29.01.1953
Efri deild: 58. fundur, 72. löggjafarþing.
Sjá dálk 1524 í B-deild Alþingistíðinda. (2170)

40. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. dómsmrh. endaði sína ræðu hér áðan þannig, að fylgi við þetta frv. væri sönnun þess, hversu menn misnotuðu trúnað sinn sem fulltrúar þjóðarinnar til þess að taka ranglega af samborgurum sínum fé. Ég verð að segja það, að ég fyrir mína parta mótmæli algerlega slíkum fullyrðingum. Ég hef á hverju þingi, sem þetta mál hefur verið til umr., lýst eindregnu fylgi mínu við málið, og ég vil á engan hátt láta dæma mig þannig, að ég sé með því að taka ranglega fé af samborgurum í þessu þjóðfélagi. Satt að segja varð ég alveg undrandi yfir því, að hæstv. dómsmrh., sá ágæti maður, skyldi láta þessi orð falla hér um þingbræður sína.

Það er sýnilegt, að þetta mál er ekki hjá neinum neitt flokksmál, þetta er hagsmunamál fyrir hin ýmsu héruð í landinu, sem vilja krefjast þess, að þeirra fulltrúar berjist fyrir því, að málið nái fram að ganga, eins og fulltrúar hér í kringum Faxaflóa og Reykjavík berjast fyrir því, að málið nái ekki fram að ganga. Þar er um fulltrúaskipti hvers aðila fyrir sig að ræða, en alls ekki undir neinum kringumstæðum brot á trúnaði í sambandi við málið. Ég tek það engan veginn illa upp hjá hæstv. dómsmrh., þótt hann beiti sínum ágætu rökum og skynsemi til þess að færa rök fyrir því, að hann hafi á réttu að standa. Honum ber skylda til þess að sjálfsögðu sem fulltrúa fyrir þá menn hér í Reykjavík, sem þykir það vera óhagnaður fyrir sig, að málið nái fram að ganga. En að brigzla okkur hinum fyrir að standa á verði fyrir hagsmuni okkar fulltrúa, það er sannarlega óverðuglega mælt af jafnágætum manni.

Í sambandi við þetta vil ég leyfa mér að benda á, hvernig þetta mál var afgr. hér á síðasta Alþingi. Hæstv. ráðh. talar um, að það hafi ekki verið þinginu til sóma að afgr. það eins og gert var. Ég ætla nú ekki út í þær deilur, hvað er þinginu til sóma nú orðið og hvað er til ósóma. Við höfum rætt það í sambandi við önnur mál. Og ég þyrði að leggja það undir dóm óvilhallra manna, að meðferðin og afgreiðslan á þessu máli á síðasta þingi er ekki meira þinginu til ósóma heldur en sumt, sem hefur verið afgr. hér nú. Skal ég ekki fara frekar út í það.

En það var samþ. hér till. með miklum meiri hl. atkvæða á Alþingi um að skora á hæstv. ríkisstj. að láta fara fram verðjöfnun á olíu um allt land. Hæstv. ráðh., sem átti að taka við þál., framkvæmdi aldrei þessa þál. og taldi sig — kannske réttilega — ekki geta gert það, nema um þetta væri gerð sérstök löggjöf. Ég ætla ekkert að álasa honum fyrir það út af fyrir sig, þótt mér hefði nú þótt eðlilegra, að hann hefði verið hér til viðræðna í dag um þetta mál, sem er svo mjög vel sótt og varið af báðum aðilum. En þó að hann hafi ekki getað það út af fyrir sig, og þó að það sé alveg rétt, sem hæstv. dómsmrh. segir hér, að það hefði verið ófyrirgefanlegt og ósæmandi fyrir hæstv. ríkisstj. að gefa út bráðábirgðalöggjöf, svo að hægt væri að uppfylla þingviljann, þá er eitt þó alveg víst, að hæstv. ráðh. ekki einungis gat, heldur bar honum beinlínis skylda til að láta undirbúa þetta mál í frumvarpsformi fyrir samkomudag þessa þings, sem nú er að líða. En það var bara ekki gert. Hann þurfti enga bráðabirgðalöggjöf til þess að undirbúa málið þannig, að fyrir lægi að vel athuguðu máli löggjöf um þetta atriði. Það var búið að ræða málið hér á mörgum þingum, og hann var búinn að vita um fylgi meiri hl. alþm., að þeir vildu hafa þessi mál þannig, og þá var ekkert eðlilegra, en að gera þá kröfu til hæstv. viðskmrh., að hann léti undirbúa frv. um málið og það á þann viturlegasta hátt og bezta, sem hann taldi hægt að gera. En af hverju er þetta ekki gert? Það er af því, að viðkomandi ráðh. hafði ekki einungis engan áhuga á málinu, heldur var beinlínis á móti málinu. En þar er hann að bregðast meira sínum skyldum, heldur en við erum að gera, sem höldum á þessum rétti fyrir okkar umbjóðendur. Stundum verða menn í ábyrgðarstöðum að gera fleira, en þeim þykir gott sjálfum. Þess vegna hefði verið langeðlilegast, að hann hefði lagt fyrir þingið löggjöf um þetta atriði, byggt m. a. á rannsókn, hvernig þetta er starfrækt í öðrum löndum. Ég þekki ekki eitt einasta land, sem ég hef farið um, þar sem benzín er ekki jafndýrt, hvar sem maður kemur að, á hvaða stað, hvort það er heldur við strönd í stórum bæjum, smábæjum eða jafnvel upp til fjalla. Og ég hefði gaman af að heyra, hvort þeir menn, sem eru andstæðir þessu frv., gætu bent á eitt einasta tilfelli, þar sem það hefur skeð. En hvernig fara þá olíusalar og olíufélög og þjóðfélög þeirra landa að hafa þetta skipulag á? Það væri ákaflega upplýsandi í þessu máli að fá að vita um það. Ég þekki heldur ekkert land, þar sem brennsluolía er með mismunandi verði, nema í einstöku stöðum, þar sem um mjög stóra tankforða eða olíugeyma er að ræða og sérstök aðstaða er til að leggja olíu á land, og þá jafnan, að þaðan sé selt í stórum stíl, en ekki smásölu. Alls staðar annars staðar, sem ég þekki til, er hráolía seld á sama verði. Og mér skilst, að þær upplýsingar liggi fyrir bæði frá Norðurlöndum og sumum öðrum löndum í sambandi við þetta mál, að þannig sé þessu fyrir komið alls staðar. Og þá er spurningin þessi: Hverjir bera dreifingarkostnaðinn? Það eru sannarlega ekki ríkissjóðir þessara landa, sem gera það. Það eru olíufélögin sjálf, sem gera það.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að ef þetta frv. yrði samþ., þá væri nauðsynlegt að gera ýmsan jöfnuð á öðru verðlagi í landinu. Minntist hann m. a. hér á húsaleigu, laun manna o. fl. o. fl. Ég skal í sambandi við það leyfa mér að benda á, að það hafa komið, sem eðlilegt er, mjög róttækar kröfur undanfarin ár um að gera jöfnunarverð á rafmagni um allt land. Og ég held, ef það er athugað, að þá sé síður en svo, að það sé nokkur fjarstæða. Hæstv. ráðh. veit vel, að það er fyrir styrkleika þeirra manna, sem hafa ráðið hér í þessu landi undanfarin ár, að þéttbýlið hefur verið látið ganga fyrir um alla raforku. Hann veit, að það hafa verið teknir tugir milljóna til þess að fjárfesta í þessum orkuverum og hinir hafa orðið að bíða eftir sams konar gæðum um mörg ár og munu þurfa að bíða eftir þessu fjöldamörg ár enn. Þegar ofan á þetta á síðan að koma, að þessir menn verða að reka olíustöðvar, framleiða raforku með olíuvélum og fá ekki einu sinni aðstöðu til þess að hafa olíu með sama verði eins og hér er í Rvík, þá finnst mér nú, að það sé nú beitt nokkuð mikilli hörku í sambandi við þessi mál yfirleitt. Við afgreiðslu fjárlaganna lá hér fyrir till. um það frá raforkumálastjóra að leggja fram fyrir dreifbýlið úti á landinu, sem neitað hefur verið um vatnsraforkuver, vegna þess að þéttbýlið varð að ganga fyrir, 1½ millj. kr. í sérstakan sjóð til þess að lána þessum mönnum, á sama hátt og þeir menn fá úr raforkusjóði, sem hafa fengið öll fríðindi um forgang í raforkumálunum, því að ekki eitt einasta raforkuver hér hefur getað staðið undir sér fyrstu árin og orðið að fá milljónir úr raforkusjóði að láni, sem teknar eru einnig af fólkinu úti á landinu, til þess að standa undir sínu tapi, þar til búið er að selja svo mikið af orku, að línurnar eru farnar að standa sjálfar undir kostnaðinum. Þessi miðlun hefur verið tekin hér á öðrum sviðum, en hún hefur bara ekki náð út fyrir þéttbýlið hér í kringum Reykjavík og í kringum Akureyri; lengra má hún ekki undir neinum kringumstæðum ná.

Mér skildist nú á hæstv. ráðh. áðan, að þetta snerti aðeins og eingöngu útgerðarmenn, en þetta er mesti misskilningur. Þetta mál snertir sannarlega engu síður bókstaflega alla þegna umhverfis landið. Það er alltaf meira og meira verið að ýta kolanotkun út og taka inn olíunotkun, jafnvel hjá hverju einasta heimili í landinu. Sumpart eru notaðar dieselvélar til þess að framleiða ljós og orku fyrir heimilið eða það er verið að setja upp olíukyntar eldavélar eða olíukynt hitunartæki í svo að segja hvert heimili umhverfis landið. Þetta snertir sannarlega meira en útvegsmenn á viðkomandi stöðum. Þetta er orðið svo stórkostlegt atriði í hinn daglega lífi svo að segja hvers einasta manns umhverfis landið, að það er svo sem ekki furða, þótt þeir knýi á sína fulltrúa um að fylgja þessu máli fast fram. Og það er sannarlega engan veginn sanngirni að kasta því svo fram hér á Alþingi, að við séum að brjóta okkar trúnað með því að bera fram og koma hér lögum í gegn í Alþingi til þess að tryggja, að það sé ekki gengið áframhaldandi á rétt þessara manna.

Hæstv. ráðh. sagði, að hér heimtuðu sjómenn hærri laun, en sjómenn í öðrum landshlutum, og spurði, hvort við vildum láta ríkið taka að sér að greiða þann mismun, sem útvegsmenn hafa af þessum kostnaði. Ég vil svara þessari spurningu með því að spyrja: Vill hæstv. ríkisstj. taka að sér að láta ríkissjóð greiða þann mismun, sem menn úti á byggðinni verða að borga meira fyrir svo að segja hverja vörutegund, sem til þeirra er flutt? Ég veit ekki betur en olía, kol, matur, byggingarefni og hver og ein einasta vörutegund kosti miklu meira úti á landinu, á sama tíma sem laun eru að þokast úti á landinu upp í það sama sem sett er hér í Rvík. Hvernig hafa þá einmitt atvinnutækin aðstöðu til þess að reka atvinnu úti á landinu, samanborið við Rvík? Þau standa þannig, að þau hrynja hvert af öðru niður. Þau geta ekki annað. Launin eru orðin svo að segja þau sömu. Allur kostnaður við flutning á hráefni að og frá er orðinn margfalt meiri en var. Ég vil í sambandi við þetta af eigin reynslu leyfa mér að upplýsa, að í okkar mjög litlu verksmiðju, sem framleiddi fyrir um tæpar 2 millj. kr. á ári niðursuðuvörur, kostaði yfir 80 þús. kr. flutningurinn á hrávörunni til verksmiðjunnar og varan aftur flutt hingað til Rvíkur. Þetta er hlutur, sem verður að greiðast af framleiðslunni og ekki hægt að greiða af neinum öðrum. Fyrir stríð var þetta allt öðruvísi. Þá var það þannig, að menn fengu miklu minni laun úti á landinu. Þá voru launakjörin ekki þvinguð eins upp og nú er, og það var beinlínis vegna þess, að innlenda framleiðslan, kjöt og fiskur, garðávextir og mjólk, var miklu ódýrari úti á landinu, en þá var í Rvík. Nú er þessu snúið alveg við. Nú er fiskur og kjöt í nákvæmlega sama verði, hvar sem er á landinu, en allar innfluttar vörur miklu dýrari en í Rvík, svo að þessir menn standa miklu verr í lífsbaráttunni en hér í Rvík. Þetta er sannleikurinn í málinu.

Hæstv. ráðh. sagði einnig hér: Hvers vegna var þá ekki tryggingalöggjöfinni breytt hér, og hvers vegna er þá verið enn þá að halda tveimur verðlagssvæðum? Ég skal gjarnan svara því. Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum um það, hvers vegna þessu var ekki breytt. Það veit hæstv. ráðh. Því var nú ekki breytt vegna þess, að það var fyrirskipað af hæstv. ríkisstjórn, að þar skyldi engum staf breytt. Það var meginástæðan fyrir því. En alveg burt séð frá því, þá eru tekin tvö verðlagssvæði nú vegna þess, að það kostar ríkissjóðinn ákveðna tugi milljóna króna að gefa fólkinu úti á landi sama rétt og var upphaflega gefinn hér í Rvík. Vitanlega á fólkið kröfu á þessu, og það kemur að því, að það verði gert, því að það er náttúrlega engin sanngirni í því, að maður úti á landinu skuli aðeins fá 80% af bótum á móts við mann, sem býr í kaupstað. Það er engin sanngirni í því, og það getur ekki gengið lengi. Það gat aðeins gengið, á meðan þessi verðmismunur var, eins og ég sagði, á þeim neyzluvörum, sem notaðar voru áður, en þegar hann er enginn eða hann er heldur óhagstæður þeim, sem búa úti á landinu, þá er ekki hægt að halda þessu lengur áfram. Hins vegar hefur þetta verið þolað af fólki úti á landi, m. a. vegna þess, að þeir greiða þá ekki heldur nema 80% af iðgjöldum á móts við þá, sem búa á 1. verðlagssvæði. Ef þeir væru nú látnir greiða sömu iðgjöld og þeir greiða á 1. verðlagssvæði, þá væri náttúrlega gersamlega óþolandi, að þeir fengju ekki sömu bætur, svo að það er ekki hægt að bera þetta nákvæmlega saman. Hins vegar ber ekkert lítið á því nú orðið, að menn notfæri sér þetta, greiði 20% lægra iðgjald, á meðan þeir eru úti á landsbyggðinni, og feti sig síðan yfir á 1. verðlagssvæði til þess að fá 20% hærri bætur. Ef þessir möguleikar væru ekki fyrir hendi, þá mundi fólkið úti á landi rísa upp og neita að lúta þessum ákvæðum trygginganna, svo að ég veit, að hæstv. ráðh., þegar hann athugar nú þessi mál, sér, að þetta er engan veginn sambærilegt.

Hæstv. ráðh. sagði hér áðan, að það hefði ekki verið hægt að líta öðruvísi á, en að afgreiðslan á þessu máli á síðasta þingi hefði ekki verið alvörumál fyrir þá, sem að því stóðu. Ég held, að það sé alveg misskilningur hjá hæstv. ráðh. Ég get upplýst hæstv. ráðh. um það, að á 11 fundum, sem ég hafði í mínu kjördæmi á s. l. sumri, þá var þetta eitt af allra mestu áhugamálunum á hverjum og einum einasta fundi. Það var hvað eftir annað gerð fyrirspurn til mín um það, hvort ég vildi ekki taka upp baráttu fyrir því, að þessi löggjöf kæmist á, og það er af þeim ástæðum, sem ég þegar hef lýst, svo að það er síður en svo, að hér sé ekki um alvörumál að ræða fyrir þá aðila, enda er það alveg skiljanlegt, að ef það er áhugamál fyrir Reykvíkinga og þá, sem búa við Faxaflóa, að þetta frv. nái ekki fram að ganga, þá er það alveg jafnmikið áhugamál fyrir hina, sem eru fyrir utan þetta svæði, að frv. nái fram að ganga. Í þessu liggur ekki nein ásökun til hæstv. ráðherra eða þeirra manna, sem fylgja því að torvelda framgang frv., síður en svo. Ég skil ákaflega vel þeirra skyldur í þessu máli. En þeir verða þá líka að skilja aðstöðu okkar hinna.

Svo sagði hæstv. ráðh., að þetta mál hefði ekki fengið skemmtilega meðferð á undanförnum þínum. Ég veit nú ekki, hvað hæstv. ráðh. á við með því. Var það ekki fullkomlega þingleg meðferð og skemmtileg meðferð, að meiri hluti hv. alþm. gerir í venjulegri þál. áskorun til hæstv. ríkisstj., sem hann styður og treystir, að koma þessum málum í framkvæmd? Ég sé ekki annað en það sé fullkomlega eðlileg meðferð á málinu. Hitt tel ég miklu óskemmtilegri aðferð í máli, sem við höfum orðið að horfa upp á nú undanfarna daga, að semja um þingmál fyrir utan þingsalina, á meðan þingið situr, og það um stórkostlega viðkvæm mál, eins og gert hefur verið, og geta svo ekki vegna þeirra samninga breytt einum einasta stafkrók í þeim frv., eins og hefur sýnt sig hér undanfarna daga. Ég tel, að þetta sé miklu óskemmtilegri meðferð. Ég er ekki að ásaka hæstv. ráðh. fyrir að hafa verið í því. Ég þekki ákaflega vel þá erfiðleika, sem hann og hæstv. ríkisstj. áttu við að stríða í þessu máli, og dettur ekki í hug að vera að ásaka hana fyrir það. En ég segi bara, að ef afgreiðslan á þessu máli var leiðinleg eða óþingleg eða óskemmtileg á síðasta ári, hvernig hefur þá verið um þau mál, sem hér hafa verið afgr. á undanförnum dögum? Ég veit bara ekki, hvort við, sem erum fulltrúar fyrir þessa menn úti á landinu, eigum bókstaflega nokkuð hægara með að láta vera að halda uppi baráttu fyrir því, að þetta frv. nái fram að ganga, heldur en hæstv. ríkisstj. átti í samningum um þau mál, sem hún var að semja um. Svo mikið áhugamál er þetta fyrir menn úti á landinu.

Þá sagði hæstv. ráðherra, að útvegsmenn væru á móti þessu. Við þurfum nú ekki að þekkja mikið hér til L. Í. Ú. og til þeirra mála, sem það hefur haft með höndum hér undanfarin ár, til þess að vita, að þar ræður nú mergðin hér í kringum Faxaflóa, en ekki mergðin umhverfis landið. Í hverju máli, sem hér hefur verið rætt um og tekin afstaða til undanfarin ár, eru það þeir, sem hafa ráðið, en ekki mennirnir utan af landinu. Það kann að vera af því, að þeir hafa ekki verið nægilega duglegir að senda sína fulltrúa, en það kann líka eitthvað að skapast af því, að þeir menn, sem eru hér við Faxaflóa, hafa miklu sterkari aðstöðu til þess að ráða í þessum málum. Þeir eiga miklu hægara með að koma á þessa fundi. Þeir eru miklu sterkari yfirleitt og mannfleiri og hafa þar af leiðandi getað ráðið málum miklu frekar, en hinir úti á landinu, auk þess sem, eins og ég tók fram áðan, þetta snertir miklu fleiri menn, en útgerðarmennina.

Þá sagði hæstv. ráðh., að hér mundi þurfa að setja upp ákaflega mikið skrifstofubákn í sambandi við framkvæmd þessara laga. Ég er nú sammála hæstv. ráðh. um það, að ég álít, að þessi hv. d. hafi allt of lítinn tíma til umráða í svona miklu máli. Um þetta get ég verið sammála hæstv. ráðh., og mér þykir leitt, að hv. Nd. skuli hafa haldið málinu svo lengi sem hún gerði og ekki gefið þessari hv. d. tækifæri til þess að vinna betur að því í nefnd, því að hér er ekki um neitt smámál að ræða. Hitt á ég bara ómögulegt með að skilja, að það sé þörf á því að ganga þannig frá málunum, að það þurfi að skapa þetta skrifstofubákn, sem hæstv. ráðh. talaði um. Og meðal annars vil ég vísa í það, sem ég sagði hér áðan, að ekki er þetta í öðrum löndum. Þar er ekkert skrifstofubákn í sambandi við þessi mál. Þar er þessu þannig komið fyrir, — hvort það er með lögum, skal ég ekkert segja um, eða hvort það er samkomulag við viðkomandi aðila, — en því er komið þannig fyrir, að olían kostar jafnmikið hvar sem er í landinu og benzín jafnmikið hvar sem er í landinu. Þess vegna hygg ég að meginástæðan fyrir því, að allar þessar upplýsingar um það, hvernig sé hægt að koma þessu hagkvæmlega fyrir, liggja ekki fyrir, sé hreint og beint sök hæstv. viðskmrh., því að eftir að ham var búinn að taka við þeirri þál., sem samþ. var í fyrra, þá bar honum áreiðanlega skylda til þess að láta a. m. k. allar upplýsingar liggja fyrir hv. Alþ. um þetta mál og helzt að bera fram stjórnarfrv. í sambandi við málið, hvort sem hann persónulega var sjálfur með málinu eða á móti.

Ég hefði kosið, að nokkrar breyt. hefðu verið gerðar á frv., en það er alveg sýnilegt, að ef á að fara að gera á því breyt. nú, þá mun það ekki komast í gegnum þingið, nema því aðeins að nægilega sterkur þingvilji sé fyrir því að stöðva alla þingmenn hér á þingi og framlengja þingið, þangað til þetta mál er til lykta leitt. Það verður náttúrlega ákaflega erfitt að gera það á móti vilja hæstv. ríkisstj., ef hún er raunverulega á móti því, að málið nái fram að ganga. Þó að þingið þyrfti að sitja yfir málinu nokkra daga eða jafnvel víkur, þá er það áreiðanlega þess virði, að það væri vel til vinnandi. En eins og ég tók fram áðan, þá er ákaflega erfitt að gera það á móti vilja hæstv. ríkisstjórnar.

Ég get svo að síðustu aðeins sagt það, að ég get á engan hátt samþ. þær till., sem eru lagðar fram hér frá hv. 4. landsk. Ég vil ekki, að ríkissjóður taki á sig neina fjárhagslega byrði í sambandi við verð á benzíni. Við vitum t. d. nú, að ríkið fær til þess að sinna ákveðnum verkefnum, eins og til að byggja brýr, ákveðinn hluta af benzínskattinum. Og ef hægt er að taka stærri hluta af benzínskammtinum til eins eða annars, þá á sá hluti fyrst og fremst að fara til þess að efla brúasjóðinn, því að svo mikil þörf er á því máli. Það þekki ég frá öllum þeim gögnum, sem hafa komið til Alþ. undanfarin ár, að svo mikil þörf er á að koma þar fram víðtækari og meiri framkvæmdum í þeim málum, að ég gæti aldrei fylgt því, að einn einasti eyrir af benzíntollinum, sem ríkissjóður annars gæti af misst, færi í neitt annað, en í þann sjóð. Það er stórkostleg þörf á að auka það, og það hefur verið sótt mjög á frá vegamálastjóra að auka tekjur hans, annaðhvort hækka benzínskattinn eða fá stærri hluta af benzínskattinum inn í brúasjóðinn. Það eru svo stórkostleg verkefni, sem þar liggja fyrir óunnin til hagsbóta fyrir dreifbýlið, uð ég gæti aldrei undir neinum kringumstæðum samþ. það, að hvorki hálf önnur millj. né neitt annað yrði tekið frá þeim málum, og ég sé ekki að það þurfi að gera.

Ég hygg, að ef þetta mál væri athugað gaumgæfilega, þá væri hægt að gera þetta með samkomulagi eða fyrirskipun um, að olíufélögin sjálf skyldu annast þessa dreifingu. Og það er það, sem á að gera. Það hefur sannarlega ekki enn þá verið rannsakað um það, hvort þeim sé það um megn. Síður en svo. Ég hygg, að þeirra ágóði sé enn þá allverulegur, miklu meiri en dreifingin kostar. Að vísu kynni það að ganga nokkuð út á þá möguleika hjá Reykjavík að leggja hærri útsvör á þessa aðila, ef þeirra ágóði minnkar. En Reykjavík má þá ekki heldur eingöngu hugsa um sinn hag í því máli. Nú er það líka alveg vitað, að Reykjavík hefur ekkert lítinn hag af því, að dreifbýlið eða hinir ýmsu staðir úti á landinu geti bæði haft framleiðslu og rekið þar eðlilega atvinnu. Það veit nú hæstv. ráðherra, því að svo mjög hefur hann lagt því lið, að hægt væri að halda uppi atvinnu í þeim landshlutum. M. a. gengur ákaflega mikið af vöruframleiðslunni frá þeim landshlutum hér í gegnum höfuðborgina, þeir borga hér skatt til höfuðborgarinnar í hafnargjöldum og veita vinnu o. s. frv. við umskipun hér á vörunum, svo að það er siður en svo, að það sé nokkurt böl fyrir Reykjavík, að þessir staðir geti lifað, síður en svo. Auk þess sýnir það sig nú í sambandi við húsnæðismálin í Keflavík, að ef í einn stað streymir óeðlilega mikið fólk á óeðlilega skömmum tíma, þá skapast þar slíkt vandamál, m. a. í sambandi við húsnæðismálin, þar sem talið er, að hvert rúmstæði kosti nú í Keflavík um 200 krónur á mánuði. Það ber því að líta á þetta frá fleiri en einni hlið, og ég veit nú, að hæstv. ráðh. er svo sanngjarn og svo viti borinn maður, að þegar hann fer að athuga þessi mál, þá er ýmislegt, sem styður það, að það sé fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt fyrir okkur, sem erum fulltrúar fyrir menn utan af landinu, að halda fast á þessum málum.