gjarnan óska eftir því, að skýr svör kæmu hér fram viðvíkjandi þessum spurningum.

Annars þarf ég ekki að kvarta yfir því, að þeirri till., sem ég flyt hér um breyt. á þessu frv., hafi verið illa tekið. Báðir frsm., bæði 1. minni hl. og 3. minni hl., hafa eiginlega tekið mjög vel undir hana. Hv. 6. landsk., frsm. 3. minni hl., taldi, að það væri út af fyrir sig mjög æskilegt, ef hægt væri að samþ. till., en virtist hins vegar hafa áhyggjur af því, að það mundi kosta svo mikið fyrir ríkissjóðinn, að ef til vill væri það ekki hægt þess vegna. Frsm. 1. minni hl., hv. 1. þm. N-M., sagði einnig, að þessi till. væri þess verð að taka hana mjög til athugunar, og lofaði að vinna að því seinna, að það yrði gert, en taldi hins vegar, að vegna þess að búið væri að afgreiða fjárlög, þá væri ekki hægt að koma þessu í kring eins og sakir stæðu.

Ég hef nú í tilefni af þessum ummælum beggja þessara hv. frsm. leitað mér upplýsinga um það, hvað þetta mundi kosta ríkissjóð. Samkv. upplýsingum frá hagstofunni hefur innflutningur á benzíni 3 s. l. ár verið eins og hér segir: Árið 1950 var hann 24.983 tonn, árið 1951 17.181 tonn og árið 1952, þ. e. síðastl. ár, 24.810 tonn. Þetta gerir samtals 66.974 tonn, eða að meðaltali er innflutningurinn þessi þrjú s. l. ár 22.324 tonn. Nú er að vísu ekki sama tonn og lítri í þessu tilfelli, en sú verðhækkun, sem olíufélögin tala um hér, er miðuð við lítra. En ef þessu er breytt í lítra samkv. þeim aðferðum, sem olíufélögin nota um þyngd lítrans, þá mundi þetta meðaltal gera 29.725.900 lítra á ári. Ef verðjöfnunargjaldið á benzínlítra yrði 4,5 aurar, eins og olíufélögin tala um, en ég álít að sé í raun og veru fullhátt áætlað, mundi vera fullkomlega nóg að reikna með 4 aurum, en ef reiknað er með 4½ eyri á lítra, þá mundi þetta gera samkv. þessu ársmeðaltali 1.337.665.50 kr. Það er nú allt og sumt. Nú gæti að vísu farið svo, að innflutningur á benzíni, t. d. í ár, yrði eitthvað meiri, en þetta meðaltal, — það er ekki hægt að fullyrða um það, en það mundi muna ca. 60 þús. kr. fyrir hver þúsund tonn, sem flutt yrðu inn meira eða minna, svo að jafnvel þó að innflutningurinn yrði — við skulum segja — 3 þús. tonnum meiri á þessu ári, en ég álít ekki líklegt, að hann yrði öllu meiri en það, þá yrði það nálægt 1½ millj. kr., sem þetta verðjöfnunargjald á kostnað ríkisins mundi nema. Nú bar hv. 1. þm. N-M. því að vísu við, að það væri ekki hægt að taka gjöld af ríkissjóði, vegna þess að búið væri að afgreiða fjárlög, og mundi sennilega telja það eins, þó að ekki sé um stórkostlegri upphæð að ræða en þetta. En í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á, að á þeim fjárl., sem nú eru nýafgreidd, er áætlað innflutningsgjald af benzíni 9.2 millj. kr., en árið 1950, sem er síðasta ár, sem við höfum fengið í hendur ríkisreikning yfir, hefur innflutningsgjaldið af benzíni orðið ekki 9.2 millj. kr., heldur 12.411.128.32 kr., og ef reiknað er með því, að innflutningur benzíns fari heldur vaxandi og verði meiri á þessu ári, eins og ég gerði ráð fyrir áðan að hann gæti orðið, þ. e. meiri en þetta meðaltal og meiri en hann var árið 1950, þá mundu tekjur af innflutningsgjaldinu líka hækka samkv. því. Ég held þess vegna, að með því að samþ. það, að ríkissjóður greiddi þetta verðjöfnunargjald af benzíninu, sem mundi kosta hann 1.3 millj. kr., kannske upp í 1½ millj. kr., og það dragist frá þeim tekjum, sem hann fær samkv. fjárlögunum af innflutningsgjaldi af benzíni, þá mundi sá liður samt sem áður gera meira en að standast áætlun. Hann mundi eftir sem áður fara fram úr áætlun, þannig að ég held, að ef einhver vilji væri fyrir hendi í þessu efni, þá ætti að vera hægt að ráða fram úr því á þennan hátt.

Ummæli beggja frsm., bæði 1. og 3. minni hl., sem ég nú hef minnzt á, benda til þess, að það sé rétt, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að ef það hefði gefizt eitthvert tóm til þess að ræða málið í n., þá hefði líka sennilega verið fyrir hendi einhver samkomulagsgrundvöllur, þar sem þeir báðir hafa tekið undir þessa till. mína á þann hátt, sem þeir hafa gert. Og ég hef eiginlega ástæðu til eftir það, sem fram er komið, að óska eftir því, að umr. yrði frestað og n. fengi tækifæri til þess að ræða þetta frekar en orðið er, áður en 2. umr. lýkur, og sjá þá til fulls, í fyrsta lagi, hvort þeir hv. nm., sem í ræðum sínum hér hafa tekið undir till. mína, með vissum fyrirvara að vísu, vilja reyna samkomulag, og þar sem a. m. k. annar þeirra er nú stjórnarstuðningsmaður og stjórnarstuðningsmenn eru að sjálfsögðu í meiri hl. í n., hvort þeir vildu þá ekki um leið gera tilraun til þess að ná um það samkomulagi við þá stj., sem þeir styðja, að ríkissjóður taki á sig þessa tiltölulega litlu upphæð, sem farið er fram á í till. minni, þrátt fyrir það þó að búið sé að afgreiða fjárlög, og þannig væri hægt að leysa þetta mál án þess að íþyngja þeim mikla fjölda manna, sem búa hér í Reykjavík og á Suðvesturlandi og mundu, ef frv. yrði samþ. óbreytt, verða að taka á sig verðhækkanir, og þar með íþyngja bæði einstaklingum og atvinnufyrirtækjum á mjög tilfinnanlegan hátt. Ég sem sagt vildi gjarnan óska eftir því, að það yrði reynt enn til hlítar, hvort ekki er hægt að leysa þetta á þann hátt, sem ég hef lagt til, eða á einhvern annan sambærilegan hátt, sem hefði það í för með sér, að þetta kæmi ekki niður sem verðhækkanir á þeim vörum, sem um er að ræða.